Greinar
Uppgufun yfir öskulagi
Uppgufun yfir öskulagi.

Dulvarmi í daglegu lífi

Raki í lofthjúpnum III

Trausti Jónsson 30.5.2007

Fjölmörg dæmi mætti nefna um dulvarma í daglegu lífi. Til dæmis er hann líkamanum nauðsynlegur til kælingar, bæði í formi svita og ekki síður við öndun. Sviti er mjög áhrifaríkur til kælingar í heitu og þurru veðri. Hann gufar upp af yfirborði húðarinnar og orkan sem fer í það er að miklum hluta til komin frá húðinni og háræðakerfi hennar. Húðin gefur því frá sér gríðarlegan varma og líkaminn kólnar þegar svitinn gufar upp. Aukist loftraki verður þessi kælingaraðferð ekki eins áhrifamikil og álag á líkamann eykst.

Kæling við öndun er síst áhrifaminni. Þáttur hennar gleymist oft þegar rætt er um ofkælingarhættu og getur mæði í miklum kulda haft alvarlegar afleiðingar. Loftið sem berst til lungnanna undir slíkum kringumstæðum verður mjög þurrt þegar komið er í lungun. Þar gufar því mikið upp af vatni og í það fer umtalsverð orka sem getur stuðlað að því að ofkæling eigi sér stað.

Að forðast mæði og beina innöndun í lungun í vetrarferðum getur því verið jafnmikilvægt og að vera vel klæddur. Þreklitlum manni sem mæðist fljótt er því mun hættara við ofkælingu en þrekmiklum þótt þeir séu jafnvel klæddir. Bráðnun veldur líka hættu í vetrarferðum og er mikilvægt að skafrenningur eða snjór setjist ekki í illa einangraðar flíkur þannig að líkaminn fari að bræða hann, bræðsluvarminn kemur allur að innan og stuðlar að ofkælingu.

Á Skálafelli
mælitæki þakin ísingu
Mynd 1. Sjálfvirk veðurstöð á Skálafelli 23. janúar 2004. Ljósmynd. Sigvaldi Árnason.

Mikilvægt er að átta sig á því að þegar menn koma blautir og hraktir inn í hlýja bíla fer bleyta í fötum að gufa upp. Varminn til uppgufunarinnar kemur ekki aðeins frá miðstöð bílsins heldur einnig innan úr líkama þess blauta, kæling getur því haldið áfram þótt verið sé í hlýju umhverfi.

Margir munu kannast við ráð sem garðeigendur geta notað til að minnka líkur á frostskemmdum. Það er að bleyta plönturnar að kvöldi sé veður þurrt. Þetta eykur raka í loftinu næst yfirborði laufanna. Þegar loftið kólar þéttist þessi raki aftur, skilar dulvarmanum og tefur fyrir frekara hitafalli.

Líkur á næturfrosti eru miklu meiri sé loft þurrt en rakt. Þurra loftið hefur engan dulvarmageymi til þess að ganga á eins og það raka. Það kólar hraðar vegna þess að orkuinnihald þess er minna þó að hiti á mæli sé hinn sami.

Úr Veðurbók Trausta Jónssonar

Skylt efni er að finna í næstu fróðleiksgrein um raka í lofthjúpnum (eða fyrri grein).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica