Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 29, 15. - 21. júlí 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

345 skjálftar mældust á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg samtals þessa viku. Markverðust var lítil skjálftahrina við Hvalhnúk austur af Brennisteinsfjöllum 21. júlí. Stærsti skjálftinn mældist 1,8 að stærð. Landris er stöðugt í Svartsengi og skjálftavirkni hefur aukist lítillega frá því vikuna á undan á Sundhnúksgígaröðinni og við Grindavík. Einnig mælast skjálftar við Fagradalsfjall. Dreifð virkni mældist vestan við Kleifarvatn. Á Reykjaneshrygg mældust 25 skjálftar, sá stærsti 2,4 að stærð.

Suðurlandsbrotabeltið og Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu mældust tæplega 60 skjálftar, flestir við Nesjavallavirkjun í skammvinnri hrinu. Um 20 skjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu, dreifðir um svæðið. Tveir skjálftar mældust í Heklu.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Einn skjálfti mældist í vestanverðum Langjökli og þrír í Hofsjökli. Tveir skjálftar mældust við Sandvatn vestan við Bláfell. Þá mældist einn skjálfti við Selfjall sunnan við Grjótárvatn.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði

Smávægileg aukning var í skjálftum í Mýrdalsjökli, en tæplega 60 skjálftar mældust í viku 29, sá stærsti 2,5 að stærð. Fimm skjálftar mældust við Torfajökul þessa vikuna og enginn í Eyjafjallajökli.

Vatnajökull

Skjálftavirkni var með rólegra móti í Vatnajökli þessa vikuna. Einn skjálfti var í Öræfajökli, einn í Skeiðarárjökli og einn í Grímsvötnum og Bárðarbungu. Eins var einn skjálfti í Vestari Skaftárkatli. Nokkrir skjálftar mældust við Kverkfjöll.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Við Öskju mældust 18 skjálftar, bæði við Öskjuvatn og í norðvestanverðum Dyngjufjöllum. Við Herðubreið og Herðubreiðartöglum var lítil virkni, samtals um 10 skjálftar.

Krafla og Þeistareykir

Lítil virkni var við Kröflu og Bæjarfjall, samtals 15 skjálftar, heldur fleiri við Bæjarfjall.

Tjörnesbrotabeltið

Nokkur virkni var á Tjörnesbrotabeltinu í liðinni viku, alls rétt rúmlega 100 skjálftar. Lítil hrina átti sér stað við Flatey á Skjálfanda þann 15. júlí og einnig norðaustur af Grímsey. Eins voru litlar hrinur í Öxarfirði þann 17. júlí.

Kolbeinseyjarhryggur

8 skjálftar voru staðsettir á Kolbeinseyjarhrygg í vikunni, þar af stærstu skjálftar vikunnar. Þeir voru 3,1 og 3,3 að stærð og báðir 21. júlí.

Skjálftalisti viku 29




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica