Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 26, 24. – 30. júní 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Rúmlega 140 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, virknin var aðallega við Fagradalsfjall, Kleifarvatn, Brennisteinsfjöll og suðaustur af Heiðmörk. Áframhaldandi landris mældist við Svartsengi, hraði landrisins jókst eftir að gosi lauk og er nú orðin meiri en það sem mældist fyrir gosið sem hófst 29. maí. Hraða aflögunar má túlka sem að kvikuinnstreymi inn í kvikuhvolfið á 4-5 km dýpi haldi áfram.

Úti á Reykjaneshrygg mældust um 20 skjálftar í vikunni, sá stærsti 3 að stærð, þann 26. júní.

Hengilssvæðið

Rúmlega 20 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu. Þeir voru nokkuð dreifðir um svæðið, sá stærsti mældist 2.3 að stærð, norðvestur af Skálafelli.

Suðurlandsbrotabeltið
Tæplega 30 jarðskjálftar voru staðsettir á Suðurlandsbrotabeltinu jafndreift um beltið. Stærsti skjálftinn var 1.9 að stærð suður af Ingólfsfjalli.

Tveir litlir skjálftar mældust við Heklu, allir undir 1 að stærð.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Fjórir skjálftar mældust við Langjökul í vikunni, þrír í Geitlandsjökli og einn norðaustur af Geitlandsjökli. Einn skjálfti mældist austur af Grímsstaðamúla.

Fjórir skjálftar mældust í Hofsjökli, sá stærsti 1.7 að stærð.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið
Í Mýrdalsjökli mældust rúmlega 30 skjálftar, stærsti skjálftinn mældist 1.7 að stærð þann 29.júní. Einn skjálfti varð í Eyjafjallajökli sunnanverðum og einn á Torfajökulssvæðinu, hann mældist 2.1 að stærð.

Vatnajökull
Í Vatnajökli mældust rúmlega 30 skjálftar, stærsti skjálftinn mældist 3.4 að stærð í Bárðarbungu þann 30. júní en hann var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Alls mældust 13 skjálfar í Bárðarbungu. Tæplega 10 skjálftar mældust í Öræfajökli sá stærsti 1.7 að stærð þann 24.júní. Aðrir skjálftar dreyfðu sér um jökulinn.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Rúmlega 20 skjálftar mældust við Öskju í vikunni, flestir við austurbakka Öskjuvatns og mældust allir undir 2 að stærð. Um 40 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl í vikunni.

Krafla og Þeistareykir

Um 10 skjálftar voru staðsettir við Kröflu og þrír við Bæjarfjall.

Tjörnesbrotabeltið

Rúmlega 40 jarðskjálftar mældust norðan við land flestir á Grímseyjarbeltinu og í Öxarfirði. Stærsti skjálftinn mældist 2.5 að stærð rétt austur af Grímsey.



Vikuyfirlit má finna í eftirfarandi hlekk: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2024/vika_26/listi




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica