Vindskafin ský
Stundum gefur að líta á himninum ský sem líkjast fljúgandi diskum, eins og sjá má meðal annars á mynd 1. Þetta eru svokölluð vindskafin netjuský, eða altocumulus lenticularis, eins og þau heita á latínu.
Vindskafin ský eru tilkomin vegna bylgjumyndunar loftsins á leið sinni yfir fjöll. Samfara því trosnar samfelld skýjabreiða yfirleitt upp á leið sinni yfir fjalllendi. Þessir vindskafningar eru ekki sérlega hátt á lofti og því áberandi á himninum.
Á mynd 3 líkjast skýin helst risafæti sem ætlar að fara að traðka á okkur, eins og ljósmyndarinn, Halldóra Ólafsdóttir, Bólstað í Austur-Landeyjum, skrifaði, en hún sendi Veðurstofu Íslands myndina.
