Greinar
hitabeltisstormurinn Celia 1962 nálgast
Kort úr Morgunbl., smellið fyrir ítarlegri texta.

Fellibyljir 6

Margar gerðir fellibylja?

Trausti Jónsson 23.7.2008

Eru fellibyljir margra gerða?

Fyrir kemur að veikar háloftabylgjur að norðan berast suður um allt staðvindabeltið í Atlantshafinu. Í þeim er talsverður vindsniði, almennt mjög óhagstæður fellibyljum og fellibyljamyndun. En í suðausturjaðri bylgnanna er þó gjarnan ústreymi sem getur gangsett fellibyl á svipaðan hátt og gerist í austanbylgjunum. Til að þetta verði er nauðsynlegt að uppstreymið og dulvarmalosunin verði fljótt svo kröftug að þau eyðileggi vindsniðann í bylgjunni. Bylgjan er því eingungis gikkur fyrir ferlið, sem er þá eins og hlaðin byssa.

Sumir fræðimenn vilja gera greinarmun á milli þess sem þeir kalla riðastudda fellibylji (þeim sem ekki myndast í austanbylgju) og síðan hreinum og tærum fellibyljum sem myndast með stuðningi austanbylgnanna. Á Atlantshafi eru austanbylgjubyljirnir kenndir við Grænhöfða í Afríku og nefndir Capo Verde fellilbyljir. Fellibylur sá sem myndaðist óvænt undan Brasilíuströndum fyrir nokkrum árum mun hafa verið riðastuddur. Á þeim slóðum var ekki með fullri vissu vitað um fellibyl áður. Sumir hafa þó þóst finna einn eða tvo með því að liggja yfir gömlum gervihnattamyndum.

Afskornar lægðir

Svokallaðir háloftakuldapollar, sem berast inn í staðvindabeltið að norðan og lenda yfir hlýjum sjó, geta orðið vísar að fellibyljum. Kaldur kjarni pollanna getur á nokkrum dögum hlýnað svo (dulvarmalosun í skúrum) að hann verði hlýrri en svæðin umhverfis. Verða nú mörk milli venjubundinnar lægðar og fellibyls óljós. Fellibyljir, sem verða til úr kuldapollum eða lægðardrögum úr norðri, eru algengastir seint á haustin á Atlantshafi. Nóvemberfellibyljir eru gjarnan af þessu tagi. Sumir álíta að vafasamt sé að telja þessa tegund bylja til eiginlegra hitabeltisstorma, en í núverandi talningum eru þeir taldir með.

Atlantshafsfellibyljir og El Nino

Þegar litið er á tíðni fellibylja í Atlantshafi yfir langt tímabil kemur í ljós að þeir eru algengari þegar kalt er nærri miðbaug í austanverðu Kyrrahafi heldur en þegar hlýtt er á þeim slóðum. Ekki má þó alveg treysta á þessa reglu. Svo virðist sem mikið uppstreymi á einum stað í hitabeltinu geti dregið úr því á öðrum svæðum. Að jafnaði er uppstreymi mest við Indónesíu og að auki á meginlöndum á sumarmonsúnskeiði hvers þeirra. Uppstreymi yfir austanverðu Kyrrahafi er oftast lítið.

Mjög bregður út af á svokölluðum El Nino-skeiðum. Hlýindi með uppstreymi verða þá yfir miðju og jafnvel austanverðu Kyrrahafi, allt að ströndum Suður-Ameríku, en þurrkar (niðurstreymi) eru í Indónesíu. El Nino-uppstreymið virðist hafa tilhneigingu til að bæla einnig uppstreymi yfir Karabíska hafinu og svæðum þar austur af. Fellibyljir myndast þá síður á þeim slóðum, hentugum austanbylgjum fækkar, jafnvel þó þær haldi áfram að myndast álíka oft og venjulega.


Frétt um tjón í lægðinni Celiu 23.9. 1962
Tjón í Celiu 23.9. 1962
Lægðin sem greip með sér hitabeltisstorminn Celiu olli miklu tjóni hér á landi 23. september 1962. Þetta er fréttafyrirsögn af forsíðu Morgunblaðsins þriðjudaginn 25.9. Alllöng frétt er inni í blaðinu.

 

Áratugasveiflur

Þó fellibyljasaga Atlantshafsins sé ekki vel þekkt nema rúm 100 ár aftur í tímann og sæmilega 150-250 ár aftur í tímann má finna talsverðar áratuga- eða jafnvel fjöláratugasveiflur í tíðni fellibylja. El Nino-áhrifin virðast þannig merkjanleg og sömuleiðis er sem tíðni fellibylja á þessum slóðum sé háð vökvun V-Afríku. Á þurrkaskeiðum Sahel-svæðisins virðast fellibyljir vera fátíðari en annars, það er einnig rökrétt afleiðing af meiri stöðugleika þurrkaskeiðanna. Uppgufunarkólnun á sér þá síður stað yfir Vestur-Afríku og stöðugleika er síður ógnað.

Miklu máli skiptir fyrir tímaraðir hvort þær eru úr einsleitum eða samsettum þýðum sem kallað er. Hér að ofan var gefið í skyn að ef til vill þyrfti að greina á milli tveggja til þriggja tegunda (þýða) fellibylja á Atlantshafi eftir uppruna þeirra. Sé svo í raun og veru skiptir mjög miklu máli að geta sem best giskað á eðli fellibylja fortíðarinnar. Svo virðist t.d. að innbyrðis tíðnihlutfall tegundanna hafi verið misjafnt í gegnum tíðina.

Hlýnandi veðurfar

Ekki er vitað hvernig fellibyljatíðni breytist með hitafari í heiminum, því sjávarhiti á viðkomandi akri er ekki það eina sem skiptir máli. Sjávarhitinn einn ræður ekki gangsetningu ferlisins, stöðugleiki og halli veðrahvarfanna (vindsniði) skipta einnig afgerandi máli. Stöðuleikinn ræðst að nokkru af uppstreymi annars staðar í hitabeltinu og framboði á austanbylgjum (úrstreymi í réttri hæð).

Þetta þýðir að ekki er víst að fellibyljaakrarnir stækki þó yfirborð sjávar hlýni, vegna þess að aukið uppstreymi annars staðar (t.d. á monsúnsvæðum meginlandanna) getur bælt fellibylji eða komið í veg fyrir myndun þeirra. Svo gæti því farið að tíðni fellibylja aukist ekki með vaxandi sjávarhita, en hugsanlegt er að þeir verði öflugri. Hærri sjávarhiti ýtir undir aukna dulvarmalosun ef uppstreymi fer í gang á annað borð.

Framhald

Meira má fræðast um fellibylji í næstu fróðleiksgrein.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica