Maí 2005

Guðrún Þ. Gísladóttir 3.1.2007

Þurr, sólríkur mánuður en óhagstæður gróðri

Veður var óvenju þurrt og sólríkt um meginhluta landsins í maí og lengst af fremur svalt, næturfrost viðloðandi. Meðalhiti í Reykjavík var 5,7 stig og er það 0,6 stigum undir meðallagi. Þetta er fyrsti mánuðurinn frá því í febrúar 2002 sem er marktækt undir meðallagi í Reykjavík. Október 2004 var lítillega undir því en aðrir mánuðir ekki á þessu tímabili. Þetta er jafnframt kaldasti maí í Reykjavík frá 1993. Á Akureyri var meðalhitinn 4,4 stig og er það 1,1 stigi undir meðallagi, þar er maí hinn kaldasti frá 1995. Í Akurnesi var meðalhitinn 5,0 stig og 0,5 stig á Hveravöllum.

Mánuðurinn var þurr, í Reykjavík mældist úrkoman 13,8 mm eða tæpur þriðjungur meðalúrkomu. Úrkoma var svipuð í maí 1997, en þurrasti maí í Reykjavík var 1931 þegar úrkoman mældist aðeins 0,3mm. Þurrt var í 16 daga samfellt, en lengstu þurrkaflar í Reykjavík eru um 30 dagar þannig að nokkuð skortir á að um met hafi verið að ræða. Á Akureyri mældist úrkoman aðeins 6,5mm og er það rúmur þriðjungur meðalúrkomu, maí hefur þar oft orðið jafnþurr eða þurrari. Í Akurnesi mældust aðeins 4mm og er ekki vitað um jafn litla úrkomu í maí á þeim slóðum.

Mjög sólríkt var í mánuðinum. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 317,7 eða 126 umfram meðallag og hafa aðeins einu sinni orðið fleiri í maí. Það var 1958 er sólskinsstundirnar voru 330,1. Einnig var sólríkt á Akureyri, þar voru sólskinsstundirnar 246,1 eða 72 umfram meðallag.



 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica