Greinar
Helene 1988
Leifar fellibylsins Helene 1.10.1988

Fellibyljir 5

Upphaf og viðhald

Trausti Jónsson 23.7.2008

Uppstreymi fer af stað

Úrstreymið efst í austanbylgjunum (sjá Fellibyljir 4) getur auðveldað uppstreymi, jafnvel dregið upp loft að neðan sem þá kólnar. Sé það loft rakamettað byrjar raki þess að þéttast. Algengast er að aðeins verði til einstakar eða fáeinar uppstreymiseiningar. Kólni loft án rakaþéttingar (þurrara loft kemur neðarlega inn í uppstreymið) verður sagan ekki lengri.

Ef dulvarmalosun verður hitar hún loftið og við það þenst það út og verður léttara en það sem umhverfis er, þrýstingur fellur og þrýstifallið dregur inn loft úr nágrenninu. Taka ber eftir því að verði þrýstfallið mikið auðveldar sjálft innstreymið rakaþéttinguna, utan við fellibyl er þrýstingur gjarnan um 1010 hPa, 30 til 100 hPa hærri en við miðju hans. Hreyfing frá 1010 hPa niður í t.d. 950 jafngildir um 500 m uppstreymi. Dulvarmi losnar því ekki eingöngu við uppstreymið, heldur einnig við innstreymið. Innstreymisáhrifin skila mestu sé fellibylurinn öflugur.

Séu skilyrði góð fer af stað keðjuverkan: því meira uppstreymi, því meiri þétting, því meiri dulvarmalosun, því meiri hlýnun, því meira þrýstifall, því meira og hraðara innstreymi og því meira af lofti berst inn á svæðið þar sem fellibylurinn myndast, því meiri verður því þéttingin og koll af kolli þar til að einskonar hámarki er náð. Þenjist loft út byrjar í því hringhreyfing fyrir tilverknað snúnings jarðar. Því örar sem það þenst út því ákafari verður hringhreyfingin.

Innrauð mynd 3.9.2008
fellib_a_bylg_030908_infr
Mynd 2. Innrauð gervihnattarmynd sem sýnir hafsvæðið vestur af Afríku kl.06:15 3.9.2008. Köldustu skýin eru lituð, þau sem eru lítillega hlýrri eru hvít. Hér sjást tveir hitabeltisstormar og tvær austanbylgjur. Öll kerfin þokast vestur á bóginn. Stormurinn IKE er nærri 50°V og virðist vera við það að mynda auga í miðjum hvirflinum. Stormurinn JOSEPHINE er við 28°V og er styttra kominn í þróuninni og framhaldið heldur óvíst. Á milli stormanna má sjá venjulega austanbylgju, en henni fylgja háir þrumuklakkar. Þegar myndin var tekin var ekki gert ráð fyrir því að hún þróaðist frekar. Við vesturströnd Afríku er önnur austanbylgja, hér er ekki vitað hvað verður úr henni. En í tengslum við hana er mikill háskýjaflóki sem er sennilega leifar af þrumuveðri dagsins áður og loftið keyrt upp af hita yfir Afríku. Sennilega dregur mjög úr umfangi þessa skýjakerfis áður en það nær sér hugsanlega á strik aftur þegar bylgjan þokast austar. Norður af JOSEPHINE og austur af IKE eru skýjagarðar sem tengjast háloftavindröstum og hallandi veðrahvörfum. Myndin er úr Meteostat- hnettinum, en meðhöndluð af Bandarísku fellibyljamiðstöðinni (NHC-Miami).


Snúningur

Í uppstreymi fellibyljavísisins fer loft að snúast rangsælis, loft sem streymir inn í lágþrýstisvæði, leitar fyrst í átt til lægri þrýstings, en beygir síðan til hægri við hreyfistefnuna (á norðurhveli) fyrir tilverknað svigkraftsins og lendir inn í krappri hringhreyfingu fellibylsins. Þar sem snúningur er mikill (í kröppum beygjum) gætir einnig miðflóttaafls. Í lægðum vinnur miðflóttaaflið gegn þrýstikraftinum og vindhraði er því ekki eins mikill og í beinum straumi.

Komi fellibylur inn á land er skorið á lífæð hans, rakauppsprettuna í hlýju hafi, og hringrásin eyðist, núningur við yfirborð er þá fljótur að draga úr vindi. Orkuöflun fellibylsins lýkur einnig komi hann yfir kaldan sjó.

Vatnsgufumynd 3.9. 2008 (meteosat)

wv

Mynd 3 er tekin á einni af vatnsgufurásum Meteosat gervihnattarins og sýnir nákvæmlega sama svæði á sama tíma og innrauða myndin ofar í textanum. Hér má sjá báða hitabeltisstormana og austanbylgjurnar tvær. Hér sést vel hversu veik austanbylgjan milli stormanna er. Svarta svæðið er hið þurrasta á myndinni. Þar hafa veðrahvörfin sokkið og trúlega er brot eða stór beygla í þeim við skýjagarðana á jaðri dökka svæðisins. Skýjagarðarnir við brotið eru sennilega orðnir til við uppdrátt sem vindrastir við það valda, en ekki með uppstreymi sem knúið er með upphitun að neðan eins og gerist í hitabeltisstormunum. Garðurinn norðan við JOSEPHINE dregur raka úr storminum norður á bóginn. Gerist hann of ágengur fer stormurinn að hallast í vindstefnu rastarinnar (NNA) og hringrás hans spillist. Færist þurrksvæðið suður fyrir storminn er honum hætt vegna rakaþurrðar. Myndin er úr Meteostat-hnettinum, en meðhöndluð af Bandarísku fellibyljamiðstöðinni (NHC-Miami).


Líf við lægri sjávarhita

Almennt er talið að yfirborðshiti sjávar þurfi að vera að minnsta kosti 26°-27°C við myndun fellibyls. Kerfið getur þó haldist gangandi við lægri sjávarhita ef það er á annað borð komið í gang. Sé sjávarhiti lægri er fellibyljamyndun tregari, flest skúra- og garðakerfi sem myndast ná þá ekki því skipulagi að ferlið verði sjálfstyrkjandi og fellibylur myndist. Dæmi má finna um að fellibyljir hafi myndast við 21°-23°C og því er ljóst að sjávarhitinn er ekki alveg einn um að keyra upp hringhreyfinguna, stöðugleikinn skiptir einnig mjög miklu. Það bendir til þess að verði hitamunur lofts og sjávar mikill geti loft orðið nægilega óstöðugt til að setja gagnvirka ferlið í gang.

Þó verður að taka eftir því að það er ekki munur á lofthita við yfirborð sjávar og sjávarhita sem skiptir máli, heldur að öll loftsúlan frá sjávarmáli upp að veðrahvörfum sé óvenjuköld miðað við sjávarhitann, þegar ferlið fer í gang. Eftir að dulvarmalosunin kemst á skrið er hún miklu meiri neðarlega í kerfinu en ofar, þetta eykur á óstöðugleika loftsúlunnar og auðveldar uppstreymið. Sé loft mjög kalt við yfirborð, en hlýrra lengra uppi, er stöðugleiki of mikill til að djúp, lóðrétt hringrás geti átt sér stað.

Framhald

Meira má fræðast um fellibylji í næstu fróðleiksgrein.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica