Algengar spurningar og svör

Algengar spurningar og svör

Smellið hér til að senda spurningu

Það er líka hægt að senda okkur spurningu í skilaboðaskjóðuna á facebook.

Skeidararbru20140727

Skeiðarárbrú og Öræfajökull í júlí 2014. Skeiðará hefur skipt um farveg. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.


Spurning: Hefur gosið í Öræfajökli? Hvenær?

Svar: Tvö gos eru þekkt frá því land byggðist, gosið 1727 og stórgosið 1362. Óstaðfestar sagnir eru um önnur gos á 14. öld. Stór jökul­hlaup fylgdu báðum gosum og manntjón varð. Sandur lagðist yfir svæði sem áður voru gróin, einkum í fyrra gosinu og áttu hlaupin án efa þátt í að gera Litlahérað óbyggilegt um tíma, þó gjóskufallið hafi sjálfsagt vegið þar þyngst á metunum.


Spurning: Hvaða hætta stafar af gosi í Öræfajökli?

Svar: Öskufall, gjóskuflóð, jökulhlaup.


Spurning: Hvernig eru jökulhlaup úr Öræfajökli?

Svar: Jökulhlaup sem tengjast gosum í Öræfajökli eru talin vera af þremur gerðum.

  • Hlaup sem verða vegna eldgosa í öskju Öræfajökuls þar sem ís er yfir 500 metra þykkur.
  • Hlaup sem yrðu vegna sprungugosa í jökli þöktum hlíðum Öræfajökuls þar sem ísinn er 50–100 metra þykkur.
  • Hlaup gætu orðið í stórgosum vegna falls gosmakkar sem leiddi til gjóskuflóða, þar sem heit gjóska færi eftir yfirborði jökulsins á miklum hraða og bræddi ís og hjarn.
  • Jarðhiti getur brætt jökulís og vatnið safnast fyrir undir dældum í yfirborð jökulsins. Þaðan getur vatnið sloppið í jökulhlaupi.

Tveggja hinna fyrstnefndu er einkum að vænta í upphafi gosa.


Spurning: Hvaða svæði mundu fara undir vatn í hlaupi úr Öræfajökli?

Svar: Stærstur hluti láglendis á svæðinu milli Skaftafellsár og Breiðár (340 km2) flokkast undir svæði sem hlaup kynnu að fara yfir, ef til goss kemur. Ósennilegt er að í hverju gosi fari hlaup yfir nema lítinn hluta svæðisins, en mjög fáir staðir geta talist öruggir.
Spurning: Hverjar eru afleiðingar jökulhlaupa?

Svar: Jökulhlaup geta valdið fullkominni eyðingu mannvirkja og gróðurlendis þar sem þau fara yfir. Möguleg áhrif slíkra hlaupa á innviði og efnahag svæðisins gætu því orðið mikil.


Spurning:
Með hve löngum fyrirvara er vitað um jökulhlaup?

Svar: Aðdragandi jökulhlaupa vegna eldgosa getur verið mjög skammur og framrásarhraði þeirra mikill. Jökulhlaup gætu náð að þjóðvegi 1 framan við helstu framrásarleiðir á 20–30 mínútum frá upphafi gosa.


Spurning: Hefur eldgos í Öræfajökli áhrif á flug?

Svar: Það sem er vitað um fyrri eldgos í Öræfajökli bendir til þess að þar verði sprengigos. Þá verður til mökkur úr gosefnum, öskuský, sem getur náð margra kílómetra hæð. Með nokkurri óvissu er hægt að spá fyrir um dreifingu öskuskýsins. Flugrekendur munu bregðast við í samræmi við spá og viðbragðsáætlanir og meta á hverjum tíma hvort leyft verði að fljúga þar sem gera má ráð fyrir áhrifum af völdum gosösku. Lengd goss og magn gosmakkarins getur einnig haft áhrif á flug, en þótt eldgos sé hafið er erfitt að meta hvernig það þróast og hve lengi það stendur.
Spurning: Hefur öskufall vegna goss í Öræfajökli áhrif í Reykjavík?
Svar: Nýlegt endurmat á öskudreifingu í fyrri eldgosum í Öræfajökli bendir til þess að allt að 25% líkur séu á að í eldgosi af svipaðri stærð og gosið 1362 muni 1 mm af gosösku þekja Reykjavík. Um 5% líkur eru á að askan nái 1 cm dýpt.

Spurning: Hefur öskufall vegna goss í Öræfajökli áhrif í Reykjavík?

Svar: Nýlegt endurmat á öskudreifingu í fyrri eldgosum í Öræfajökli bendir til þess að allt að 25% líkur séu á að í eldgosi af svipaðri stærð og gosið 1362 muni 1 mm af gosösku þekja Reykjavík. Um 5% líkur eru á að askan nái 1 cm dýpt.

Sveinnpalsson_oddursigurdsson

Sveinn Pálsson (1762–1840), læknir og náttúrufræðingur, rannsakaði jökla og gekk fyrstur svo vitað sé á Öræfajökul (1794). Myndin sýnir Skeiðarárjökull (nær) og Öræfajökul (fjær). Hún er samsett, teikning eftir Svein Pálsson og ljósmynd Odds Sigurðssonar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica