Júlí 2003
Nýliðinn júlímánuður var mjög hlýr á landinu, í Reykjavík var meðalhitinn 12,3 stig, hið mesta frá 1991 og 1,7 stigi yfir meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn 11,7 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi, júlí 2000 var hlýrri á Akureyri en nú. Í Akurnesi mældist meðalhitinn 11,4 stig hið mesta frá 1991 eins og í Reykjavík, á Hveravöllum var meðalhitinn 9,5 stig.
Úrkoma var yfir meðallagi bæði í Reykjavík og á Akureyri, í Reykjavík mældist hún 65mm og er það um fjórðungi umfram meðallag og á Akureyri mældist úrkoman 47mm sem er um 40% umfram meðallag þar. Í Akurnesi mældist úrkoman 157mm og 82 á Hveravöllum. Á síðarnefnda staðnum hefur ekki mælst jafnmikil úrkoma í júlí síðan 1989. Sólskinsstundafjöldi var undir meðallagi bæði í Reykjavík og Á Akureyri, í Reykjavík mældust þær 131 og er það 40 stundum minna en í meðalári, á Akureyri mældust 110 sólskinsstundir og er það nærri 50 stundum undir meðallagi.
Saman hafa mánuðirnir júní og júlí verið mjög hlýir og er ekki vitað um hærra meðaltal þessara mánaða í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871, munur á hitanum nú og í sömu mánuðum 1933, 1939 og 1941 er þó svo lítill að hann er varla marktækur og innan þeirrar skekkju sem flutningar stöðvarinnar innan Reykjavíkur valda. Fara þarf aftur til 1964 til að finna jafnhlýja fyrstu 7 mánuði ársins bæði í Reykjavík og á Akureyri og síðustu 12 mánuðir hafa í Reykjavík verið jafnhlýir og hlýjustu 12 mánaða tímabil til þessa, en það var á árunum 1941 til 1942. Heldur hlýrra var á Akureyri á árinu 1933 en síðustu 12 mánuðina og litlu munar í fáeinum tilvikum öðrum. Munurinn er þó í öllum tilvikum innan þeirra skekkjmarka sem áður er minnst á og stafa af flutningum stöðvanna og lítillega breyttum mæliháttum. Hlýindin síðasta árið eða svo eru sambærileg við það sem best gerðist hér á landi á hlýskeiðinu 1925 til 1964.