Greinar
vindskafin ský
Vindskafin ský á Snæfellsnesi 14. ágúst 1998, líklega vestan við Snæfellsjökul og er þá Miðfell til vinstri en Svörtutindar til hægri.
1 2
fyrri

Vindskafin ský 2

Guðrún Nína Petersen 11.1.2010

Vindskafin ský eru kyrrstæð linsulöguð ský sem myndast yfir fjöllum og stundum hlémegin. Það má segja að þau liggi samhliða vindáttinni, þ.e. vindurinn blæs í gegnum skýin. Líkt og öðrum skýjum má skipta vindsköfnum skýjum í gerðir eftir því í hvaða hæð þau myndast: vindskafin flákaský (stratocumulus lenticularis) eru í 0-2 km hæð, vindskafin netjuský (altocumulus lenticularis) eru í 2-6 km hæð og vindskafin maríutása (cirrocumulus lenticularis) er í 6-12 km hæð. Algengust eru þó vindskafin netjuský.

Þegar stöðugt loft streymir yfir fjöll eða fjallgarða myndast kyrrstæðar bylgjur yfir og stundum hlémegin við fjöllin. Ef hiti efst í bylgjunni er líkur eða lægri en daggarmark loftsins sem streymir að þá þéttist rakinn og myndar linsulöguð ský. Þegar rakt loftið streymir svo niður í bylgjunni þá hlýnar það aftur og skýið getur gufað upp. Það má því segja að skýið endurnýi sig stöðugt, þar sem loftið sem í sífellu streymir upp bylgjuna kólnar og vatnsgufa þéttist en á leið niður bylgjuna hlýnar loftið aftur og vatnsdropar gufa upp.

Þegar sagt er að skýin séu kyrrstæð er átt við að þau flytjast ekki með vindinum. Þau þurfa þó ekki að vera langlíf og oft má sjá talsverðar breytingar á þeim á stuttum tíma. Myndirnar tvær hér fyrir ofan eru til dæmis teknar með um 20 mínútna millibili og ljóst er að skýið tekur nokkrum stakkaskiptum á því tímabili. Á fyrri myndinni er í toppnum netjuský sem bylgjan er að byrja að móta. Á seinni myndinni má sjá sama netjuskýið vindskafið en með nokkuð trosnaðri útlínum en neðri skýjalögin.


Vindskafið ský yfir Hvannadalshnjúk
Vindskafið ský yfir Hvannadalshnjúk
Vindskafið ský yfir Hvannadalshnjúk, líklega í ágúst á árabilinu 2002-2005. Ljósmynd: Pálmi Bjarnason.

Í sumum tilvikum má sjá röð vindskafinna skýja hlémegin fjalla. Þetta gefur til kynna fjallabylgjur og er ský í bylgjutoppunum. Flugmenn varast að fljúga nálægt vindsköfnum skýjum þar sem oft er mikil lóðrétt hreyfing í fjallabylgjunum og kvika (sjá ókyrrð í háloftum) og jafnvel göndull (á ensku rotor) samfara bylgjunni. Í fjallabylgjum skiptist á uppstreymi og niðurstreymi og flughraði verður mjög breytilegur sem getur gefið skekkjur í leiðarreikningi. Einnig getur bylgjuppstreymi borið rakt loft upp í mikla hæð. Loftið kólnar á leiðinni og rakinn þéttist. Í uppstreyminu geta því verið svífandi stórir, frostkaldir dropar sem skapar ísingarhættu.


Vindskafið ský í Suðursveit
Vindskafið ský í Suðursveit Vindskafið ský í Suðursveit. Ljósmynd: Vilhjálmur H. Gíslason á Reynivöllum. Ekki er vitað hvaða ár myndin er tekin.

Svifflugmenn eru aftur á móti hrifnir af vindsköfnum skýjum. Út frá legu skýsins er nefninlega auðvelt að reikna út hvar uppstreymi er. Bylgjuuppstreymi er nokkuð jafnt, þar sem loftið er stöðugt, og svifflugan getur liðið í gegnum loftstrauminn án þess að haggast. Þetta gerir svifflugmönnum kleift að svífa upp í miklar hæðir og fara langar vegalengdir. Núverandi heimsmet í fjarlægðarflugi, 2.463,7 km, var sett af Klaus Ohlman í bylgjuflugi yfir Andesfjöllunum. Núverandi Íslandsmet í hæðarflugi var einnig bylgjuflug, Sigmundur M. Andrésson náði rúmlega 8.000 m hæð í fjallabylgju yfir Esjunni, og einnig heimsmetið í hæðarflugi, þar sem Robert R. Harris flaug í bylgju upp í 14.938 m. Svifflugmenn jafnt og aðrir flugmenn varast þó alltaf göndla og mikla kviku og eru á varðbergi vegna ísingarhættu.

Í sumum tilvikum valda fjallabylgjurnar svo mikilli lóðréttri hreyfingu lofts að nógu mikið af vatnsgufu þéttist til að valda úrkomu.

Í gegnum tíðina hefur oft verið ruglast á vindsköfnum skýjum og fljúgandi furðuhlutum (UFO) vegna þess hve hve skarpar útlínurnar geta verið og yfirborðið slétt.


Vindskafið ský við Eyjafjallajökul
Vindskafið ský við Eyjafjallajökul
Horft er frá Fljótsdal, innsta bæ í Fljótshlíð, þar sem ekið er inn á Syðra-Fjallbak um Fljótshlíð. Horft er til austurs í átt að Þórsmörk. Yfir gnæfir Eyjafjallajökull með Gígjökul í forgrunni en í fjarska sést í Mýrdalsjökul. Ljósmynd: Hálfdán Ágústsson.


Fleiri skemmtilegar myndir af vindsköfnum skýjum má finna í fróðleikspistlinum Vindskafin ský.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica