Sumarið 2003
Sumarið var óvenju hlýtt um land allt. Í Reykjavík var meðalhiti þess 11,2 stig, hlýjasta sumar frá 1941 en þá var hiti mjög svipaður og nú. Lítillega hlýrra var 1939, þannig að nýliðið sumar er hið þriðja hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 10,8 stig og er það einnig hið hlýjasta frá 1941 þar. Þó var álíka hlýtt sumarið 1976. Nokkru hlýrra var á Akureyri sumurin 1939 og 1933.
Úrkoma í Reykjavík var 30% umfram meðallag og úrkomudagafjöldi 13 umfram meðallag. Á Akureyri mældist sumarúrkoman 17% umfram meðallag og úrkomudagar voru þar einnig 13 fleiri en í meðalsumri.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 579 og er það 33 stundum undir meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 493 og er það 63 stundum undir meðallagi.
Í ágústlok var meðalhiti síðustu 12 mánaða í Reykjavík sá hæsti síðan samfelldar mælingar hófust. Með september lækkar 12 mánaða meðaltalið lítillega en er samt ofan við það sem hæst hafði áður verið. Á Akureyri er hiti síðustu 12 mánuði jafnhár og hæst hefur mælst þar áður (mars 1933 til febrúar 1934).