Greinar
bleik ský á himni, bylgjótt
Glitský 15. desember 2005.

Hvað eru glitský?

Halldór Björnsson 16.8.2006

Glitský eru ákaflega fögur ský sem myndast í heiðhvolfinu, gjarnan í um 15 - 30 km hæð. Glitský sjást helst um miðjan vetur, um sólarlag eða sólaruppkomu. Litadýrð þeirra er mjög greinileg því þau eru böðuð sólskini, þótt rökkvað sé eða jafnvel aldimmt við jörð.

Litadýrðin þykir minna á þá liti sem sjá má í hvítu lagi sem er innan á sumum skeljum (s.n. ,,perlu-móður''-lag í perluskeljum) og eru þau í ýmsum tungumálum því nefnd perlumóðurský.

Hvernig myndast glitský?

Glitský myndast þegar óvenjukalt er í heiðhvolfinu (um eða undir -70 til -90 °C), og eru úr ískristöllum, eða úr samböndum ískristalla og saltpétursýru-hýdrötum (t.d. HNO3.3H2O). Þessi síðarnefndu ský geta valdið ósóneyðingu, en yfirborð ískristallanna getur virkað sem hvati í efnaferli þar sem klór í heiðhvolfinu breytist í skaðleg ósóneyðandi efni (t.d. klór-mónoxíð ClO).

Kristallarnir í skýjunum beygja sólarljósið, en mismikið eftir bylgjulengd þess. Þannig beygir blátt ljós meira en rautt. Rauða ljósið kemur því til okkar undir öðru horni en það bláa, þannig að við sjáum það koma frá öðrum hluta glitskýsins. Litaröðin frá jaðri inn til miðju skýsins er stundum eins og vísuorðin: gulur, rauður, grænn og blár en oft er skýið einnig hvítt í miðju. Litirnir eru líka háðir stærðardreifingu agna í skýjunum, þannig að oft má sjá rauða, gula og græna flekki í bland.

Glitský yfir Íslandi

Veturinn 2004 - 2005 var óvenjukalt í heiðhvolfinu á norðurhjara og því kjörskilyrði til myndunar glitskýja. Veðurstofunni bárust margar tilkynningar og myndir af glitskýjum þann vetur.

Glitský yfir Reykjavík 18. febrúar 2005

Mynd 2. Myndin hér að ofan er úr myndaröð sem þær Anna Steinunn Villalobos og Árný Sigríður Ágeirsdóttir, starfsmenn leikskólans Árborgar, tóku að morgni 18. febrúar 2005.

Mælingar frá Keflavíkurflugvelli sýna að í 15 km hæð var um -70°C frost aðfaranótt þess 18. febrúar svo líklega eru þessi ský neðst í heiðhvolfinu.

Upplýsingar um glitský (e. nacreous clouds) og myndir má finna víða á veraldarvefnum, t.d. frá Suðurskautslandinu og víðar. Sjá einnig fróðleikspistilinn Glitský á 17. öld og Árstíðasveifla glitskýja yfir Íslandi 1964-2002.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica