Greinar

Leiðbeiningar með veðursjá (radar)

Halldór Björnsson 18.5.2007

  • Veðurstofa Íslands á eina veðursjá sem er staðsett á Miðnesheiði skammt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og aðra á Teigsbjargi á Fljótsdalsheiði. Þær eru notaðar til að fylgjast með úrkomu í rauntíma.

  • Veðursjáin á Miðnesheiði skimar 240 km geisla, sem sýndur er með upplýstu skífunni á myndinni. Ratsjárgeislinn endurvarpar merkjum frá úrkomu en einnig frá öðrum hlutum sem verða á vegi hans, t.d. fjöllum.

  • Þetta verður að hafa í huga þegar Snæfellsnes og fjallgarðurinn í kringum höfuðborgarsvæðið er annars vegar því þar rekst geislinn á fjöllin og endurvarpið verður mjög sterkt þrátt fyrir að úrkoman sé engin.

  • Litakvarðinn neðst til hægri á myndinni sýnir styrk endurvarpsins. Því hærri sem talan er því meiri er úrkoman.

  • Ef liturinn á kortinu er blár bendir það til þess að úrkoman sé lítil, en ef liturinn er rauður er mikil úrkoma.

  • Þrátt fyrir að endurvarpið sé sterkt getur komið fyrir að engin úrkoma falli til jarðar, en þá gufa vatnsdroparnir upp á leið sinni niður.

  • Veðursjáin sendir út keilulaga geisla og nemur geislinn því ekki merki nálægt yfirborði jarðar eftir því sem fjær dregur frá ratsjánni.

  • Í 100 km fjarlægð frá veðursjánni nemur geislinn ekki merki sem eru undir 1000 m frá yfirborði sjávar

  • Í 200 km fjarlægð frá veðursjánni nemur geislinn ekki merki sem eru undir 4000 m frá yfirborði sjávar. Þetta skýrir af hverju lág ský, til dæmis þokuský, í námunda við veðursjána koma ekki fram á myndinni; þau liggja það nærri jörðu að geislinn nemur ekki merkin frá þeim.

  • Notagildi þessara mynda er mest þegar fylgst er með úrkomu sem kemur úr suðri og suðvestri.

  • Sambærilegt gildir fyrir veðursjána á Austurlandi, m.t.t. landslags.
  • Á Veðurstofu Íslands er unnið að því að þróa aðferðir til að bæta upplýsingarnar sem berast frá veðursjánum. Markmiðið er að leiðrétta þau tilvik þar sem endurvarpið gefur rangar eða villandi upplýsingar um úrkomumagn.

Framsetning veðursjármynda

  • Mögulegt er að skipta um gildistíma á marga vegu:

  • Hægt er að styðja hvar sem er á sleðann.

  • Hægt er að styðja á dagana fyrir ofan sleðann til að skoða hádegisspá fyrir viðkomandi dag.

  • Hægt er að styðja á tímann fyrir neðan sleðann.

  • Hægt er að styðja á pílurnar báðum megin við sleðann til að skoða fyrri eða næsta gildistíma.

  • Hægt er nota vinstri og hægri örvahnappana á lyklaborðinu til að skoða fyrri eða næsta gildistíma.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica