Greinar
gömul bæjarhús til hægri, nýtt hús framundan
Frá Möðrudal á Fjöllum.

Lægsti hiti á Íslandi - Grímsstaðir og Möðrudalur 21. janúar 1918

Íslensk veðurmet 2

Trausti Jónsson 25.9.2007

Janúar 1918 er kaldasti mánuður á Íslandi á 20. öld og ekki hefur enn orðið jafnkalt það sem af er þeirri 21. Vitað er um fáeina ámóta eða kaldari mánuði á 19. öld. Mikill hafís var í þessum mánuði fyrir Norðurlandi, en hann entist ekki lengi því febrúarvindar reyndust honum erfiðir. Mikil hæð var við landið í upphafi mánaðarins og var hún að mjaka sér í áföngum frá því að hafa verið fyrir sunnan land í lok desember og til Grænlands.

Aðalkuldakastið hófst um þrettándann og stóð í innan við þrjár vikur á Suðurlandi, en út mánuðinn fyrir norðan. Framan af var heldur hvassviðrasamt, en um 20. var vindur orðinn hægur og þá urðu mestu kuldarnir á flestum stöðvum. Lágmarksmælar sömu gerðar og enn eru notaðir voru á allmörgum stöðvum á þessum árum og m.a. á Grímsstöðum. Þessir mælar innihalda vínanda en hann þolir frost betur en kvikasilfursmælar því kvikasilfur frýs við 39 stiga frost. Þó lesa megi með allmikilli nákvæmni af mælunum var algengast að lágmarkið væri lesið í heilum og stundum hálfum gráðum.

Ekki er vitað betur en að meginmælar (þurrir mælar) á bæði Grímsstöðum og í Möðrudal hafi verið kvikasilfursmælar. Þeir voru því nærri frostmarki kvikasilfurs þegar kaldast var. Í lágmarks-mælum er spritt (vínandi) og því er ekki hætta á að þeir frjósi. Hægt er samtímis að lesa hita og lágmarkshita af lágmarksmælum. Svo er fyrir mælt að það skuli gert þegar lágmarkið er lesið. Hiti á lágmarksmælinum á athugunartíma er kallaður 'sprittstaða' mælisins. Sprittmælar eru að jafnaði taldir ónákvæmari en kvikasilfursmælar og því er mismunur á mælunum (nær) ætíð túlkaður sem skekkja á lágmarksmælinum. Ekki er víst að þessi regla eigi við þegar komið er niður undir frostmark kvikasilfurs.

21. janúar 1918 á Grímsstöðum

Sigurður Kristjánsson á Grímsstöðum var samviskusamur athugunarmaður, þótt hann læsi oftast af mælunum með aðeins einnar gráðu nákvæmni. Nafni hans Haraldsson í Möðrudal rækti einnig starf sitt af kostgæfni, en hafði ekki lágmarksmæli. Hann las líka undantekningalítið af með aðeins einnar gráðu nákvæmni. Reglulegur samanburður mælanna á Grímsstöðum gefur til kynna að lágmarksmælirinn hafi að jafnaði sýnt 1,0 gráðu of lágan hita. Töflur dönsku veðurstofunnar sýna að þurri mælirinn hafi verið 0,1 stigi of lágur.

Klukkan 8 að morgni þess 21. gerði Sigurður á Grímsstöðum eftirfarandi mælingu: Þurri mælirinn sýndi 36,0 stiga frost, sprittstaða lágmarksmælisins var 38 stiga frost og lágmarkið 38 stig. Í árbók dönsku veðurstofunnar, Meteorologisk Aarbog 1918, eru þessar mælingar birtar leiðréttar: Þurr hitamælir: -35,9°C, lágmark: -37,0°C. Mismunur á sprittstöðu lágmarksmælis og þurrum hita var 2,0 stig þennan morgun eins og sjá má. Rými er fyrir leiðréttingu allt að tveimur stigum.

Grímsstaðir á Fjöllum
svarthvít mynd, gamalt steinhús á heiði
Mynd 2. Grímsstaðir á Fjöllum 28. júní 1959. Ljósmynd: Þórir Sigurðsson.
Aftur upp

Klukkan 14 var hitinn kominn niður í -36,5° (prentað sem -36,4° í árbókinni) og kl. 21 var hitinn aftur -36,0. Morguninn eftir (þann 22.) var hitinn kominn upp í -22,0°, en sprittstaða lágmarksmælis var -23,5°. Mismunurinn er 1,5°. Sigurður skynjaði mikilvægi augnabliksins og las hann því lágmarkið með óvenju mikilli nákvæmni sem -38,9°C. Danska veðurstofan bætir síðan hinni venjulegu 1 gráðu við og fær út -37,9°C og það hefur lengst af staðið sem íslenskt lágmarksmet. Vel má vera að það sé nákvæmlega rétt.

Dálítið erfitt er að segja hvað klukkan hefur verið þegar metið var sett en af athugunartímunum var hitinn lægstur klukkan 14. Þar sem aflestur á lágmarksmælinn á Grímsstöðum fór fram þann 22. er metið stundum talið vera frá þeim degi.

21. janúar 1918 í Möðrudal

Víkur nú sögu að Sigurði í Möðrudal. Hann hafði ekki lágmarksmæli og las oftast með einnar gráðu nákvæmni af sínum mæli sem sýndi 38 stiga frost kl. 8 að morgni þann 21. þegar hitinn á Grímsstöðum var -36 stig. Hitinn kl. 14 var einnig -38 stig og -37,5° (takið eftir nákvæmninni) kl. 21.

Danska veðurstofan birti aldrei lægsta hita á stöðvum þar sem ekki voru lágmarksmælar og Möðrudalsathugunina er því ekki að finna í árbókunum. Hún duldist því mönnum þar til danska veðurstofan af rausn gaf Veðurstofu Íslands frumritin. Í þeim má sjá að hitamælirinn í Möðrudal var talinn réttur.

Það er dálítið klaufalegt að telja Íslandsmet -37,9° þegar mæling upp á -38,0° er til (og það á tveimur athugunartímum). Þykir því rétt að telja metið frá báðum stöðvum sem -38,0° (kannski ætti að sleppa kommunni). Því er hins vegar ekki að neita að það er auðvitað hugsanlegt að lágmark í Möðrudal hafi verið lítillega lægra, en jafnlíklegt er að þessi 38 stig hafi kannski í raun verið t.d. 37,8 eða 38,2 (rúnnuð af í 38)? Er hægt að treysta samanburði á sprittstöðu og kvikasilfuraflestri niðri undir frostmarki kvikasilfurs?

Lágmarkshiti á öðrum stöðvum 1918

Mjög lágur hiti mældist um land allt 1918. Þegar rýnt er í frumheimildir kemur hins vegar á óvart að lágmarksmælar sumra stöðva gátu ekki mælt neðar en -27 til -30°C. Svo var t.d. á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem lágmarksmælingu vantar, bæði 21. og 22. janúar. Athugunarmaður skrifar að nálin í mælinum fari ekki niður fyrir lykiltölu 72,2 sem samsvarar -27,8°C (100-72,2). Lægsti aflestur á hefðbundinn mæli var kl. 23:30 að kvöldi 21. (um það bil 00:30 hinn 22. að núverandi klukkuhætti) var hins vegar 66,6 (= -33,4°C).

Á Þórshöfn á Langanesi skrifar Vigfús Kristjánsson veðurathugunarmaður eftirfarandi athugasemd við 21. og 22.: „Disse dage kunde Minimums Th. ikke maale kulden“. Lægsti aflestur var -32,0°C bæði kl. 14 og 22 (ÍMT). Hjá Guðmundi G. Bárðarsyni í Bæ í Hrútafirði var engin lágmarksmæling 21. til 25. janúar, en lægst var lesið af mæli -31,9°C kl. 15 þann 21. Lágmarksmælir var ekki hjá Valdimar Briem á Stóranúpi en hann las lægst -27,5°C kl. 22 þann 20. Á Teigarhorni mældist lágmarkið lægst -25,5°C að morgni 22. en hiti hefur í raun orðið lægstur 21.

Úr Grímsey
svarthvít mynd, nokkur hús á hól
Mynd 3. Í Grímsey 5. júlí 1960. Ljósmynd: Þórir Sigurðsson. (Myndin er samsett.)
Aftur upp

Þann 21. fór frostið í -30,8°C á lágmarksmæli í Grímsey. Á athugunartíma var frostið mest -29,5°C að morgni sama dags. Sama dag var einnig bæði lægsti hiti á athugunartíma, -29,1°C (kl. 9), og á lágmarksmæli (-29,7°C) í Stykkishólmi. Lágmarkið í Vestmannaeyjum var þennan dag -17,4°C. Þar hafði lágmarkið farið neðar fyrr í mánuðinum því -20,6°C mældust þann 14. (en hiti var lægstur snemma dags daginn áður, fór í -19,6°C kl. 15 þann 13.) og á skeytastöðinni fór hiti niður í -21,0°C, bæði kl. 7 og kl. 17 þann 13.

Á Nefbjarnarstöðum austur á Héraði varð lágmarkshitinn lægstur þann 19., -25,1°C, en -26°C voru á venjulegan mæli á Seyðisfirði þann 21. kl 7. Ekki var lágmarksmælir á Akureyrarstöðinni, lægsta mæling á athugunartíma þar var -32,5°C kl. 21. þann 21., en athugunarmaður skrifar: „Blev i Nattens Löb 33 gr. paa mit Minimums Thermometer“. Á Ísafirði var ekki lágmarksmælir en hiti fór niður í -28,9°C kl. 16 (17 ÍMT) síðdegis þann 21. Þann 21. janúar 1918 mældist 24,5°C frost í Reykjavík. Þetta er mesta frost sem þar hefur mælst og talsvert meira en það mesta síðar.

Lægsti hiti eftir 1918

Eftir 1918 hefur hiti á veðurstöð aldrei farið niður fyrir -35°C. Á sjálfvirku stöðvunum hjó þó nærri á Neslandatanga við Mývatn er hiti þar fór niður í -34,7°C rétt eftir miðnætti 7. mars 1998. Lægsti hiti 21. aldarinnar til þessa er -30,7°C sem mældust við Setur sunnan Hofsjökuls 23. desember 2004. Lægsti hiti aldarinnar nýju á mannaðri stöð, -30,5°C, mældist í Möðrudal 25. janúar 2002. Ekki er marktækur munur á tölunum tveimur.

Aftur upp

Fleiri aftakalágmörk á 19.öld?

Lítið er til af mælingum úr inn- og uppsveitum landsins frá 19. öld og þess því síður að vænta að met finnist. Á Siglufirði fór hiti þó niður í -36,2°C kl. 9 og 22 þann 21. mars 1881 (-36,0°C lesnar, -0,2°C leiðrétting). Lágmark var ekki mælt á Siglufirði. Tveimur dögum áður hafði verið skipt um hitamæli. Eldri mælir var kvarðaður eftir Réaumur-stiga og í athugasemd sem fylgir 26. og 27. janúar sama ár kemur fram að hann nái ekki neðar en -27°R (-33,8°C) sem mældust á báðum athugunartímum báða þessa daga. Er sú tala tilfærð í lista þó að athugunarmaður telji að frostið hafi verið 2°R meira eða -36,2°C ('26. og 27. var Frost vistnok 2° mere end anfört, en Thermom. maaler ikke mere end 27°R').

Tvær gráður eru auðvitað ágiskun, en föst leiðrétting °R-mælisins var -0,4°R og telst frostið því að minnsta kosti -34,3°C. Athugunarmaður lætur þess og getið þessa daga að frost hafi verið 32°R til 25°R inn til landsins („Samtidigt skal Frost have været lengere inde i Landet 32 á 35°R“), -32°R jafngilda -40°C og -35°R eru -43,8°C. Mælingar á Siglufirði stóðu aðeins skamma hríð í þetta sinn, eða frá ágúst 1880 til desember 1881, og er ekki alveg víst að skýli hafi verið notað þannig að tölurnar gætu verið heldur lágar af þeim sökum.

Frá Akureyri
svarthvít mynd úr kaupstaðnum, nokkur steinhús
Mynd 4. Frá Akureyri 13. apríl 1957. Úrkomumælir og mælaskýli framan við húsin. Ljósmynd: Jón Benediktsson.
Aftur upp



Í mars 1810 (22. og 23.) mældist frost á Akureyri -35,7°C sem er mesta frost sem frést hefur af á þeim bæ. Mælingar vonScheel landmælingamanns og félaga á Akureyri 1807 til 1814 eru almennt trúverðugar þó hafa verði í huga að mælarnir voru óvarðir (ekki í skýli) og útgeislunaráhrif því hugsanlega nokkur. Líklegt er að hefði mælirinn verið í skýli hefði hitinn ekki orðið alveg svona lágur og kuldinn því sambærilegur við Akureyrarlágmörkin 1918 og 1881.

Túlka má heimildir þannig að frost hafi síðustu 200 árin sennilega ekki orðið öllu meira hérlendis en varð í kastinu 1918. Hiti er þekktur einhvers staðar á landinu mestallt þetta tímabil og þótt 19. aldar stöðvarnar geti ekki talist metavænar gefa þær þó til kynna að á þeim hafi frost ekki orðið meira en 1918 og 1881. Það er helst Akureyrartalan frá 1810 sem gæfi von um meira frost, en aftur skal tekið fram að mælirinn var ekki í skýli og því óvisst að frostið hafi í þessu tilviki verið meira en þau -32,5°C sem mældust í skýli á Akureyri 1918. Þær -33°C sem athugunarmaður tilfærir eru af lágmarksmæli hans sjálfs, sem trúlega hefur ekki verið í skýlinu.

Mælingabrot frá 18. öld

Enn færri mælingar eru til frá 18. öld. Rasmus Lievog mældi lægst -20,9°C í Lambhúsum við Bessastaði á móðuharðindavetrinum miðjum, 18. janúar 1784 kl. 14 (trúlega sólartími). Mælar hans voru óvarðir.

Sjá einnig grein um lágmarkshita í Reykjavík og Hugleiðingar um bakgrunn kuldanna 1918.

Aftur upp


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica