Greinar
Hlýnun jarðar frá síðari hluta 19. aldar.

Alþjóðlegi veðurdagurinn 2016

Hlýrra, þurrara, votara.
Horfumst í augu við framtíðina.

Halldór Björnsson 23.3.2016

Árið 2015 var hlýjasta ár frá upphafi samfelldra mælinga á hnattræna vísu.

Þetta var annað metárið í röð. Eins og meðfylgjandi línurit sýnir, varð það einnig mun hlýrra en árið á undan. Ástæða þess að um svo afgerandi met var að ræða er sú, að sjávarhiti í Kyrrahafi var óvenjuhár hluta ársins en slíkt gerist í svokölluðum El Nino árum.

Línuritið sýnir líka eindregna hlýnun síðustu áratugi og sýnir að á síðasta áratug hefur það ítrekað gerst að ár slái hitamet. Þessi hlýnun stafar af aukningu gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum sem er afleiðing bruna jarðefnaeldsneytis. Hlýnun jarðar gerir veðurmet af þessu tagi mun líklegri og ýtir undir margskonar öfgar í veðri.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) tileinkar alþjóðlega veðurdaginn 2016 hnattrænum loftslagsbreytingum og auknum öfgum í veðurfari. Yfirskrift dagsins er Hlýrra, þurrara, votara. Horfumst í augu við framtíðina og er kynnt á vef WMO. Í kynningunni er farið yfir nýlegar öfgar í veðurfari víða um heim og einnig fjallað um mikilvægi þess að ákvarðanir séu byggðar á bestu þekkingu.

Roðaglóð
""
Sólsetur í suðvestri séð af Einbúakletti á Egilsstöðum 5.02.2015 kl 17:25. Ljósmynd: Eyþór Hannesson.

Í tilefni dagsins var einnig birt ákall frá nýjum aðalritara Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, Petteri Taalas. Þar voru þjóðir heims minntar á Parísarsamkomulagið frá því í desember síðastliðinn og varaðar við því álagi sem komandi veðurfarsbreytingar hafa í för með sér á samfélög manna. Viðnámsþróttur gegn breytingunum hefur mikið að segja.

WMO heitir áframhaldandi stuðningi við uppbyggingu sjálfbærra samfélaga sem glíma loftslagsbreytingar með því að leggja til bestu fáanlegu vísindaniðurstöður og sinna skilvirkri þjónustu er varðar veður, loftslag, höfin og umhverfið.

Veðurstofur þjóðríkjanna, ásamt þeim stofnunum er sinna vatnafari, eru sagðar skipta höfuðmáli; en hvorttveggja fellur undir viðfangsefni og ábyrgð Veðurstofu Íslands.

Eldra efni

Eldra efni á vef Veðurstofunnar um alþjóðlega veðurdaginn:

2015, 2014, 2013, 2012, 2011, 2010, 2009, 2008.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica