Greinar
sól með björtum hring utan um
Rosabaugur

Rosabaugar

Kristín Hermannsdóttir 21.9.2007

Rosabaugur myndast þegar sólin skín í gegnum þunna skýjabreiðu (oftast bliku) sem er hátt á himni. Hún inniheldur ekki vatnsdropa, heldur ískristalla, því það er yfirleitt frost svona hátt uppi.

Ljósið frá sólinni brotnar í kristöllunum og það myndast eins konar regnbogi kringum sólina. Ískristallarnir eru sexstrendingar og þegar ljósið fer í gegnum þá breytir það um stefnu, en misjafnlega mikið eftir því hvernig það fellur á strendinginn.

Algengasta stefnubreytingin er 22 gráður, og þess vegna myndast hringur í þeirri fjarlægð frá sól á himninum. Þetta gerist þótt ískristallarnir snúi á alla mögulega vegu í skýjunum; við sjáum samsafn ljóss sem fer gegnum þá kristalla sem hafa mátulega stefnu.

Rosabaugur - skýringarmynd.
Rosabaugur - skýringarmynd.
Mynd 2. Skýringarmynd af rosabaugi, fengin af síðu Georgia State University.

Rosabaugur (halo) er oftast einlitur en stundum er baugurinn rauðleitur að innanverðu (nær sólinni) en blár að utanverðu. Stundum myndast bjartir blettir (úlfar, e. parhelia, sun dogs) sitt hvoru megin við sólina. Blettirnir eru 22-24° frá sólinni. Sé greint á milli blettanna kallast sá hægra megin (á undan sólinni) gíll en sá vinstra megin úlfur. Stundum sést aðeins einn blettur.

Ef gíll og úlfur sjást samtímis er sólin sögð í úlfakreppu. Munnmæli um veður segja að ekki sé gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni (og í fullu vestri sé).

Rosabaugur.
sól með björtum hring utan um
Mynd 3. Rosabaugur í Dölunum þann 25. júlí 2007. Rosabauginn mátti sjá frá um það bil kl. 13:30 til 15:30. Ljósmynd: Sigríður Arna Arnþórsdóttir.

Svipað ljósbrot getur myndast í klósigum og maríutásu (aðrar gerðir af háskýjum). Þær ljósmyndir sem fylgja þessari umfjöllun voru teknar í Dölunum þann 25. júlí 2007. Rosabauginn mátti sjá frá kl. 13:30 til 15:30 um það bil, og var hann alveg stórkostlegur að sögn ljósmyndarans, Sigríðar Örnu Arnþórsdóttur. Þennan dag var norðaustan- og síðan norðanátt í Dölunum.

Frá Ásgarði í Dölum sást uppsláttarblika kl. 12 og í Stykkishólmi var gráblika á himni kl. 12. Sama dag kl. 15 var þunn blika yfir Stykkishólmi og eins á Reykjum í Hrútafirði. Það er því ekki að undra að rosabaugur hafi sést kringum sólina.

Sjá einnig fróðleik um Bauga og hjásólir og mynd Lárusar Sigurðarsonar af rosabaugi.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica