Greinar
Sól í skýjum og ljósblettur utar
Aukasól, hjásól eða gíll.

Baugar og hjásólir

Trausti Jónsson 24.4.2007

Gíll og úlfur

Gíll eða aukasól er ljósblettur sem fer á undan (sést vestan við) sól og myndast við ljósbrot sólargeislanna. Samsvarandi ljósblettur sem fer á eftir sól (austan við hana) heitir úlfur. Sagt er að sól sé í úlfakreppu. Hjásólir af þessu ákveðna tagi myndast við ljósbrot í flötum sexstrendum ískristöllum þar sem þykkt plötunnar er lítil miðað við þvermál hennar. Plöturnar falla oftast flatar.

Aftur upp

Rosabaugur og hjásólir

Þegar sól er lágt á lofti falla gílar og úlfar oft saman við svokallaðan 22° rosabaug. Hann myndast hins vegar við ljósbrot í stuðlakristöllum, en lengd þeirra er að jafnaði meiri en þvermál. Þeir falla á ýmsa vegu, oftast þó með lengri ás tiltölulega flatan. Ef lengd og þvermál eru svipuð er fallhalli kristallanna á ýmsa vegu. Þá koma fram bæði gílar og rosabaugur. Ef sól er hátt á lofti (sem ekki gerist nema um miðjan dag að sumarlagi hér á landi) flytjast gílarnir út fyrir 22° bauginn.

Þegar rosabaugur er á lofti sýnist svæðið innan við bauginn dekkra en utan við, kristallabrotið hefur stolið geislum og flutt út í bauginn. Bjarta svæðið sem fylgir baugnum nær oft út í 40 til 50°.

Litir í hjásólum og rosabaug stafa af mismiklu ljósbroti rauðra og blárra geisla. Gílar og 22° rosabaugurinn eru mjög algengir, sjást gjarnan oftar en einu sinni í viku á hverjum stað hér á landi en eru misáberandi.

Á mynd 1 virðist sólin stærri en venjulega vegna bjarmans í skýjunum kringum sólarsvæðið. Myndasmiðurinn lýsti fyrirbærinu þannig að það væri eins og regnbogalituð aukasól væri við hlið raunverulegrar sólar, jafnstór eða lítið minni.

Úlfur, efri snertibaugur og sólhæðarbaugur.
hringur af ljósi og litablettur á hringnum
Mynd 2. Úlfur, efri snertibaugur og sólhæðarbaugur við Írafoss, líklega um 1991. Ljósmyndari óþekktur.

Lengst til vinstri á mynd 2 sést svokallaður úlfur (eystri-gíll) en það er bjartur blettur eða hjásól austan við sólina og myndast við ljósbrot í flötum ískristöllum. Vestan við sól er önnur hjásól, svonefndur gíll (sést ekki á myndinni).

Algengast er að rosabaugur (22° baugur) sjáist í samfloti með gílunum sem þá sjást sem bjartir blettir á baugnum í sömu hæð á lofti og sólin. Þegar sól er hátt á lofti (eins og á mynd 2) ganga gílarnir hins vegar út fyrir rosabauginn.

Aftur upp

Snertibaugar

Í fljótu bragði gæti maður haldið að baugbrotið sem sést efst á mynd 2 sé einmitt 22° baugurinn en við nánari skoðun er nánast fullvíst að hér sé um að ræða svonefndan efri snertibaug. Þegar sól er mjög lágt á lofti sést hann oft sem fuglslaga vaff þar sem botn vaffsins snertir 22° bauginn. Eftir því sem sól hækkar á lofti breiða fuglsvængirnir úr sér og vaffið grynnkar (sjá mynd í greininni Sólstólpi).

Þegar sólin er meir en 22° ofan sjóndeildarhrings kemur annar snertibaugur í ljós undir sólinni snertandi 22° bauginn að neðanverðu. Eftir því sem sólin hækkar á lofti teygja snertibaugarnir sig umhverfis 22° bauginn og fara að ná saman þegar sól hefur náð að minnsta kosti 29° hæð. Þetta hefur ekki gerst á mynd 2, þeir umfaðma þá 22° bauginn. Þeir verða smám saman að reglulegum hring og ef sól nálgast hvirfilpunkt (aldrei hér á landi) verða 22° baugurinn og umfeðmisbaugurinn nánast óaðgreinanlegir.

Algengast er að litir greinist öllu betur í sundur í snertibaugunum heldur en í 22° baugnum. Ljós sem myndar snertibauga hefur brotnað á flóknari hátt en í gílum og 22° baug. Um það má t.d. lesa á vefsíðunni Atmospheric Optics.

Aftur upp

Gílabaugur

Á mynd 2 má, auk úlfs og efri snertibaugs, sjá svokallaðan gílabaugur (parhelic circle). Hann gengur þvert í gegnum sól í sömu hæð og hún. Stundum nær þessi baugur allt í kringum sjóndeildarhringinn og myndast stöku sinnum á honum aðrar hjásólir (120° gílar).

Gílabaugurinn myndast við speglun á lóðréttum flötum ískristallanna (svipað og sólstólpi myndast við speglun á láréttum flötum kristallanna). Næst sólu er speglunin af ytra borði kristallanna, en lengra frá sól er hún af innri flötum hans.

Aftur upp

Fleiri myndir og heimildir

Á síðunni Atmospheric Optics má sjá mynd af svonefndum 22° rosabaugi sem er algengastur rosabauga eða hjálmabanda eins og e.t.v. væri æskilegt að nota sem safnheiti allra þeirra bauga og banda sem verða til við ljósbrot í skýjum. Rosabaugurinn myndast við ljósbrot í stuðlakristöllum, en lengd þeirra er að jafnaði meiri en þvermál. Þeir falla á ýmsa vegu, oftast þó með lengri ás tiltölulega flatan. Eins og gráðutalan í nafninu tiltekur er radíus baugsins 22° frá sól. Það samsvarar u.þ.b. fjarlægð frá þumli til litlafingurs sé hönd brugðið fyrir sól (takið eftir litlu myndinni neðar til hægri á sömu síðu: 22° rosabaugi). Sé radíusinn meiri en þetta er væntanlega um aðra tegund rosabaugs/hjálmabanda að ræða.

Sjá einnig fróðleik um rosabauga.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica