Apríl 2006

Trausti Jónsson 3.1.2007

Tíðarfar í nýliðnum apríl var nærri meðallagi á landinu, en þótti heldur kalt og rysjótt miðað við fimm næstu aprílmánuði á undan, sem allir voru með hlýjasta móti. Snjór var talsverður sums staðar norðanlands framan af mánuðinum en sólríkt var suðvestanlands.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 2,0 stig og er það 0,9 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 1,7 stig og er það í rétt rúmu meðallagi. Í Akurnesi var meðalhitinn 3,1 stig eða 0,3 yfir meðallagi og á Hveravöllum var meðalhitinn -3,8 stig og er það um hálfu stigi undir meðallagi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 71mm og er er það rúm 20% umfram meðallag, á Akureyri mældist úrkoman 25 mm og er það heldur undir meðallagi. Í Akurnesi mældist úrkoman 96mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 220 og er það 80 stundum umfram meðallag. Ekki hefur oft verið sólríkara í Reykjavík í apríl, en þó var sólríkara í apríl árið 2000 og ámóta margar sólskinsstundir og nú mældust bæði 1999 og 2001. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 114 og er það 16 stundum undir meðallagi.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist á sjálfvirku stöðinni á Kollaleiru í Reyðarfirði, 19,7 stig þ.28. Sama dag mældust 18,9 stig á mönnuðu stöðinni á sama stað. Lægsti hiti mánaðarins mældist á veðurstöð á Brúarjökli, -20,4 stig aðfaranótt þ.3., nóttina áður fór hiti niður í -17,8 stig á Torfum í Eyjafirði.

Aðeins voru 36 alhvítir dagar í Reykjavík í vetur, þar af 3 í apríl. Þetta er 29 dögum færra en að meðaltali veturna 1971 til 2000. Veturinn var sá sjötti í samfelldri röð snjólítilla vetra í Reykjavík.



 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica