Greinar
Teigarhorn 19.öld
Teigarhorn á 19.öld.

Um danskar og íslenskar árbækur

Fáeinar skýringar

Trausti Jónsson 3.12.2008

Veðurstofa var sett á laggirnar í Danmörku árið 1872 (Det Danske Meteorologiske Institut - DMI). Vísindafélagið hafði þá staðið fyrir stöðluðum eða hálfstöðluðum veðurathugunum þar í landi í meir en hundrað ár og kom líka við sögu veðurathugana á Íslandi á sama tíma. Hin nýja veðurstofa tók málin föstum tökum, samdi við Árna Thorlacius í Stykkishólmi (Árni hóf veðurathuganir þar árið 1845) og kom veðurathugunartækjum til Djúpavogs og Grímseyjar, loftvog til Akureyrar og sjávarhitamæli í Papey.

Niels Pétur Weywadt hóf athuganir á Djúpavogi 10. nóvember 1872 og fyrsta danska athugun Árna í Stykkishólmi var gerð 1. júní 1873. Séra Pétur Guðmundsson í Grímsey byrjaði 10. júlí 1873 og Jón Þorvarðarson í Papey hinn 1. ágúst 1873. Stykkishólmur, Grímsey og Djúpivogur voru svokallaðar aðalstöðvar (Hovedstationer). Þar var mældur hiti, raki og loftþrýstingur þrisvar á dag (kl. 8, 14 og 21 að staðartíma). Úrkoma var mæld við morgunathugun og sömuleiðis hámarks- og lágmarkshiti. Skýjahula, vindátt og vindhraði voru metin og veðurs getið. Stöðin í Grímsey var afbrigðileg á þann hátt að loftþrýstingur var mældur á Akureyri. Það er skýringin á því að oft má sjá Akureyrarnafnið í sviga á eftir Grímseyjarnafninu í árbókunum. Hendrik Schiöth las af loftvoginni á Akureyri frá og með 1. ágúst 1873. Papey var veðurfarsstöð (Klimatologisk Station).

Stöðin á Djúpavogi var flutt til Teigarhorns 1881, en hún hét alltaf Berufjörður í dönsku árbókunum. Algengt er að stöðvanöfn séu ekki rétt stafsett. Eyrarbakki hét þannig Örebakke og Blönduós Blöndnös.

Vestmannaeyjar urðu aðalstöð 1884 en þar höfðu verið gerðar veðurfarsathuganir frá 1877 og Grímsstaðir á Fjöllum urðu að aðalstöð 1912, en þar hafði þá verið veðurfarsstöð frá 1907. Danska veðurstofan rak að auki allmargar fleiri veðurfarsstöðvar og er þeirra getið í árbókunum. Nánar er fjallað um athuganir dönsku veðurstofunnar á Íslandi á bls. 11 til 13 í ritinu Saga Veðurstofu Íslands (Hilmar Garðarsson, 1999).

Árbókaútgáfa DMI

DMI gaf út þrjár árbókaraðir á því tímabili sem hér kemur við sögu, sú fyrsta inniheldur upplýsingar frá heimalandinu, Danmörku, en önnur röðin (Del 2) tekur til upplýsinga frá „hjálendum“ Dana; Færeyjum, Grænlandi og dönsku Vestur-Indíum, auk Íslands. Þegar tekin var ákvörðun um skönnunina var ákveðið að skilja hinar hjálendurnar ekki eftir, leyfi til þeirrar skönnunar var auðsótt til dönsku veðurstofunnar og er það hér með þakkað. Fyrsta árbók DMI kom út 1873 og inniheldur upplýsingar bæði frá Danmörku og hjálendum. Sem kunnugt er seldu Danir Bandaríkjamönnum Vestur-Indíur 1917 og er 1916 síðasta ár upplýsinga frá Christianssted í árbókinni. Þriðja árbókaröð DMI hét Meteorologisk-nautisk Aarbog og þar má t.d. finna sjávarhita- og hafískort, sum ná til svæðisins í kringum Ísland. Vonandi gefst færi á að skanna þau kort síðar. Útgáfa síðastnefndu raðarinnar hófst 1897.

Íslensk veðurfarsbók

Þegar Veðurstofa Íslands var stofnuð 1920 tók hún við öllum þeim veðurstöðvum sem sú danska hafði rekið. Ráðist var í að halda áfram útgáfu árbóka með sama sniði og verið hafði. Hin fyrsta þeirra náði yfir árið 1920 og hafði Reykjavík bæst við sem aðalstöð frá og með 1. maí. Athuganir hinna aðalstöðvanna héldu áfram með sama hætti og áður. Árið 1924 varð ljóst að útgáfan væri of dýr og henni var því hætt í sparnaðarskyni. Þess í stað voru einungis gefin út meðaltöl og mánaðagildi ýmiss konar í nýju mánaðarriti sem hlaut nafnið Veðráttan. Því er ekki að neita að Veðráttan var að mörgu leyti mun rýrara rit en Íslensk veðurfarsbók, en á móti kom að frá og með 1925 var farið að lýsa veðri frá degi til dags í almennum orðum í Veðráttunni og var það mjög mikið nýmæli. Er nú svo komið að mikill missir er af veðurathugunum frá og með 1924, en jafnframt þykir miður að veðráttutexti sé ekki til yfir efni árbókanna. Erfitt er að halda og sleppa.

Aftur upp

Innihald árbókanna

Flestallar athuganir aðalstöðvanna voru birtar í árbókunum í miklum töflum sem eru meginuppistaða bókanna. Þar fær hver dagur á einstökum aðalstöðvum sína línu. Í bókunum eru einnig mánaðayfirlit. Yfirlit aðalstöðvanna voru lengst af á undan athuganatöflunum. Þau voru síðar færð aftur fyrir en þar eru yfirlit veðurfarsstöðvanna. Sem dæmi lítum við hér á dönsku árbókina frá 1906 til skýringar. Strax vekur athygli að allur texti er á frönsku auk dönskunnar, franska var alþjóðlegt samskiptamál þess tíma.

Skýringar

Í árbókinni 1906 er fyrst yfirlit um stöðvarnar, aðalstöðvarnar eru 10, í Færeyjum (1), á Íslandi (4) og á Vestur- (4) og Austur-Grænlandi (1). Í bókinni eru þrjár athuganir á dag fyrir allar þessar stöðvar. Veðurfarsstöðvarnar eru í lok ársins taldar 24, þar af 13 á Íslandi. Stöðin á Gilsbakka er í sviga, upplýsingar þaðan bárust ekki.

Fyrri hluti mánaðatöflu Teigarhorns (vinstra megin á opnu)
Úr Meteorologisk Aarbog
Mynd 2. Mánaðatafla aðalstöðvar úr Meteorologisk Aarbog 1906. Berufjörður = Teigarhorn. Skýringar í meginmáli. Franski hausinn er ofar á síðunni og sést ekki hér.

Mánaðatöflur aðalstöðva

Mánaðatöflur aðalstöðvanna hefjast á blaðsíðu 2 af Resumé International. Þar eru allar fyrirsagnir á frönsku. Í fyrsta dálki eru mánaðanöfnin, en síðan þrýstingur í stöðvarhæð. Hér er það helst að varast að hann er þyngdarleiðréttur til 45° breiddar, en ekki til sjávarmáls. Þyngdarleiðréttingin var ekki með í eldri árgöngum, en er komin inn 1906. Meginástæða þess að ekki var leiðrétt til sjávarmáls er líklega sú að hæð stöðvanna hefur vafalítið verið ónákvæm. Þetta þarf að hafa í huga þegar leitað er að þrýstimetum í bókunum. Á þessum tíma voru millimetrar kvikasilfurs algengasta þrýstieiningin og eru 750 mm nánast sama og 1000 hPa. Í töflunum er fyrsta stafnum oftast sleppt, þá þarf að bæta 700 við til að fá út rétta tölu. Fjallað er um loftvogarleiðréttingar í sérstökum fróðleikspistli.

Aftur upp

Hiti

Í næstu þremur dálkum er meðalhiti mánaðarins á athugunartímum (klukkumeðaltöl), en síðan meðalhiti mánaðarins. Að vetrarlagi er sá síðarnefndi nálægt meðaltali hinna þriggja, en nokkru munar á sumrin. Við sjáum t.d. að beint meðaltal 8, 14 og 21 við Berufjörð í júní er 9,2 stig, en í meðalhitadálknum stendur talan 8,5. Þetta er vegna þess að engar næturathuganir voru gerðar á Teigarhorni og meðaltal þriggja athugana að degi er hærra en meðaltal sólarhringsins, 0,7 stig eru dregin frá meðaltali athugunartímana. Hér verður að liggja milli hluta hvernig þessi leiðrétting er fundin, en mikilvægt er að vita að hringlað hefur verið með hana gegnum tímans rás. Þess vegna er mjög mikilvægt að eiga alltaf aðgang að klukkumeðaltölunum. Ef við þekkjum þau getum við alltaf notað þær leiðréttingar sem við teljum bestar.

Víða um heim er meðalhiti fundinn með því að leggja saman meðalhámark og meðallágmark mánaðarins og deila með tveimur. Þessi tala er sjaldnast nákvæmlega sú sama og meðaltal sem fengið er með notkun klukkumeðaltalanna. Það væri svo sem í lagi ef menn hefðu ekki í gegnum tíðina verið að hringla með aflestrartíma hámarks- og lágmarksmæla, eða það sem kallað er lestrarhætti. Meðallágmarkið er í sjöunda dálki töflunnar en meðalhámarkið í þeim áttunda. Í öllum árbókunum var lesið á þessa mæla kl. 8 að morgni og þeir þá endurstilltir. Þetta þýðir að hámark, sem lesið er af mæli kl. 8 og fært í bók undir þeim athugunartíma, er í raun og veru oftast hámark dagsins á undan. Sá lágmarkshiti sem lesinn er kl. 8 að morgni er venjulega frá því undangengna nótt. Hluta ársins, haust og vor, er morgunhitinn oft nærri lægsta hita sólarhringsins. Gerist það, getur lágmarkið smitast yfir á næsta dag, verður tvöfalt sem kallað er. Þessi lestrarháttur hefur því tilhneigingu til þess að draga meðallágmarkshita mánaðarins lítillega niður, sennilega meir en tvöföldun hámarksins dregur hann upp á við.

Útgildi mánaðarins, lægsti hiti hans (Min.) og sá hæsti (Max.) eru því næst tilfærðir (dálkar 9 til 12) ásamt dagsetningum (Date).

Aðrir dálkar

Í næstu dálkum á eftir (9 til 12) er rakaþrýstingurinn (Tension de la vapour) í mm kvikasilfurs og rakastigið (%, Humidité relative) í síðustu dálkum blaðsíðunnar. Meðaltöl eru ekki leiðrétt fyrir dægursveiflu.

Síðari hluti mánaðatöflu Teigarhorns (hægra megin á opnu)
Tafla 1906
Mynd 3. Síðari hluti mánaðatöflu aðalstöðvar úr Meteorologisk Aarbog 1906. Berufjörður = Teigarhorn. Skýringar í meginmáli. Franski hausinn er ofar á síðunni og sést ekki hér.

Á hægri síðu opnunnar

Síðari hluti töflunnar er á hinni síðu opnunnar. Mánaðanöfnin eru sem fyrr í fyrsta dálki, en síðan kemur meðalskýjahulan (Nuages) í tíunduhlutum (dálkar 2 til 5), klukkumeðaltöl og meðaltal. Meðaltalið er ekki leiðrétt fyrir dægursveiflu skýjahulunnar.

Úrkoman (Plue) er í dálkum 6 til 8, mælieiningin er millimetrar (mm). Úrkomusumma mánaðarins fyrst, en síðan mesta sólarhringsúrkoma og dagsetning hennar. Hér er enn sem fyrr skipt milli sólarhringa kl. 8 og úrkoman því sú sem fallið hefur næstliðinn sólarhring. Þessum hætti er enn haldið nú á dögum.

Aftur upp

Talningar

Næst fylgja nokkrir talninga- eða fjöldadálkar (Nombre de jours de), „fjöldi daga með:“. Úrkomudagarnir eru fyrstir, þar eru þrjú tákn, punktur þýðir regn, stjarna snjókomu og þríhyrningur hagl. Stjörnu- og hyrnudálkarnir greina frá fjölda snjókomu- og hagldaga í mánuðinum. Táknið sem líkist bókstafnum „R“ sýnir fjölda þrumudaga og síðan koma heiðskírir (Sereins) og alskýjaðir (Couverts) dagar. Tempéte er fjöldi stormdaga í mánuðinum. Meir um vindhraðaskilgreiningar síðar.

Síðustu dálkarnir í töflunni sýna hversu margar athuganir vindur hefur blásið úr ákveðnum áttum, N=norður, NE=norðaustur o.s.frv. Síðasti dálkurinn nær til logns. Séu tölurnar lagðar samar kemur út fjöldi athugana í mánuðinum. Þær eru oftast 90 eða 93 en ýmist 84 eða 87 í febrúar. Hér má sjá ef einhverjar athuganir hafa fallið niður.

Yfirlitstafla Teigarhorns. Úr Meteorologisk Aarbog 1906
úr Met. Aarbog
Mynd 4. Yfirlitstafla aðalstöðvar úr Meteorologisk Aarbog 1906. Töflurnar voru handskrifaðar til og með 1912.

Yfirlitssíða hverrar stöðvar

Á undan veðurathugunum aðalstöðvanna er blaðsíða með stórri töflu. Þetta eru að mestu leyti sömu upplýsingar og í fyrri mánaðatöflu, en hér hefur danskan forgang á frönskuna. Danskir lesendur gátu hér séð þýðingar á fyrirsögnunum í hinni töflunni.

Ofan við töfluna eru upplýsingar um stöðina, breidd og lengd, hæð yfir sjó og þess er getið að loftþrýstingur sé leiðréttur til 45° breiddar. Hér er einnig nafn athugunarmanns, Fröken Weywadt. Þetta er Nicoline Weywadt, rómaður ljósmyndari á sinni tíð, sem athugaði á Teigarhorni.

Upplýsingar eru allar komnar fram áður nema meðalvindhraði hverrar vindáttar fyrir sig og sérstök lína með fjölda frostdaga í hverjum mánuði (dægurlágmark <0°C). Fram til 1911 er vindhraði tilfærður eftir svonefndum landkvarða (sjá fróðleikspistil um nöfn vindstiga o.fl.). Stormur er talinn ef vindstyrkur nær 5 stigum. Þegar farið er í saumana á stormatíðni í árbókunum kemur í ljós að hún hrekkur mjög til eftir athugunarmönnum. Erfitt er því að búa til samfelldar tímaraðir úr stormtalningum árbókarinnar. Því miður hafa sumir þeirra sem um þetta hafa fjallað á opinberum vettvangi ekki áttað sig á þessu.

Frá og með 1912 var skipt yfir í Beaufort-vindkvarða. Þar er stormur talinn ef vindhraði nær 9 stigum.

Aftur upp
Veðurathuganir á Teigarhorni í janúar 1906
Athuganir á Teigarhorni 1906
Mynd 5. Veðurathuganir á Teigarhorni 1. til 11. janúar 1906. VIndur var mjög hægur, en mikið rigndi fyrstu dagana. Hiti var yfir meðallagi flesta dagana. Sjá skýringar í meginmáli.

Veðurathuganatöflur

Skýringarnar hér að ofan eiga við þessa töflu að mestu leyti hvað varðar allt nema dálkinn sem hefur yfirskriftina „anmærkninger“ eða athugasemdir. Þar má sjá nokkuð sem í fljótu bragði sýnist vera hálfgert hrafnaspark en eru upplýsingar um veður á athugunartíma og milli þeirra. Punktur táknar regn, stjarna snjókomu, þríhyrningur hagl, þrjú lárétt strik tákna þoku, það sem líkist bókstafnum „R“ táknar þrumur og eins konar kóróna er til vitnis um norðurljós. Það sem minnir á tölustafinn 8 á hliðinni er mistur. Stundum má sjá vindfanir, sem þá tákna storm utan athugunartíma.

Kringum táknin má sjá örsmáar tölur og bókstafi. Flestar tölur tákna athugunartíma, 1 er kl. 8, 2 kl. 14 og 3 er kl. 21 en bókstafirnir eru til merkis um tímann milli athugana, n er nótt (milli kl. 21 að kvöldinu áður og kl. 8 að morgni), a (ante) táknar fyrir miðjan dag, hér milli kl. 8 og kl.14, p (post) er tíminn milli kl. 14 og kl. 21. Þetta er áþekkt þeim skammstöfunum sem notaðar eru í ensku (am og pm) þótt nákvæm merking sé ekki sú sama. Hver tegund veðurs er talin sérstaklega.

Lítum sem dæmi á veðurfærsluna fyrir Berufjörð (Teigarhorn) hinn 1. janúar 1906. Þar stendur: „punktur n1a2p“. Þetta þýðir að rignt hefur um nóttina (n), kl. 8 (1), milli kl. 8 og kl. 14 (a), kl. 14 (2) og milli kl. 14 og 21 (p). Rigningin er hætt kl. 21, annars væri talan 3 líka í röðinni. Telji athugunarmaður að veðrið sé óvenjusnarpt (mikið regn eða snjókoma eða þykk þoka) má sjá örsmáa tölu „2“ sem sett er á stað þar sem veldisvísir eða efnistilvísun er sett í venjulegum texta. Athugunarmenn voru mjög misörlátir á þessa „tvo“, sem reyndar voru táknaðir með striki undir veðurtegund í athugunarskýrslunum. Varast ber að rugla saman þeim „2“ sem tákna annars vegar styrk veðurfyrirbrigðis og þeim sem tákna athugunartímann kl. 14. Finna má dæmi um mikla rigningu sem færð er á þennan hátt á Teigarhorni þann 24. júní 1906, en þá mældist sólarhringsúrkoma 97,8 mm. Sjá má örsmáa 2 ofan við við bæði n og 1og daginn áður ofan við 3 (athugun kl. 21).

Þegar hætt var að handskrifa töflurnar 1913 var upplýsingum um úrkomutegund á hverjum athugunartíma bætt við í skýjuhuludálkana, prenttákn komu þá í stað handskrifuðu táknanna. Regn varð þá að gráum hring.

Töflur fyrir veðurfarsstöðvar

Töflur fyrir veðurfarsstöðvar eru aftan við athuganir á aðalstöðvunum. Fyrir hverja stöð birtist tafla sem nær yfir hálfa síðu í árbókunum fram til 1912, en þá var uppsetningu breytt og töflunum snúið þannig að klukkumeðaltöl komust fyrir. Skýringar um efni þessara taflna eru þær sömu og áður hefur verið fjallað um.

Sjávarhitatöflur

Aftast í árbókunum eru töflur um sjávarhitamælingar á nokkrum stöðvum.

Íslensk veðurfarsbók

Veðurtákn í Íslenskri veðurfarsbók
tákn í veðurtöflum
Mynd 6. Alþjóðleg veðurtákn sem notuð voru í Íslenskri veðurfarsbók 1920 til 1923.

Innihald og uppsetning veðurfarsbókanna íslensku 1920 til 1923 er með sama hætti og þeirra dönsku og sömu skýringar eiga við að öðru leyti en því að veðurtáknum fjölgaði. Öll táknin má sjá í sérstakri töflu í skýringum bókanna. Sömuleiðis má oft sjá töluna núll (0) í veldisvísis- eða tilvísanasæti, auk tölunnar „tveir“ (2) sem áður var getið. Núll í tilvísanasæti táknar „lítils háttar“, t.d. regn eða snjókomu.
Aftur upp



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica