Febrúar 2005

Guðrún Þ. Gísladóttir 3.1.2007

Fyrstu daga mánaðarins, sem og síðasta þriðjung hans var mjög hlýtt í veðri, en nokkuð kuldakast gerði þar á milli. Óvenju snjólétt var á landinu og sérstaklega um norðanvert landið. Þannig varð ekki alhvítt á Akureyri nema þrjá daga og mesta snjódýpt þar mældist 5 cm, í Reykjavík var alhvítt 11 daga og snjódýpt mest 10 cm.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,5 stig og er það 1,1 stigi yfir meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn 0,8 stig sem er 2,3 stigum yfir meðallagi. Á Hveravöllum var meðalhitinn -4,4 stig og er það 1,6 stigi yfir meðallagi. Í Akurnesi mældist meðalhitinn 0,7 stig.

Úrkoma var allmikil um suðvestan- og vestanvert landið, en þurrviðrasamt var í öðrum landshlutum. Úrkoma í Reykjavík mældist 105 mm og er það 46% umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman aðeins 11 mm, það er fjórðungur meðalúrkomu þar og hið minnsta í febrúar síðan 1986, en þá mældist úrkoma á Akureyri aðeins 1 mm. Í Akurnesi mældist úrkoman 30 mm, þar af féll meir en helmingur á einum degi. Mælingar hafa verið gerðar í Akurnesi frá 1992, en trúlegt er að þetta sé minnsta febrúarúrkoma á þessum slóðum síðan 1965, en þá mældist úrkoman í Hólum aðeins 4 mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 38 og er það 14 stundum undir meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 54 og er það 18 stundum yfir meðallagi.

Eins og að ofan greindi var mjög snjólétt víðast hvar á landinu og svo virðist sem ekki hafi verið jafn snjólétt á Akureyri í febrúar síðan 1932, en 1965 var álíka snjólétt og nú. Athuganir á snjóhulu eru þó nokkuð óvissar á Akureyri fyrir 1960.



 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica