Vitaverðir á Stórhöfða
stytt og endursagt úr
Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 2006
56. árgangur, bls. 52-64, Stórhöfðaviti 100 ára
eftir Guðjón Ármann Eyjólfsson
Guðmundur Ögmundsson var fyrsti vitavörðurinn, frá 1906 - 1910, heimamaður í Vestmannaeyjum. Það hefur áreiðanlega ekki verið neitt sældarlíf að gæta vitans en sonur hans, Friðrik, var honum til aðstoðar og dvaldi í Stórhöfða þegar hann var ekki við sjóróðra.
Vatnsleysi og sandfok gerðu þessi fyrstu ár búsetu í Höfðanum mjög erfið en austan og sunnan við vitahúsið var mikill uppblástur sem löngu síðar var heftur með varnargörðum, melgrasi og áburði. Vatni er enn safnað af þaki hússins en vegna særoks getur það orðið mjög salt. Austan á Höfðanum, skammt frá bjargbrún, er lind og í henni er gott vatn sem stundum var sótt í brúsum en vatnleiðslur ofan af landi voru ekki lagðar til Eyja fyrr en 1968.
Jónathan Jónsson úr Mýrdal, bróðir Eldeyjar-Hjalta, var vitavörður 1910 - 1935. Hann var kvæntur og eignuðust þau hjónin fjögur börn, eina dóttur og þrjá syni, og einn þeirra tók við starfinu af föður sínum.
Sigurður V. Jónathansson var vitavörður frá 1935 og gegndi því starfi af einstakri trúmennsku til dauðadags 1966. Hann var kvæntur og þau hjón bjuggu öll sín búskaparár í Höfðanum. Þau áttu dóttur og son, og tók sonurinn við starfinu.
Óskar J. Sigurðsson hefur alið allan sinn aldur í Stórhöfða og sinnt margvíslegum störfum þar af óvenjulegri kostgæfni: gæslu vitans, fuglamerkingum, veðurathugunum og mengunarmælingum. Sonur hans, Pálmi Freyr, býr í Höfðanum og er fjórði ættliðurinn sem hefur gætt vitans, samfleytt síðan 1910. Þó sjálft vitavarðarstarfið hafi formlega verið lagt niður árið 2007 vegna þess hve tækninni hefur fleygt fram er enn mikil starfsemi á Stórhöfða, ekki síst á vegum Veðurstofunnar. Þessu sinna feðgarnir í sameiningu.
Þess má geta, að árið 1997 var það skráð í heimsmetabók Guinness að enginn einn maður í heiminum hefur merkt fleiri fugla en Óskar en slíkar merkingar eru mjög mikilvægt framlag til rannsókna á hátterni fugla. Sama ár hlaut Óskar fálkaorðuna.
Óskar hefur nú merkt um 88.500 fugla af um 40 tegundum; mest af lunda en því næst fýl og snjótittlingi. Fyrir ekki löngu, eða þann 25. apríl 2009 kl. sex að kvöldi, merkti Óskar tuttugu þúsundasta fýlinn. Árið 2007 fannst í Hafnarey við Flatey á Breiðafirði fýll sem Óskar hafði merkt árið 1971 og lá sá fugl á hreiðri þó hann væri að minnsta kosti um fjörutíu ára gamall. Árið 2011 fannst fýll sem Óskar merkti árið 1970, sjá frétt á vef Náttúrustofu Suðurlands.
Aftur upp