Árið 2000

Guðrún Þ. Gísladóttir 9.1.2007

Tíðarfar var hagstætt lengst af. Snjór og umhleypingar voru til baga í febrúar og mars og nokkuð erfitt kuldakast gerði síðari hluta maímánaðar og fram eftir júní. Sumarið og haustið voru mjög hagstæð. Meðalhiti ársins var 4,5 stig í Reykjavík og er það 0,2 stigum ofan við meðallag. Þetta er svipað og undanfarin ár. Á Akureyri var hlýrra að tiltölu, meðalhiti ársins var 4,2 stig og er það 1 stigi ofan meðallags. Þetta er hlýjasta ár á Akureyri frá 1991, en þá varð þó nokkru hlýrra en nú. Úrkoma í Reykjavík mældist 800mm og er það nákvæmlega í meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman um 559mm og er það um 70mm umfram meðallag. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1390 og er það um 120 stundum umfram meðallag, en ívið færri en 1998. Sólskinsstundir á Akureyri mældust 1276 og hafa aldrei mælst fleiri á einu ári frá því að mælingar hófust 1928.

Janúarmánuður var góðviðrasamur og fremur hlýr lengst af. Í febrúar var tíðarfar var lengst af óhagstætt. Snjór var þrálátur á jörðu og olli hann nokkrum samgöngutruflunum. Í Reykjavík var jörð hulin snjó 28 daga í mánuðinum og þarf að fara aftur til 1957 til að finna jafn þrálátan snjó í þessum mánuði. Snjódýpt var þó aldrei mikil miðað við það sem mest getur orðið. Hún var mest 28 cm, en mest hafa mælst 48 cm í febrúar. Marsmánuður var umhleypingasamur og tíð fremur erfið. Venju fremur snjóþungt var suðvestanlands. Að kvöldi þess fimmta gerði óvenju hart veður af norðvestri norðaustanlands. Undir lok mánaðarins voru miklar leysingar og hlýindi víða um land og sums staðar vestanlands og á sunnanverðum Vestfjörðum, á Snæfellsnesi og í Borgarfirði var óvenju mikið úrfelli. Skriður ollu sköðum. Úrkoman í Reykjavík var hin mesta í mars frá 1953. Veturinn varð einn af þeim snjóþyngstu í Reykjavík síðustu 30 árin eða svo. Svipaður snjór eða öllu meiri var þó 1984 og 1989.

Aprílmánuður var kaldur og þurr og fór illa með gróður. Sólskin var óvenju mikið og hafa sólskinsstundir ekki mælst eins margar í apríl frá upphafi mælinga í Reykjavík árið 1923 og árið 1928 á Akureyri. Einnig gerði lengsta samfellda sólskinskafla í Reykjavík frá upphafi mælinga þegar sólin skein í meir en 10 klst á dag 12 daga í röð dagana 14. - 25. Maímánuður var í meðallagi í heild, en í raun skiptist mánuðurinn í tvo mjög ólíka kafla. Fyrri hlutann var hlýtt, þá rigndi talsvert syðra og margir mjög góðir dagar komu norðanlands. Upp úr miðjum mánuði gerði versta veður, kólnaði mikið og kalt var allan síðari hlutann.

Júnímánuður var í meðallagi hlýr. Norðanlands var óvenju sólríkt og þurrt. Á Akureyri mældust sólskinsstundir 284,8 klst og hafa ekki mælst fleiri í júní frá upphafi mælinga árið 1928. Næstur er júnímánuður 1982 með 263,8 klst. Júlímánuður var þurr og sólríkur. Hiti var í góðu meðallagi. Mjög þurrt var á norðaustan- og austanverðu landinu. Ágústmánuður var fremur hlýr og talinn hagstæður um land allt. September var einnig hlýr. Á norðan- og austanverðu landinu var þurrt og sólríkt. Mikið vatnsveður var á suðvestanverðu landinu dagana 12.-16. og stutt norðan áhlaup gekk yfir landið á eftir en að öðru leyti var tíðin góð. Sumarið í heild verður að teljast fremur hlýtt og sólríkt. Það var hið sólríkasta á Akureyri frá upphafi mælinga (1928).

Októbermánuður var fremur hlýr, einkum þó seinni hlutinn. Frostlaust var að mestu á láglendi nema fáa daga. Nóvembermánuður var hagstæður víðast hvar á landinu . Óvenju þurrt var um sunnanvert landið og hefur ekki mælst svo lítil úrkoma í nóvembermánuði í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga árið 1920. Haustúrkoma fyrir norðan var hins vegar talsvert meiri en að meðaltali. Tíðarfar í desember taldist hagstætt og góðviðrasamt um meginhluta landsins. Mjög þurrt var sunnan- og vestanlands.



 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica