Greinar

Loftvogarleiðréttingar

Helstu fastar leiðréttingar á loftvogum

Trausti Jónsson 4.10.2007

Þegar loftþrýstingur er reiknaður þarf að gera leiðréttingar til að tölur séu sambærilegar frá einni stöð til annarrar. Þessar eru helstar:

Hitaleiðrétting

Súlan í kvikasilfursloftvogum þenst út, rétt eins og súla í kvikasilfurshitamælum. Því hærri sem hiti er á loftvoginni sjálfri því hærra sýnist hún standa. Ákveðið er að leiðrétta allar athuganir til aflesturs sem væri ef hiti á loftvoginni væri 0°C. Hver þessi leiðrétting er nákvæmlega fer eftir gerð loftvogarinnar, en oftast er hægt að nota almenna nálgun ef engin leiðréttingatafla er þekkt. Ef hiti er ofan frostmarks kemur leiðrétting þessi til frádráttar aflesnum þrýstingi, en til viðbótar sé hiti neðan frostmarks. Á Íslandi á 18. og 19. öld var algengt að loftvogum væri komið fyrir í óupphituðum herbergjum. Á vetrum var hiti í þessum herbergjum oftast ekki fjarri frostmarki. Þess vegna eru áhyggjur sem hafa þarf af hitaleiðréttingum gamalla mælinga á vetrum ekki mjög miklar. Öðru gegnir um sumarið þegar hiti var gjarnan 10-15 stig í herbergjunum. Vandaðir athugunarmenn skráðu hita á loftvoginni þegar kom fram á 19. öld.

Loftvog.
aflangt mælitæki í skáp innanhúss
Mynd 1. Loftvog í Stykkishólmi árið 1993. Sjá má hitamæli neðan við miðju loftvogarinnar. Ljósmynd: Torfi Karl Antonsson.

Hæðarleiðrétting

Allar athuganir eru leiðréttar til sjávarmáls. Þrýstingur fellur með hæð sem nemur u.þ.b. 1 hPa á hverja 8 m í neðstu lögum lofthjúpsins. Þrýstifallið minnkar með vaxandi hæð, en gamlar íslenskar loftþrýstistöðvar voru í langflestum tilvikum ekki hátt ofan sjávarmáls. Vandamál er að hæðin var yfirleitt ekki nákvæmlega tilfærð, enda ekki mæld. Hæðarleiðréttingar koma alltaf (nema á örfáum stöðum á jörðinni sem eru neðan sjávarmáls) til viðbótar aflesnum þrýstingi. Ef um nákvæmar mælingar er að ræða er einnig tekið tillit til hita á athugunarstað. (Hér er um útihita að ræða, ekki hita í loftvogarherberginu.) Þrýstingur fellur örlítið hraðar með hæð í köldu lofti en hlýju. Munurinn er þó nánast enginn miðað við aðra ónákvæmni mælinga fyrir stöðvar nærri sjávarmáli. Öðru máli gegnir fyrir stöðvar sem eru hátt yfir sjó, t.d. Grímsstaði á Fjöllum og Hveravelli.

Þyngdarleiðrétting

Þyngdarhröðun er mismunandi eftir stöðum á jörðinni. Fyrir rúmum 100 árum varð venja að leiðrétta þrýstiathuganir einnig fyrir þessum breytileika. Ákveðið var að miða skyldi þyngdarleiðréttingu við þyngdarhröðun á 45. breiddargráðu. Á Íslandi bætist hún við aflesinn þrýsting. Strangt tekið er leiðréttingin mismunandi eftir því hver þrýstingur er, en yfirleitt er þessi breytileiki látinn liggja á milli hluta við greiningu gamalla gagna.

Eiginleiðrétting eða stikaleiðrétting (index)

Loftvogir eru aldrei alveg réttar og eru þær því bornar saman við staðalloftvogir við framleiðslu, sem og hjá einstökum veðurstofum. Oftast eru leiðréttingar þessar mismunandi eftir því hver þrýstingur er. Einnig geta þær breyst í tíma. Þegar engar upplýsingar eru fyrir hendi frá framleiðanda eða veðurstofu má kalla þetta stikaleiðréttingu. Af vandamálum við greiningu gamalla gagna er einna verst að eiga við þessa leiðréttingu. Endanleg niðurstaða endar alltaf sem matsatriði og er umdeilanleg.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica