Greinar
Brim á Djúpalónssandi
Brim á Djúpalónssandi.

Raki innandyra

Raki í lofthjúpnum X

Trausti Jónsson 7.6.2007

Rakastig er mælikvarði á hversu greiðlega vatn gufar upp, en segir ekkert um rakainnihald loftsins nema að upplýsingar um hitann fylgi. Vatnsgufa innandyra getur verið komin að utan, en aðeins að hluta til.

Þegar við öndum að okkur lofti hitnar það í lungunum og rakastig þess fellur niður fyrir 100%. Vatn í lungum gufar því upp, berst út í loftið umhverfis og bætist þar við þann raka sem var fyrir. Þvottar, eldamennska og vökvun blóma bætir einnig raka í inniloft.

En allar þessar rakaviðbætur eru í stórum dráttum líkar frá degi til dags en raki sem kominn er að utan getur verið mjög breytilegur. Gott samband er því venjulega á milli úti- og inniraka, þannig að innirakinn er lægstur þegar útiraki er lítill. Hér á landi er rakastig utandyra oftast fremur hátt (yfir 75%), en hins vegar er svo kalt að rakamagnið er að jafnaði lítið, en innihiti er fremur hár, oft 21°C til 24°C.

Mettunarrakaþrýstingur (es) við 21°C er um 25 hPa, um 14 hPa við 12°C, en aðeins 4 hPa við -5°C. Sé mettað 12°C heitt útiloft tekið óblandað inn í hús og hitað þar í 21°C verður rakastig þess (14*100/25 =) 56%, en mettaða -5°C loftið hefur þá rakastigið (4*100/25 =) 16% þegar það er komið inn og hefur verið hitað upp.

Sé útihiti hærri en 15°C hér á landi er mjög ólíklegt að loft utandyra sé rakamettað (ber þó við). Lækkun innihita hefur talsverð áhrif á rakastig, í frostdæminu færi rakastigið inni upp undir 20% ef innihitinn er lækkaður niður í 18°C.

Menn greinir á um hvert sé hið æskilega rakastig innandyra, en e.t.v. mætti nefna bilið 30 til 55% í því sambandi. Heilbrigt fólk þolir að sjálfsögðu bæði þurrara og rakara loft, en almennt má þó segja að skárra sé að loftið sé of þurrt en of rakt og gott að muna að bakteríum og myglu líður enn verr en okkur mannfólkinu í miklum þurrki. Plöntur jafna rakastig betur en suðandi rakatæki.

Úr Veðurbók Trausta Jónssonar

Skylt efni er að finna í fyrstu fróðleiksgrein um raka í lofthjúpnum (eða fyrri grein).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica