Greinar
Fellibylur- vindsniðakort
Fellibylur- vindsniðakort (smellið á myndina til skýringar).

Fellibyljir 4

Tækifæri og ógnir

Trausti Jónsson 23.7.2008

Stöðugleiki og fellibyljir

Stöðugleiki lofts ræðst að hluta til af því hversu rakt það er, hann er minnstur liggi tiltölulega hlýtt, rakt loft undir köldu og þurru. Hlýr sjór sér um að halda neðstu lögum rökum, þau eru mun þurrari yfir landi. Þó sólin hiti yfirborð hafsins linnulítið verður uppstreymi ekki mikið því megnið af orkunni fer í uppgufun. Dulvarmaorka byggist því upp, en hún losnar ekki aftur nema uppstreymi verði. Komist uppstreymi í gang er eins og stífla bresti, miklir skúraklakkar þjóta upp.

Oftast er miðhluti veðrahvolfs tiltölulega hlýr í suðurjaðri staðvindabeltisins og styrkir stífluástandið, undantekingar eru þó á þessu. Norður-Afríka hitnar mjög á sumrin og þá blása rakir monsúnvindar af hafi til norðurs í átt að suðurjaðri Sahara (Sahel). Upphitun landsins auðveldar uppstreymi (sólarorkan nýtist til upphitunar, en fer ekki öll í uppgufun) og þar geta myndast mikil skúrakerfi sem dæla raka upp í háloftin, rakinn kemur frá sjónum nærri miðbaug. Vatnsdropar og ískristallar berast upp í þurr háloftin, gufa þar upp og kæla umhverfið. Yfir V-Afríku myndast því svæði þar sem loft er hlýtt neðst, en tiltölulega kalt er í efri hluta veðrahvolfs. Lóðréttur hitafallandi vex sem þessu nemur.


Austanbylgjur

Meðan sumarmonsúninn er öflugastur yfir Afríku myndar hann austanátt í háloftunum, missterka frá degi til dags, þannig að úr verður bylgjugangur með nokkurra daga sveiflutíðni. Lægðardrög og hæðarhryggir skiptast á og ganga til vesturs. Kallast lægðardrögin austanbylgjur og gætir áhrifa þeirra allt niður til jarðar. Úrstreymi er í háloftum yfir drögunum, veldur það uppstreymi að neðan, en samstreymi er í neðstu lögum. Þetta ýtir undir myndun skúrakerfa eða garða sem berast með bylgjunum til vesturs og koma fram sem „gallar“ í niðurstreyminu syðst í staðvindabeltunum, loft í austanbylgjunum er þar ekki eins stöðugt og annars. Gangi bylgjan nú yfir heitan sjó með nærri rakamettuðu lofti neðst aukast líkur á myndun hitabeltislægðar sem getur orðið að fellibyl.

Fellibyljir sem verða til á Atlantshafi eiga í tæpum 60% tilvika uppruna sinn í austanbylgjum. Um 80% af mestu fellibyljunum (þriðja stigs eða meira) eru af austanbylgjuuppruna.

Þótt Afríkumonsúninn geti þannig af sér hvert veikleikasvæðið á fætur öðru myndast fellibyljir ekki yfir landi, þó skúrakerfi geti myndast. Loft er þar þurrara og uppstreymi bælist mjög á nóttum. Orkuöflunarkerfi fellibylja fer ekki í gang við slík skilyrði.

Meðalvigurvindhraði og stefna í 200 hPa hæð (12 km) í júní til ágúst
háloftavindaumhverfi fellibylja
Meðalvigurvindhraði (litakvarði í m/s) og stefna (örvar) að sumarlagi í um 12 km hæð í lofthjúpnum. Vindur er lítill á hvítu svæðunum, vindsniði er þar lítill og fellibyljir geta þróast - ef önnur skilyrði leyfa það. Hér má greinilega sjá lægðardragið (gulur og grænn litur) sem stefnir frá Spáni í átt til Vestur-Indía. Í því eru veðrahvörfin hallandi og fellibyljir vilja laskast. Sams konar lægðardrag, en þó öflugra, má sjá á Kyrrahafi. Á því eru fellibyljir mjög sjaldgæfir þó sjávarhiti sé stundum nægilega hár og svigkraftur jarðar hagstæður. Einnig má sjá að á þessum árstíma er vindsniði mikill yfir norðanverðu Indlandshafi þar sem skilyrði til myndunar fellibylja eru annars ágæt. Mynd úr kortasafni Reiknimiðstöðvar Evrópuveðurstöðva (ERA40-atlas).

Vindsniði ógnar fellibyljum

Önnur ógn steðjar að fellibyljum. Þeir eru, eins og áður hefur komið fram, sammiðja kerfi, viðhald þeirra byggist á uppstreymi og dulvarmalosun, en jafnframt verður það loft sem upp fer að komast burt til hliðanna efst í hringrásinni. Nauðsynlegt er að útstreymið sé nokkurn veginn samhverft næst auganu.


Veðrahvörfin loka fyrir allt uppstreymi (hér verður ekki skýrt hvers vegna). Þau eru lægst yfir heimskautasvæðunum (þar er loft kaldast og fyrirferðarminnst), en hæst þar sem hlýjast er á jörðinni og hallast í átt frá miðbaug. Hallinn er hins vegar ójafn, hann er mjög lítill norður fyrir hvarfbauga. Uppstreymi sem verður undir þessum litla halla hittir því fyrir nokkuð flöt veðrahvörf og það lyftir þeim lítillega. Það veldur því að loft að neðan getur streymt nokkuð jafnt til allra átta. Séu veðrahvörfin aftur á móti hallandi, leitar loft frekar til einnar hliðar en annarrar, streymi raskast þá og verður ekki lengur sammiðja, hringrásin hallast og getur eyðilagt auga fellibylsins. Við sérstök skilyrði getur illviðrið þó lifað sem venjuleg lægð.

Á vetrum nær hallasvæði veðrahvarfanna sunnar en annars, á þeim tíma árs er því ekki nóg með að sjávarhiti sé lægri og raki minni á fellibyljaslóðum, heldur berast sífellt bylgjur hallandi veðrahvarfa suður í staðvindabeltið og eyðileggja flesta fellibyljavísa. Þegar sumarmonsúninn ríkir í Asíu bólgnar veðrahvolfið svo mikið út á þeim slóðum að veðrahvörfin eru hærri yfir Tíbet en suður á Indlandi. Halli myndast því frá Tíbet í átt að miðbaug og nægir til að bæla fellibylji að mestu niður á Bengalflóa meðan sumarmonsúninn stendur sem hæst. Á vetrum snýst hallinn við. Um tíma, vor og haust, er hann lítill og þá geta fellibyljir myndast.

Hvelamótin

Vindakerfi suður- og norðurhvels jarðar mætast nærri miðbaug, á svonefndum hvelamótum. Þau hörfa lítillega undan vetri hvors hvels um sig, meira undan suðurhvelsvetrinum en þeim norðlæga. Við hvelamótin er mikið samstreymi, loft er þar mjög óstöðugt, klakkar myndast og leggjast jafnvel í garða. Síðla sumars á norðurhveli eru áhrif suðurhvels mest og hvelamótin leita nokkuð norður fyrir miðbaug. Nái garðakerfi norður fyrir 5°N er ákveðin hætta á að fellibylur myndist, veikleiki kemur í staðvindaniðurstreymið og hringhreyfing getur byrjað.


Þó að austanbylgjur berist frá Afríku út á Atlantshaf á nokkurra daga fresti (um 60 á ári að meðaltali) mynda fæstar þeirra fellibylji. Reyndin er sú að mjög erfitt er að spá fyrir um það hver gerir það og hver ekki og enn ráða tölvulíkön ekki við slíkar spár, þó þau séu orðin betri og betri í því að fylgja stormunum eftir þegar þeir hafa myndast. Einnig eru líkön farin að mynda fellibylji sem ekkert verður úr. Tilviljanir virðast ráða upphafinu, en eftir að kerfið er komið í gang verður það fljótt sjálfbært, greiðir sína eigin götu, er gagnvirkt ferli.

Framhald

Meira má fræðast um fellibylji í næstu fróðleiksgrein.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica