Greinar
Þórðarhöfði í Skagafirði í snjómuggu.

Meðalhiti íslenska vetrarins

Hlýtt vetrarmisseri (2013 til 2014)

Trausti Jónsson 5.5.2014

Íslenski veturinn, frá fyrsta vetrardegi 26. október 2013 til og með 23. apríl 2014, var hlýr á landinu, sá 8. hlýjasti í Reykjavík frá 1950 en sá 9. hlýjasti á sama tíma á Akureyri. Hiti var um 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,3 til 0,4 ofan við meðaltal síðustu tíu ára (2004 til 2013).

Mörsugur og einmánuður voru sérlega hlýir og sömuleiðis var góa mjög hlý. Gormánuður var kaldastur, sá eini sem var undir gamla meðaltalinu 1961 til 1990.

Taflan sýnir nánara hitauppgjör (°C) fyrir Reykjavík og Akureyri.


Reykjavík Akureyri

vik 1961-1990 vik 2004-2013
vik 1961-1990 vik 2004-2013
gormánuður -0,2 -1,1 -0,8 -1,3
ýlir 0,1 -0,5 0,6 0,2
mörsugur 2,9 1,6 3,7 2,2
þorri 1,7 -0,1 2,1 -0,5
góa 0,7 -0,1 1,0 0,0
einmánuður 2,9 1,5 3,3 1,6
veturinn 1,4 0,3 1,6 0,4

Línuritið hér að neðan sýnir meðalhita íslenska vetrarins frá 1950 til 2014. Ártalið er sett við síðari hluta hans, 1950 stendur því fyrir tímabilið frá fyrsta vetrardegi haustið 1949 til síðasta vetrardags vorið 1950.

Veturnir 1964 og 2003 skera sig nokkuð úr hvað hlýindi varðar í Reykjavík. Veturinn 2003 er líka langhlýjastur á Akureyri og 1964 næsthlýjastur. Veturinn 1966 var kaldastur á Akureyri en veturinn 1951 í Reykjavík. Hafísárin 1965 til 1971 skera sig nokkuð úr á Akureyri, þótt reyndar hafi hafís verið lítill sem enginn 1966. Áberandi er hversu jafnhlýir vetur hafa verið eftir 2003, jafnhlýrri heldur en var í hlýindunum sem enduðu 1965.

Úrkoma

Úrkoma vetrarins var langt yfir meðallagi á Akureyri (55 prósent miðað við 2004 til 2013) en undir því í Reykjavík (79 prósent af meðallagi 2004 til 2013).

Taflan sýnir úrkomuhlutfall (%) einstakara vetrarmánaða í Reykjavík og á Akureyri miðað við meðallag áranna 1961 til 1990 og 2004 til 2013.


Reykjavík Akureyri

hlutf 1961-1990 hlutf 2004-2013
hlutf 1961-1990 hlutf 2004-2013
gormánuður 91,5 84,3 158,3 107,4
ýlir 113,0 116,4 126,9 116,8
mörsugur 53,5 36,2 215,5 190,5
þorri 55,3 42,7 212,9 281,5
góa 77,9 85,5 268,3 230,5
einmánuður 165,5 141,7   42,3 40,1
veturinn 90,4 79,4 173,5 154,8

Hér má sjá að úrkoma var yfir meðallagi í Reykjavík á ýli og einmánuði en sérlega þurrt var á mörsugi og þorra. Einmánuður var langþurrastur á Akureyri en á þorra og góu var úrkoma þar meiri en tvöföld meðalúrkoma.

Í eldri grein má lesa um veturinn 2012-2013.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica