Greinar
Ísland
MODIS gervitunglamynd 5. febrúar 2012.

Kerfisbundin villa í langtímahitaspám

Frost sums staðar ofmetið í vetrarstillum

Guðrún Nína Petersen 29.1.2016

Glöggir notendur myndrænna veðurspáa á vef Veðurstofunnar hafa tekið eftir því að á kyrrum dögum vill frostið herða í spánni, oft snögglega, þegar komið er fram á og yfir fjórða spádag.

Í sumum tilvikum er kýrskýrt að spáin mun ekki rætast. Sem dæmi má taka að í nokkrum tilvikum hefur verið spáð a.m.k. 30 stiga frosti á Reykjanesskaga sem líklega er meira en nokkurn tímann mun mælast þar.

Þekktar spávillur

Veðurspár fyrstu 66 tímana eru reiknaðar á Veðurstofu Íslands með háupplausnarlíkaninu Harmonie, í reiknineti með 2,5 km möskvastærð.

Veðurspár fyrir fjórða til sjötta dags, þ.e. 72 – 168 tíma, eru aftur á móti reiknaðar af Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa (ECMWF) í u.þ.b. 16 km möskvastærð. Í því líkani er þekktur galli í yfirborðshitaspám nálægt ströndu vegna þess að geislun við yfirborð er reiknað í enn grófara neti. Það þýðir að notast er við meðalhita sem er meðaltal reiknipunkta yfir bæði landi og (hlýrra) hafi.

Þetta veldur því að útgeislun er ofmetin og landið kólnar of mikið að næturlagi. Í sumum tilvikum er villan meira en 10 stig. Þessi spávilla magnast þegar snjór þekur yfirborð, við útreikninga á norðlægum slóðum og á annesjum. Á Reykjanesskaga má gera ráð fyrir að allir þessir þættir magni spávilluna.

Kerfisbundnar spávillur eru ekki séríslenskt fyrirbæri eins og sjá má í þessu myndbandi frá Kanada þar sem verið er að gera grín af þveröfugri veðurspávillu: Alltaf hlýjast á sjöunda degi. 

Sérþekking og endurbætur

Vakthafandi veðurfræðingar þekkja vel til kerfisbundinna villna í líkönunum og gott er að nýta sér sérþekkingu þeirra og lesa textaspárnar. Veðurlíkön eru stöðugt í þróun og sífellt er verið að bæta ferla og þar með veðurspár. ECMWF mun uppfæra líkanið sitt núna í vor. Hluti af þeirri uppfærslu er uppfært geislunarlíkan og breytingar á reiknineti. Vonast er til þess að þá dragi úr þessari villu.

Dæmi um ofmat á útgeislun


Fyrri myndin (t.v.) sýnir 33 tíma spá úr Harmonie með gildistíma laugardaginn 30. janúar kl. 09. Spáð er frosti á öllu landinu og meira en 10 stiga frosti víða á hálendinu og sums staðar á Suðurlandi.

Seinni myndin (t.h.) sýnir tilsvarandi spá úr ECMWF líkaninu, þar sem bætast við kuldapollar á Reykjanesi, Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Skeiðarársandi.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica