Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 25, 17. – 23. júní 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Rúmlega 210 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, virknin var aðallega við Fagradalsfjall, Kleifarvatn og Trölladyngju sem og í Brennisteinsfjöllum. Eldgosinu við Grindavík lauk þann 22. júní og fjórir skjálftar mældust í kvikuganginum í vikunni. Jarðskjálfti 3,1 að stærð mældist kl. 21:26 þann 19. júní við Brennisteinsfjöll, nánar tiltekið í Draugahlíðum. Nokkrir minni eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið en síðast varð skjálfti yfir 3 að stærð á þessu svæði í maí 2021.

Úti á Reykjaneshrygg mældust 10 skjálftar í vikunni, sá stærsti 2,2 að stærð, þann 21. júní.

Hengilssvæðið

Rúmlega 20 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu í viku 25. Þeir voru nokkuð dreifðir um svæðið og allir undir 1 að stærð.

Suðurlandsbrotabeltið

Rúmlega 30 jarðskjálftar voru staðsettir á Suðurlandsbrotabeltinu jafndreift um beltið. Stærstu skjálftarnir voru 1,7 að stærð, þeir voru annars vegar við Raufarhólshelli og hins vegar suðvestan við Næfurholtsfjöll.

Þrír litlir skjálftar mældust við Heklu, allir undir 1 að stærð.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Fjórir skjálftar mældust við Langjökul í vikunni, tveir í Þórisdal, einn austan við Hafrafell og einn í Hallmundarhrauni. Skjálftarnir voru allir á bilinu 1,2 til 1,6 að stærð.

Einn skjálfti mældist við Langavatn í Borgarfirði í vikunni, sá var 1,7 að stærð. Fjórir skjálftar mældust í norðvestanverðum Hofsjökli, sá stærsti 2,1 að stærð.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið

Í Mýrdalsjökli mældust 12 skjálftar og þann 19. júní kl. 21:26 mældist skjálfti af stærð 3,3. Strax á eftir mældust tveir skjálftar af stærð 2,6 og 2,8 en engin önnur eftirskjálftavirkni mældist. Einn skjálfti varð í Eyjafjallajökli sunnanverðum og einn á Torfajökulssvæðinu, báðir undir 0,5 að stærð.

Vatnajökull

Í Vatnajökli mældust 38 jarðskjálftar nokkuð jafndreift um svæðið. Fimm skjálftar voru við Bárðarbungu og djúpa svæðið austan hennar. Tveir skjálftar í Grímsvötnum og þrír smáskjálftar voru í lóninu austan í Skeiðarárjökli. Í Öræfajökli voru 13 smáskjálftar í vikunni.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Tæplega 70 skjálftar mældust við Öskju í vikunni, flestir við austurbakka Öskjuvatns og mældust allir undir 2 að stærð. Stutt skjálftahrina varð við austurbakkann sem hófst um miðnætti 17. júní og lauk um kl. 2 aðfaranótt 18. júní, í hrinunni mældust um 40 skjálftar. Um 20 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl í vikunni.

Krafla og Þeistareykir

Fimmtán skjálftar voru staðsettir við Kröflu og um 10 við Bæjarfjall.

Tjörnesbrotabeltið

Tæplega 40 jarðskjálftar mældust norðan við land flestir á Grímseyjarbeltinu og í Öxarfirði. Stærstu skjálftarnir mældust 1,9 að stærð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar annars vegar og við Grímsey hins vegar.

Þrír skjálftar mældust á Kolbeinseyjahrygg í vikunni.



Vikuyfirlit má finna í eftirfarandi hlekk: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2024/vika_25/listi




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica