Spurt og svarað

Hugsmidjan AD 24.6.2021

Hvenær gaus síðast í Grímsvötnum og hversu oft hefur gosið þar?

Síðast varð eldgos í Grímsvötnum í maí 2011 og þar áður árin 2004 og 1998. Eldstöðvarkerfið í Grímsvötnum hefur verið það virkasta á landinu á nútíma og Á íslensku eldfjallavefsjánni kemur fram að gossaga sé nokkuð vel þekkt seinustu 800 árin og það hafi verið í kringum 65 á gos á því tímabili.   

Eldgosið 2011 var nokkuð stærra en önnur nýleg gos í Grímsvötnum. Fara þarf aftur til ársins 1873 til að finna gos af svipaðri stærðargráðu. Eldgosið árið 2011 hófst að kvöldi 21. maí og stóð í tæpa sjö daga. Gosmökkurinn reis hæst upp í 20 km hæð og sást strax við upphaf gossins allt frá Egilsstöðum að Selfossi. Mestur kraftur var í gosinu fyrstu tvo dagana en frá og með öðrum degi fór að draga verulega úr því. Gjóskufalls varð vart utan Vatnajökuls þann tíma en frá þriðja degi gossins barst gjóska ekki í teljandi magni út yfir jökulinn. 


Hvernig gos verður í Grímsvötnum

Flest gos í megineldstöð Grímsvatna eru basísk sprengigos, lítil eða meðalstór og standa yfirleitt í 1-2 vikur. Þau eiga sér stað yfirleitt innan meginöskjunnar og hafa síðustu gos komið upp í suðurhluta hennar. Eldgosin eru undir jökli til að byrja með, en bræða sér síðan leið í gegnum ísinn. Tíminn sem það tekur ræðst af þykkt jökulsins á gosstað, en það getur gerst nánast samstundis og gos hefst eða tekið einhverjar klukkustundir. Vegna samspils kviku og vatns verða þetta tætigos sem framkalla gosmökk sem nær  yfirleitt í 5-12 km h.y.s.   Vá sem getur fylgt slíkum gosum eru m.a. jökulhlaup, gjóskufall, eldingar og gjóskuhlaup. Oftast er mestur kraftur í gosinu fyrstu 1-2 dagana en eftir það dregur nokkuð úr virkni þess. 

Gýs alltaf á sama stað?

Flest eldgos eiga sér stað innan öskjunnar í Grímsvötnum sem er megineldstöð kerfisins, en einnig hefur gosið norðan og suðvestan við Grímsvötn. Þrisvar sinnum síðan 1867 hefur gosið við Gjálp, 10-15 km norðan við Grímsvötn. Einnig hefur gosið á íslausa hluta sprungusveimsins SV við Vatnajökul. Þau gos eru mestmegnis flæðigos og er þekktasta dæmið Skaftáreldar sem urðu árin 1783-84. Nánar má lesa um eldstöðina í Grímsvötnum á Íslensku eldfjallavefsjánni.
Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum.

Hverskonar náttúruvá tengist gosum í Grímsvötnum?

Jökulhlaup:
 Þar sem algengast er að gos í Grímsvatnakerfinu verði í Grímsvötnum eða nágrenni þeirra undir jökli eru jökulhlaup ein helst váin sem fylgir gosi þar. Þegar gýs í nágrenni Grímsvatna myndast mikið bræðsluvatn sem hleypur fram á Skeiðarársand. Í dag koma jökulhlaup úr Grímsvötnum fram í Gígjukvísl á Skeiðarársandi. Töluverðar breytingar hafa orðið hegðun þessarra hlaupa á síðustu öld, en eftir 1938 hefur tíðni hlaupa aukist og stærð þeirra minnkað. Fram að því komu stórhlaup fram á u.þ.b. 10 ára fresti. Jökulhlaup geta leitað annað en á Skeiðarársand, ef það gýs utan megineldstöðvarinnar í Grímsvötnum. T.d. ef gýs norðan við hana getur hlaupið í Jökulsá á Fjöllum en ef gýs sunnar getur orðið í Djúpá, Hverfisfljóti eða jafnvel Skaftá.

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. 

Jökulhlaup frá Grímsvötnum geta einnig orðið ótengt eldgosum, en stöðugur jarðhiti í Grímsvötnum bræðir jökulinn neðan frá og bræðsluvatn vegna þess safnast saman í Grímsvötnum ásamt yfirborðsbræðsluvatni sem myndast í sumarleysingum. Þegar vatnsþrýstingur er orðinn nógu hár hleypur vatnið fram undan jöklinum. 

Gjóska:

Flest gos í Grímsvötnum eru ekki nægilega stór til þess að valda gjóskufalli í byggð eða utan Vatnajökuls. Gjóskan getur hinsvegar valdið truflun á og hættu fyrir flugumferð. Í gosum getur gjóskan borist uppí nokkurra kílómetra hæð og valdið skemmdum á ytra byrði og hreyflum flugvéla. Því er sérstaklega mikilvægt að vakta hegðun gosmakkarins og gjóskudreifingu í Grímsvatnagosum. 

Truflun á flugumferð varð í tengslum við eldgosið í maí 2011. Innanlandsflug á vegum Flugfélags Íslands og Flugfélagsins Ernis lá niðri frá upphafi gossins til 26. maí. Keflavíkurflugvöllur var lokaður 22. og 24. maí og auk hans voru vara alþjóðaflugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum lokaðir 24. maí. Utan Íslands voru truflanir á flugumferð m.a. á Bretlandseyjum og í Noregi. Þessar truflanir voru litlar í samanburði við þær sem urðu í tengslum við eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010, enda stóð megingosið í Grímsvötnum aðeins í tæpa tvo sólarhringa.

Eldingar:

Eldingar eru algengar við eldgos, sérstaklega sprengigos. Í gosmekki eru bæði sérstök ferli sem geta valdið rafhleðsluaðskilnaði og einnig sambærileg ferli við hleðsluaðskilnað í þrumuveðrum.  Flestum goseldingum slær niður nálægt gosopi, en einnig geta eldingar slegið niður til jarðar úr gosmekki tugi km frá gosstöðvum undan vindi.  Í Kötlugosinu 1755 létust karl og kona þegar þau urðu fyrir goseldingu í Svínadal í Skaftártungu, um 30-35 km frá Kötlu.

Eldingar eru rafstraumur í gegnum loftið sem verður þegar hleðslumunur milli tveggja staða er orðinn mjög mikill. Frá eldingunni berst öflug rafsegulbylgja til allra átta. Þrumuveður eru ekki algeng á Íslandi miðað við suðlægari lönd. Sjá má mældar eldingar síðustu daga á vef Veðurstofunnar

Eldingar geta valdið slysum á fólki og skal þá hafa samband við 112 og veita skyndihjálp. Auk slysa á fólki geta eldingar valdið tjóni á rafbúnaði. Á vef Almannavarna eru upplýsingar um viðbrögð við eldingahættu.


 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica