Greinar
skip við bryggju, fólk á hafnarbakka sem er þakinn snjó
Frá Reykjavíkurhöfn 1918.

Lágmarkshiti í Reykjavík

Íslensk veðurmet 7

Trausti Jónsson 16.1.2008

Þann 21. janúar 1918 mældist 24,5 stiga frost í Reykjavík. Þetta er mesta frost sem þar hefur mælst og talsvert meira en það mesta síðan. Frost hefur sjaldan náð 20 stigum í Reykjavík og aldrei eftir 1918. Í janúar 1971 munaði þó litlu því þá mældist hiti -19,6°C að morgni þess 30. Þá mældust -25,7° á veðurstöðinni Hólmi skammt fyrir utan bæinn.

Næst mesta frost sem vitað er um í Reykjavík mældist 22. mars 1881, -22,1°. Talan á mælinum var -23°, en töflur dönsku veðurstofunnar segja mælinn hafa verið 0,9° of lágan. Dagana á undan hafði frostið einnig farið í 20°, -21.1° þann 20. og -21,7° þann 21. Þann 19. var frostið 19,7°. Í janúar þetta sama ár komu líka fádæma kaldir dagar: Að morgni 28. var lágmarkshiti -20,1°, þann 27. -19,6° og -20,0 þann 26. Mikið fárviðri gekk yfir landið í kjölfar janúarfrostsins og byrjaði það þann 28. Um kvöldið var frostið í Reykjavík 17 stig og norðan stormur. Nóttina eftir var fárviðri, að sögn athugunarmanns, og frostið um 15 stig. Mesta frost í febrúar þennan harða vetur var 17 stig. Í mars 1892 fór hiti niður í -19,6°C.

Fyrir 1870 eða svo voru hitamælingar í Reykjavík ekki samfelldar. Jón Þorteinsson mældi þrisvar sinnum 20 stiga frost, en hann gerði veðurathuganir á árunum 1820 til 1854. Veturinn 1835 var mjög harður og fór frost í Reykjavík tvisvar í 20 stig. Það var 18. janúar og síðan 6. og 7. mars. Tuttugu stiga frost mældist einnig 18. febrúar 1839.

Rasmus Lievog á Bessastöðum var ekki með lágmarksmæli en á venjulegan hitamæli las hann þrisvar 20 stiga frost: þann 29. janúar 1782, en þá var frostið 20,3 stig, þann 18.01.1784 og 29.01.1785 var einnig 20 stiga frost. Grunur leikur á að mælirinn, sem Lievog notaði, 1782 hafi sýnt of mikið frost en hið gagnstæða hafi átt við mælinn sem var í notkun síðari árin.

Á árunum frá 1906 (þegar ritsíminn kom til landsins) til 1920 voru reknar hérlendis veðurskeytastöðvar sem að sumu leyti voru frumstæðari en hefðbundnar stöðvar dönsku veðurstofunnar. Frá og með janúar 1907 var veðurstöðin í Reykjavík þessarar gerðar, en hefðbundnar athuganir lögðust tímabundið af. Stöðin var við Bergstaðastræti árið 1909, en hversu lengi hún var þar er ekki vitað, en líklegt er að hún hafi verið komin að símstöðinni 1918.

Í stað gömlu Reykjavíkurstöðvarinnar var sett upp stöð á Vífilsstöðum 1910. Þar var mæliskýli með gamla laginu. Þrátt fyrir fremur frumstæðan búnað á Bergstaðastrætinu voru athuganir gerðar nokkuð samviskusamlega og eru þær ekki ótrúverðar. Þó eru líkur á að hiti yfir miðjan daginn kunni að hafa verið heldur hærri en verið hefði í hefðbundnu veggskýli. En það kemur lágmarksmetum ekki við. Ekkert bendir til þess að hitamælirinn hafi sýnt of lágar tölur. Lágmarksmælir var hins vegar enginn. Það kemur þó ekki svo mjög að sök því algengast er að lágmarkshiti sólarhringsins sé um það leyti sem morgunathugun var gerð, á sumrin að vísu nokkru áður.

Aftur upp
Hiti í janúar 1918
janúar 1918 hitarit
Mynd 2. Hitafar í janúar 1918 á þremur veðurstöðvum. Veturinn 1917 til 1918 gengur undir nafninu „frostaveturinn mikli“. Um landið sunnanvert stóð meginfrostakaflinn þó aðeins í rúman hálfan mánuð en var lengri á Norðurlandi. Þetta er kaldasti janúar sem vitað er um frá upphafi samfelldra veðurmælinga á Íslandi. Þessar þrjár stöðvar auk Ísafjarðar voru þær einu á landinu sem sendu regluleg veðurskeyti í þessum mánuði. Athugað var þrisvar á dag, kl. 6, kl. 13 og kl. 16. Víðast hvar var frostið mest þann 21., en í Vestmannaeyjum þann 13.

Gísli J. Ólafsson var aðalathugunarmaður á þessum árum (1913-1919) og sennilega var það hann sem fékk þann heiður að lesa kuldametið af mælinum. Austan strekkingur og dálítil snjókoma var að morgni 19. janúar og frostið 7,8 stig. Vindur gekk síðan til norðurs af svipuðum styrk. Síðdegis kl. 16 voru norðan 7 vindstig, hálfskýjað og frostið 10,8 stig. Kl. 6 þann 20. var hitinn -20,4° , kl. 13 -21,5° og -22,5 kl. 16. Að morgni 21. kom metið kl. 6 í logni og heiðskíru veðri, -24,5°C. Kl. 13 var frostið 22,1 stig og 22,3 stig kl. 16. Morguninn eftir (22.) var austan andvari, hálfskýjað og 11,2 stiga frost og kl. 13 var frostið komið niður í 5,5 stig.

Einnig varð mjög kalt í Reykjavík 6. og 7. janúar og að morgni þess 6. var frostið 16,7 stig. Á Vífilsstöðum var mjög kalt. Þann 21. fór frostið þar í 28,0 stig og er það trúverðugt. Þann 6. er talan -29,0°C færð á athugunarblað en hún er ótrúverðug því hún er 9 stigum neðar en morgunhitinn (-19,5°). Kl. 21 að kvöldi 20. (daginn fyrir lágmarksmetið) var frostið á Vífilsstöðum hins vegar 26 stig. Athuganirnar á Vífilsstöðum voru á þessum árum dálítið skellóttar og greinilegt að athugunarmaður hafði ekki fengið mikla tilsögn.

Sjá einnig grein um lægsta hita á Íslandi og Hugleiðingar um bakgrunn kuldanna 1918.

Aftur upp


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica