Greinar

Sólskinsmælingar

Trausti Jónsson 7.12.2006

Sólskinsmælar

Sólskinsmælingar hófust hér á landi síðustu dagana í janúar 1911 þegar mælir var settur upp á Vífilsstöðum, skammt fyrir utan Reykjavík.

Mælingarnar hafa alla tíð verið gerðar á sama hátt; þegar sólin skín brennir hún rönd í pappír sem komið er fyrir aftan við kúlulaga linsu (brennigler). Skipt er um blað einu sinni á sólarhring og lengd randarinnar á blaðinu mæld.

Þótt mælingin sé einföld getur ýmislegt truflað hana og ruglað. Fyrst er að telja að hér sem og við aðrar mælingar skiptir samviskusemi athugunarmanns miklu máli. Ef ekki er skipt um blað þannig að fleiri en einn dagur lenda á sama blaði er oft erfitt að aðgreina sólskinsstundir hvers dags um sig.

Athugunarmaður verður einnig að sjá til þess að kúlan sé hrein þannig að hún hleypi sólargeislunum í gegn. Mælirinn má heldur ekki skekkjast. Að þessum vandamálum tengdum athugunarmanninum slepptum eru fleiri vandamál.

Hér á landi er aðeins notuð ein kúla á hverjum stað. Þetta veldur því að þegar sólargangur er mjög langur er hætt við að mælirinn skyggi á sjálfan sig þegar sólargangur er lengstur og fyrstu sólargeislar morgunsins og síðustu geislar kvöldsins mælist ekki.

Pappírinn, sem notaður hefur verið, hefur, því miður, verið misdökkur og efnið í honum misjafnt í þessi rúmu 80 ár sem mælingarnar hafa staðið. Þetta veldur því að hann brennist misvel og viðbúið að einhverju muni á tímabilum af þeim sökum.

Einnig er hægt að lesa misjafnlega af blöðunum, en tilraunir sem gerðar hafa verið á Veðurstofunni benda til þess að sá munur sé óverulegur þegar tekið er saman sólskin heils mánaðar. Allt þetta verður að hafa í huga þegar horft er á niðurstöður mælinga.

Aftur upp

Sólskin í Reykjavík og á Akureyri

En lítum nú á tvær myndir: Sú fyrri sýnir sólskinsstundir hvers árs í Reykjavík (Vífilsstöðum til 1923) frá 1911 til 2006 og á Akureyri frá og með 1928. Fyrir 1923 vantar nokkra mánuði í Reykjavík. Nokkuð áberandi er hversu lítið sólskin var árið 1924.línurit

Einkum eru það sólarleysisárin 1912 til 1914 sem draga meðaltal þessara fyrstu 13 ára niður. Ekki er ósennilegt að mælingarnar sýni of fáar sólskinsstundir, t.d. hafi kúlan ekki verið þrifin nógu vel meðan mælt var á Vífilsstöðum.

Annað mál er að sumurin 1913 og 1914 voru alveg sérstaklega hrakleg suðvestanlands. Og sumarið 1912 var líka á sinn hátt óvenjulegt. Snemma í júní það ár varð mesta eða næstmesta eldgos 20. aldar. Það var í Novarupta við Katmai-fjall í Alaska og er talið að um 30 rúmkílómetrar af ösku og flikrubergi hafi komið þar upp. Vel má vera að þetta hafi dregið það mikið úr sólgeislun hérlendis að mælirinn hafi síður brennt blaðið, jafnvel þótt sólskin hafi verið. En þetta eru nú vangaveltur.

Nokkra vetrarmánuði vantar í mælingarnar 1913 og þess vegna telst það ár ekki metár, jafnvel þó fullvíst megi telja (eins og reiknað er á myndinni) að það ár hafi sólskinsstundirnar í raun og veru verið fæstar.

Aftur upp

Veðurlag á Suðvesturlandi og á Norðurlandi

Síðari sérlega hrakleg ár voru 1983 og 1984, en þau sumur rigndi nánast látlaust á Suðvesturlandi. Áberandi er hversu sólríkt var kringum 1930 (þó ekki það ár), sömuleiðis var nokkuð sólríkt um og upp úr 1960 og síðan aftur hin síðustu ár.

Á Akureyri hófust sólskinsmælingar árið 1925, en voru nokkuð stopular fyrstu fjögur árin eða svo. Mælingarnar byrjuðu á sólríkum árum og síðan var sérlega sólríkt á Akureyri á 8. áratugnum. Sólarsumurin urðu þá sex í röð og árin 1975 og 1976 mega teljast sérstök.

Vestlægar áttir voru algengar á 8. áratugnum og rigningar viðloðandi á Suðvesturlandi. Það eru þessi ár sem sitja mjög í minni fólks um hin góðu norðlensku sumur, sem eðlilegt er, en eins og sjá má á myndinni eru þessi ár fremur afbrigðileg sé litið á tímabilið í heild. Mjög sólríkt var á Akureyri árið 2000, en annars hafa hin síðari ár flest verið heldur daufleg.

Sólskinsstundir í Reykjavík og á Akureyri
punktarit
Sólskinsstundir í Reykjavík (láréttur ás) og á Akureyri (lóðréttur ás) 1927 til 2006

 

Í fljótu bragði mætti ætla að öfugt samband sé á milli sólskinsstundafjölda á Akureyri og í Reykjavík. Svo er þó ekki, því sambandið er ekkert. Til eru sumur sem voru sólarlítil á báðum stöðum og einnig öfugt, að sólskin ríkti bæði norðanlands og sunnan.

Þetta sést vel á myndinni. Neðst (í grænum rétthyrningi merktum A) má sjá mestu rigningasumrin nyrðra: 1934, 1979, 1950, 1954 og 1943. Lengst til vinstri (í grænum rétthyrningi merktum R) eru frægustu rigningasumur á Suðurlandi: 1983, 1955, 1947, 1984, 1969 og 1959.

Svo eru sumur sem voru góð á báðum stöðum: 1939, 1971 og 1957. Mjög sólríkt var einnig syðra 1928, 1929,1931, 1952 og svo bæði 2004 og 2005. Sólríkasta sumar á Akureyri var 2000 og 1976 skammt undan.

Úr Veðurbók Trausta Jónssonar





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica