Rannsóknarverkefni

Rannsóknarverkefni

Norrænt rannsóknarverkefni og íslenskt systurverkefni þess

ICEWIND

ICEWIND er samnorrænt verkefni um vindorku á köldum svæðum (e. ICEWIND - Improved forecast of wind, waves and icing) unnið á árunum 2010–2014 og styrkt af Norræna orkusjóðnum. Verkefninu er stýrt af Vindorkudeild í danska tækniháskólanum en þátt taka stofnanir og fyrirtæki á öllum Norðurlöndunum. Íslenskir þátttakendur eru Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Landsvirkjun og Landsnet. Verkefnið er unnið í fjórum vinnupökkum en íslensk þátttaka er mest í tveimur fyrstu.

Í vinnupakka eitt er unnið með ísingu. Gera á ísingaratlas fyrir Svíþjóð og Ísland, þ.e. kortleggja á hvaða svæðum má gera ráð fyrir mestum vandamálum vegna ísingar. Þróa þarf ísingarspár sem yrðu hluti af orkuspám í framtíðinni. Ísing vegna skýja, hríms og í tilvikum frálandsvindmyllugarða vegna sjávarlöðurs, getur dregið mjög úr skilvirkri orkuframleiðslu vindmylla.

Í vinnupakka tvö er aðalverkefnið að kortleggja vindauðlindina á Íslandi og nærliggjandi hafsvæðum, þ.e. búa til vindatlas fyrir Ísland. Stórum hluta þeirrar vinnu er lýst á þessum vefsíðum. Með vindatlasi gefst tækifæri til að kanna ítarlegra út frá vindafari hvaða svæði henta  til vindorkuframleiðslu. Aðrir þættir koma þó einnig inn í greiningu á góðum vindorkusvæðum, svo sem umhverfissjónarmið, aðgengi, fjarlægð frá flutningslínum og veðurfar. Innan þessa vinnupakka er einnig könnuð samþætting vindorku og vatnsorku.

Mynd 1. Á Skálafelli í janúar 2005. Starfsmaður Veðurstofu Íslands er að ljúka við að berja ísingu utan af sjálfvirkri veðurstöð. Stórt ísiþakið mastur í baksýn. Ljósmynd: Sigvaldi Árnason.

Ísvindar

Ísvindar er íslenskt systurverkefni ICEWIND verkefnisins og byggir á og vinnst samhliða ICEWIND. Íslenska vindauðlindin er rannsökuð ítarlegra með áherslu á endurheimt og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna, ísingu, aftakaatburði og auðlindamat.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica