Samþætt umhverfisvöktun
Litla-Skarð í Borgarfirði
Samþætt umhverfisvöktun (Integrated Monitoring) hófst að Litla-Skarði í Borgarfirði árið 1996. Slík vöktun hefur farið fram á Norðurlöndum lengi og er hluti rannsókna á vegum Efnahagsnefndar Evrópu vegna samnings um hnattræna loftmengun.
Fylgst er með ýmsum eðlis-, efna- og líffræðilegum þáttum á afmörkuðu vatnasviði og reynt að meta vistfræðileg áhrif loftslagsbreytinga.
Rannsóknastofnun landbúnaðarins hafði forgöngu um málið hér á landi, ásamt Hollustuvernd ríkisins, Skógrækt ríkisins og Veðurstofu Íslands.
Fljótlega bættust Náttúrufræðistofnun Íslands og Vatnamælingar Orkustofnunar í hópinn, Umhverfisstofnun tók við þætti Hollustuverndar og nú sem stendur er Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri í forsvari fyrir verkefninu.
Norræn ráðstefna samþættrar umhverfisvöktunar var haldin hér á landi í maí 2005 og þá var gefin út skýrslan Integrated monitoring at Litla-Skarð, Iceland: project overview 1996-2004 (pdf 2,9 Mb) með niðurstöðum úr Litla-Skarði.
Framlag Veðurstofunnar til þessa verkefnis eru sérhannaðir úrkomusafnarar og sjálfvirk veðurstöð en í mælireitnum eru ekki einungis tekin sýni af úrkomu heldur einnig sýni af lækjarvatni og úr lind.