Júlí 2006
Nýliðinn júlímánuður var nærri meðallagi á flestum sviðum. Úrkoma var þó minni norðanlands en algengast er. Fyrri hluta mánaðarins voru hvassviðri algengari en venjulegt er á þessum árstíma.
Meðalhiti í Reykjavík var 11,1 stig og er það 0,5 stigum ofan við meðallag og ívið svalara en verið hefur í júlí síðustu 3 árin. Meðalhiti á Akureyri var 10,6 stig og er það lægsti meðalhiti í júlí þar síðan 1998, en þá var mun kaldara en nú. Júlí á Akureyri var kaldari en júní og er það í fyrsta skipti síðan 1995 að það gerist. Meðalhiti í Akurnesi var 11,0 stig og er það 0,6 stigum yfir meðallagi og meðalhiti á Hveravöllum mældist 7,8 stig og er það 0,8 stigum ofan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík mældist 43 mm og er það í tæpu meðallagi, á Akureyri mældist úrkoman 19 mm og er það 59% meðalúrkomu. Úrkoma í júlí hefur oft orðið minni en þetta í júlí á Akureyri, síðast árið 2000. Úrkoman í Akurnesi mældist 147 mm. Úrkomudagar voru 19 í Reykjavík, einum fleiri en í meðalári.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 177 og er það 6 stundum umfram meðallag, á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 151 og er það 7 stundum undir meðallagi.
Mesti hiti í mánuðinum mældist á Torfum í Eyjafirði þ.28., 23,3 stig, en lægstur -1,2 stig í Sandbúðum á Sprengisandsleið og á Skálafelli, hvoru tveggja aðfaranótt þess 9. Sömu nótt mældist frost 0,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum.