Greinar
sólarupprás, girðingarstaura ber við glóandi himin
Sólarupprás á Hveravöllum um miðjan apríl árið 1991.

Sumardagurinn fyrsti 1949 - 2015

Trausti Jónsson 8.11.2006

Tímasetning sumardagsins fyrsta

Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25. Á þessum tíma er hlýnun á vori komin vel í gang, meðalhiti 25. apríl er 0,3 stigum hærri en 19. apríl.

Dagurinn er hluti af misseristalinu sem tíðkast hefur hér á landi frá landnámi. Árinu er þar skipt í tvo nærri jafnlanga helminga: Sumarhelming og vetrarhelming. Þó svalt sé oft í veðri á þessum árstíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því sumarið - frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin er einmitt hlýrri helmingur ársins, en veturinn sá kaldari. Sömuleiðis verða á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið tekur við, þá dregur að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa.

Í Noregi og Svíþjóð var notað öllu frumstæðara misseristímatal, en þar er sumardagurinn fyrsti að gömlu tali þ.14. apríl og stendur sumarið til 14. október.

Árstíðaskipting er með ýmsu móti í heiminum. Ef við teljum árstíðirnar fjórar á Íslandi, stendur veturinn frá og með desember til og með mars, vorið er þá apríl og maí, sumarið júní til september og haustið er október og nóvember. Þessi skipting hefur verið notuð á Veðurstofunni í meir en 80 ár. Víðast hvar í Vestur- Evrópu og í Bandaríkjunum eru árstíðirnar taldar jafnlangar, vetur er þá des til feb, vorið mars til maí o.s.frv. Að eldri hætti var vorið í Evrópu talið byrja við vorjafndægur, sumarið við sumarsólstöður, haustið við haustjafndægur og veturinn hófst við vetrarsólstöður. Allar þessar skiptingar eiga rétt á sér og eru skynsamlegar á sinn hátt. Víða í heiminum eru aðrar skiptingar.

Íslenska misseristalið var eitt fullkomnasta tímatal síns tíma. Það varð fullþroskað á 12. öld og full ástæða er til að sýna því þá ræktarsemi sem það á skilið. Lesa má margskonar fróðleik um það á fróðleikssíðum Almanaks Háskólans.

Aftur upp

Veðurfar á þessum árstíma

Dagarnir frá 20. apríl eða svo, til um það bil 10. maí, eru sá hluti ársins þegar norðaustanátt er hvað tíðust á landinu og loftþrýstingur hæstur. Slíku veðri fylgir gjarnan þurr næðingur syðra, oft með sólskini, en dauft veður með smáéljahraglanda nyrðra. Mjög bregður þó út af í einstökum árum.

Hæsti hiti á sumardeginum fyrsta

Í því sem hér fer á eftir er miðað við tímabilið 1949 til 2015. Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík á sumardaginn fyrsta frá 1949 að telja er 13,5°C. Það var árið 1998. Ámóta hlýtt var á sumardaginn fyrsta 2004. Á sumardaginn fyrsta 1956 fór hiti ekki niður fyrir átta stig allan sólarhringinn og ellefu sinnum hefur hámarkshitinn verið yfir 10 stigum. Kaldast var 1949, lágmarkshiti sólarhringsins -8,9°C, og daginn áður var mikið hríðarveður um stóran hluta landsins og samgöngur erfiðar.

Meðalhiti sólarhringsins hefur 14 sinnum verið undir frostmarki á sumardaginn fyrsta í Reykjavík og frost hefur verið 27 sinni nóttina áður. Það hefur gerst fjórum sinnum á tímabilinu frá 1949 að hiti hefur ekki komist upp fyrir frostmark á sumardaginn fyrsta; 1949, en þá var sólarhringshámarkið -2,0 stig, og 1951 var hámarkshiti á sumardaginn fyrsta -0,8 stig. Árin 1967 og 1983 var hámarkshitinn 0°C.

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu á sumardaginn fyrsta frá 1949 er 19,8 stig. Það var á Akureyri 22. apríl 1976. Á sumardaginn fyrsta 1949 var frost um land allt, hæsti hiti á skeytastöðvum þann daginn mældist á Hólum í Hornafirði -0,2 stig. Tveimur árum síðar var hæsti hiti á landinu á sumardaginn fyrsta á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 0,0°C.

Lægsti hiti á sumardaginn fyrsta frá 1949 mældist á Barkarstöðum í Miðfirði 1988, -18,2°C. Á þessu sama tímabili hefur það aðeins sex sinnum gerst að hiti hafi hvergi á landinu farið niður fyrir frostmark aðfaranótt fyrsta sumardags og alltaf hefur landslágmarkið verið undir 1°C.

Úrkoma á sumardaginn fyrsta

Á þessum tíma árs eru þurrir dagar í meirihluta í Reykjavík (51% daga) og aðeins um fjórða hvern dag blotnar vel á steini (úrkoma 1 mm eða meiri).

Sumardagurinn fyrsti árið 2000 var hinn sólríkasti, sólskin mældist í 14,6 klukkustundir. Oft er sólríkt þennan dag, í fjórðungi tilvika hefur verið sólskin í meir en 10 klukkustundir. Flestir þessir sólardagar eiga það þó sameiginlegt að þeir hafa verið kaldir og þá oftast næturfrost. Aðeins einn af hlýjustu dögunum getur jafnframt talist sólardagur, það var 2004. Hlýju dagarnir eru þó oftast úrkomulitlir.

Vindur á sumardaginn fyrsta

Meðalvindhraði var 14,1 m/s sumardaginn fyrsta 1992 og 1962. Þetta er hæsti meðalvindhraði þessa dags frá og með 1949. Hægviðrasamast var 1955, meðalvindhraði aðeins 0,7 m/s.

Frá 1961 hefur aðeins tvisvar verið alhvít jörð í Reykjavík að morgni sumardagsins fyrsta. Hinn makalausa fyrsta sumardag 1949 var alhvítt og snjódýpt talin 4 cm í Reykjavík.

Aftur upp

Nokkrar staðreyndir

  • Á tímabilinu 1949 til 2015 hefur tilviljun hagað því svo að sumardagurinn fyrsti hefur verið áberandi kaldari þegar hann hefur borið upp á þann 21. en aðra daga (1,5°C).
  • Þetta stafar langmest af því að þennan dag árið 1949 var sólarhringsmeðalhiti í Reykjavík -6,6°C eða 10,4 stigum undir meðallagi.
  • Að meðaltali hefur verið hlýjast á sumardaginn fyrsta þegar hann hefur borið upp á 24. apríl (5,5°C).
  • Skoða má kort sem sýna veður á hádegi alla daga frá 1949.
  • Skoða má kort sem sýna veður á hádegi á sumardaginn fyrsta, alla daga frá 1949.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica