Árið 2006

Tíðarfarsyfirlit

Trausti Jónsson 18.1.2008

Tíðarfar ársins 2006 má yfirleitt teljast hagstætt, þrátt fyrir að skakviðrasamt hafi verið með köflum. Hlýtt var um land allt, um sunnan- og vestanvert landið var hitinn víðast hvar um 1,1 stigi ofan við meðallag áranna 1961-1990, en norðaustan- og austanlands var hitinn um 1,3 til 1,8 stigum ofan meðallags.

Meðalhiti í Reykjavík var 5,4 stig og var árið hið 11. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga, á Akureyri var meðalhitinn 4,6 stig, og var árið þar einnig það 11. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,7 stig og varð árið þar hið 13. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga og á Teigarhorni var meðalhitinn 5,0 stig og árið hið 5. hlýjasta frá upphafi mælinga þar 1873. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti 5,9 stig og árið það 9. hlýjasta og á Hveravöllum var meðalhiti 0,5 stig og árið hið þriðja hlýjasta frá upphafi mælinga þar, 1965.

Ekki virðist lát á þeim hlýindum sem byrjuðu hérlendis fyrir 10 árum eða svo. Í Reykjavík var hiti ofan meðallags í öllum mánuðum, nema í apríl, og á Akureyri í öllum mánuðum, nema maí og nóvember. Í Reykjavík er tímabilið sem spannar síðastliðin 10 ár það hlýjasta frá upphafi mælinga. Munur á árunum 1997 til 2006 annars vegar og 1932 til 1941 hins vegar er þó ekki marktækur. Á Akureyri er eldra tímabilið lítilega hlýrra en síðustu 10 ár.

Úrkoma í Reykjavík var 890 mm og er það um 11% umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 549 mm og er það 12% umfram meðallag. Mjög sólríkt var um sunnanvert landið, í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 1494 sem er 226 stundum umfram meðallag. Munar þar mestu um sólríka vormánuði . Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1034 og er það í rétt tæpu meðallagi.

Hæsti hiti sem mældist á árinu var í Ásbyrgi 3. ágúst, 25,7 stig, hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Staðarhóli í Aðaldal 4. ágúst, 24,0 stig. Lægsti hiti mældist á Brúarjökli 18. nóvember, -26,1 stig, daginn eftir mældist 25,3 stiga frost á sjálfvirku stöðinni í Möðrudal, en -24,5 á mönnuðu stöðinni á sama stað. Hæsti hiti í Reykjavík mældist að kvöldi 1. ágúst, 19,2 stig. Sama dag fór hiti í 21,5 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi. Lægsti hiti í Reykjavík mældist þ.18. nóvember, -13,5 stig. Hæsti hiti á Akureyri mældist 23,0 stig þ. 4. ágúst, en lægstur varð hann þ.18. nóvember, -15,2 stig.

Mesta sólarhringsúrkoma sem enn hefur frést af á árinu mældist í Kvískerjum í Öræfum þann 20. desember, 175,3mm. Hámarkssólarhringsúrkoma í Reykjavík á árinu var 38,7 mm, það var 27. október. Á Akureyri mældust mest 21,9 mm á sólarhring, það var 29. nóvember.

Síðastliðinn vetur var mjög hlýr, í Reykjavík og á Akureyri sá fjórði hlýjasti frá upphafi mælinga. Sömuleiðis var snjólétt, sérstaklega um landið norðaustan- og austanvert. Veturinn var sá sjötti í samfelldri röð snjólítilla vetra í Reykjavík.

Tíð var óróleg í janúar. Hlýtt var í veðri lengst af og úrkomusamt um landið sunnan- og vestanvert, en fremur þurrt á norðaustanverðu landinu. Einnig var hlýtt í febrúar, hann var fjórði hlýjasti febrúarmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík, en sjöundi hlýjasti frá upphafi mælinga á Akureyri. Úrkomusamt var um landið sunnanvert. Marsmánuður var mjög skiptur hvað tíðarfar varðar. Fyrstu dagarnir voru fremur kaldir, en síðan kom hlýindakafli sem náði hámarki um miðjan mánuð. Köld norðanátt var ríkjandi síðustu 10 daga mánaðarins og var vindur allhvass lengst af. Mjög þurrt var þá um landið sunnanvert, en norðanlands og austan snjóaði talsvert. Mikill sinubruni hófst á Mýrum síðasta dag mánaðarins.

Vorið var ívið kaldara en í meðallagi, mjög sólríkt var í Reykjavík og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri sólskinsstundir að vori, en það var 1924.

Tíðin í apríl þótti heldur köld og rysjótt miðað við fimm næstu aprílmánuði á undan, sem allir voru með hlýjasta móti. Snjór var talsverður sums staðar norðanlands framan af mánuðinum en sólríkt var suðvestanlands. Tíðarfar í maí var óvenju kaflaskipt. Fyrstu 10 dagarnir voru með allra hlýjasta móti, en vikan í kringum þann 20. var aftur á móti meðal þeirra köldustu á þessum tíma árs. Þá setti niður óvenjumikinn snjó í útsveitum á Norðurlandi og vetrarfærð var á vegum. Hiti komst víða yfir 20 stig í hlýindakaflanum. Sólríkt var um landið sunnanvert og úrkomusamt norðanlands.

Sumarið byrjaði heldur grámyglulega, sérstaklega á suðvesturhorninu og var sólskinsstundafjöldi sumarsins í tæpu meðallagi. Í júní var úrkomu- og umhleypingasamt um landið sunnanvert, en hagstæðara norðan- og austanlands.

Júnímánuðir áranna 2002 til 2005 voru allir óvenju hlýjir og hagstæðir og brá mönnum því nokkuð við er hiti var aðeins í rétt rúmu meðallagi í Reykjavík. Hlýtt var á Akureyri.

Úrkomudagar í Reykjavík voru óvenjumargir eða 24 en það er 7 umfram meðallag. Ekki hefur rignt jafn marga daga í júní frá 1983 en þá voru úrkomudagarnir 25, úrkomudagar í júní 1960 voru líka 25 og 24 1969. Júlí var nærri meðallagi á flestum sviðum. Úrkoma var þó minni norðanlands en algengast er. Fyrri hluta mánaðarins voru hvassviðri algengari en venjulegt er á þessum árstíma. Ágúst var yfir meðallagi hlýr um allt land og tíð talin hagstæð í flestum landshlutum. September mánuður var óvenju hlýr um allt land, í Reykjavík sá fjórði hlýasti síðan mælingar hófust og sá hlýjasti síðan 1958.

Október var í hlýrra lagi, í Reykjavík var tiltölulega sólríkt þó úrkoma væri nokkuð umfram meðallag. Þrátt fyrir mikið kuldakast um miðjan nóvember varð hiti um sunnanvert landið samt í rétt rúmu meðallagi, en kaldara var nyrðra. Illviðrasamt var umfram venju í nóvember, töluvert tjón varð í sumum illviðranna, sérstaklega því fyrsta sem gerði 5. dag mánaðarins. Nokkur ófærð varð í Reykjavík í hríðarbyl um miðjan mánuð, en annars var snjólítið syðra. Norðanlands var talsverður snjór um tíma.

Desember var kaldur í byrjun, en mjög hlýtt var eftir þann 17. Nokkuð illviðrasamt var í mánuðinum, einkum síðari hluta hans og fokskemmdir nokkrar. Meira kvað þó af tjóni sem varð í miklum leysingum í í vikunni fyrir jól í Eyjafirði, skriður féllu, ár flæddu yfir bakka sína og fénaður drapst. Óvenjumikið flóð gerði sömu daga í Hvítá og Ölfusá í Árnessýslu og olli það talsverðum sköðum.

 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica