Febrúar 2006

Trausti Jónsson 3.1.2007

Nýliðinn febrúar var mjög hlýr á landinu. Í Reykjavík var meðalhitinn 3,3 stig og er það 2,9 stigum ofan meðallags.Þetta er fjórði hlýjasti febrúarmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík, talsvert hlýrra var bæði 1932 og 1965, lítillega hlýrra varð 1964 og ámóta hlýtt var í febrúar 1929. Á Akureyri mældist meðalhiti 1,9 stig og er það 3,4 stigum ofan meðallags. Lítið eitt hlýrra var á Akureyri í febrúar 2003 og er nýliðinn mánuður sjöundi hlýjasti frá upphafi mælinga þar. Í Akurnesi var meðalhiti 3,1 stig, nánast sami og 2003. Á Hveravöllum var meðalhitinn -2,0 stig og hefur meðalhiti ekki mælst hærri þar í febrúar (ekki var byrjað að mæla í febrúar 1965). Úrkomusamt var um landið sunnanvert. Úrkoma í Reykjavík mældist 87mm og er það um 20% umfram meðallag. Fremur þurrt var á Akureyri, þar mældist úrkoman 21mm og er það um helmingur meðalúrkomu. Af þessum 21mm féllu reyndar 13 á einum degi (16. til 17.). Aðeins var alhvítt í þrjá daga á Akureyri í mánuðinum eing og í fyrra. Í Akurnesi mældist úrkoman 104mm. Sólskinsstundir mældust 58 í Reykjavík, en 43 á Akureyri, hvort tveggja í rétt rúmu meðallagi. Lægsti hiti í mánuðinum mældist á Brúarjökli þ.8, -25,8 stig, en hæstur varð hitinn á Seyðisfirði 16,2 stig að kvöldi þ.21.

 


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica