Greinar
Sólarlag í Reykjavík 24. apríl 2012.

Tíðarfar árið 2012

Stutt yfirlit

Trausti Jónsson 4.1.2013

Tíð var hagstæð lengst af. Árið byrjaði þó með miklum umhleypingum og illviðrum sem milduðust þegar á leið. Um mánaðamótin mars/apríl skipti mjög um veðurlag og við tóku norðlægar áttir sem voru lengst af ríkjandi það sem eftir lifði árins.

Óvenjulegt hríðarveður gerði á Norðurlandi snemma í september og olli það miklum fjársköðum og rafmagnsleysi auk samgöngutruflana. Óvenjuillviðrasamt var framan af nóvember og víða urðu fokskaðar. Óvenjusnjóþungt var norðanlands í nóvember og desember. Mikla snjóflóðahrinu gerði á Vestfjörðum og sums staðar norðanlands í miklu illviðri síðustu daga ársins. Þá urðu einnig miklar skemmdir á raflínum og rafmagnsleysi og samgöngutruflanir ollu rofi á fjarskiptum.

Vor og sumar voru óvenju þurr og sólrík bæði nyrðra og syðra. Þurrkar háðu jarðargróðri víða um norðan- og norðvestanvert landið langt fram eftir sumri.

Hiti

Árið var mjög hlýtt, sérstaklega um landið vestanvert. Ekkert lát virðist vera á hlýindunum miklu sem hófust skömmu fyrir aldamót. Árið var það sjöunda hlýjasta frá upphafi mælinga í Stykkishólmi, í 12. sæti í Reykjavík , því 13. í Bolungarvík og því 14. til 15. í Vestmannaeyjum. Í Reykjavík er árið það 17. í óslitinni röð ára þar sem árshitinn er yfir meðallagi og það 14. á Akureyri.

Meðalhitinn í Reykjavík var 5,5 stig og er það um 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og í meðallagi sé miðað við árin 2001 til 2010. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig. Það er 1,1 stigi ofan meðallags, en 0,1 stigi undir meðaltali áranna 2001 til 2010. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti á nokkrum veðurstöðvum 2012

vik 30: Vik miðað við tímabilið 1961 til 1990
vik 10: Vik miðað við tímabilið 2001 til 2010

stöð hiti vik 30 röð af vik 10
Reykjavík 5,4 1,2 12 142 0,0
Stykkishólmur 5,0 1,5 7 177 0,2
Bolungarvík 4,2 1,3 13 115 0,1
Bergstaðir
Grímsey 3,7 1,3 13 139 0,0
Akureyri 4,3 1,1 18 131 -0,1
Grímsstaðir


Egilsstaðir 3,7 0,8 21 58 -0,3
Dalatangi 4,4 0,9 22 74 -0,2
Teigarhorn 4,5 0,8 17 til 18 140 -0,2
Höfn í Hornafirði 5,5
Fagurhólsmýri 5,5 0,9 22 110 -0,1
Kirkjubæjarklaustur 5,3 0,8 23 86 -0,2
Stórhöfði 5,8 1,0 14 til 15 135 -0,1
Hveravellir 0,6 1,7 4 47 0,2
Hæll 4,7 1,1 13 til 14 132 0,1
Eyrarbakki 5,1 1,0 20 117 -0,2

Hitavik í Reykjavík og á Akureyri 2012
Átta mánuðir voru hlýrri en að meðaltali á Akureyri en fjórir undir því. Í Reykjavík voru níu mánuðir yfir meðallagi en afgangurinn í meðallagi.

Meðalhiti ársins 2012 mældist hæstur í Surtsey, 6,8 stig og 6,6 stig á Garðskagavita. Á vegagerðarstöðvunum var meðalhitinn hæstur á Steinum undir Eyjafjöllum, 6,7 stig.

Lægsti meðalhiti ársins mældist á Brúarjökli -2,1 stig og -1,9 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 1,1 stig og 1,3 stig í Svartárkoti. Á vegagerðarstöðvunum var meðalhiti lægstur á Öxi og Fjarðarheiði, 0,2 stig.

Hæsti hiti ársins mældist á Eskifirði 9. ágúst 28,0 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 26,2 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði 10. ágúst. Lægsti hiti ársins mældist á Brúarjökli 2. apríl, -25,7 stig. Í byggð mældist hiti lægstur í Svartárkoti á jóladag, 25. desember, -24,6 stig. Á mannaðri stöð mældist hiti lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum 19. desember, -20,0 stig.

Hæsti hámarkshiti ársins í Reykjavík mældist 21,3 stig þann 16. ágúst. Hæsti hámarkshiti ársins á Akureyri mældist þann 9. ágúst, 24,4 stig.

Lægsti lágmarkshiti ársins í Reykjavík mældist þann 3. janúar, -7,9 stig. Lægsta lágmark ársins hefur aldrei orðið jafnhátt í Reykjavík frá upphafi mælinga. Á Akureyri mældist lægsta lágmark -12,3 stig þann 18. mars. Er það líka óvenjuhátt ársgildi en var lítillega hærra árið 2005 [-11,9].

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 950,8 mm en það er um 19% yfir meðallagi, þar af féllu 54,6 mm á einum degi, bókaðir 29. desember.  Úrkoma hefur aldrei mælst svo mikil á einum sólarhring í mælireit Veðurstofunnar í Reykjavík. Mjög votviðrasamt var á landinu fyrstu þrjá mánuði ársins og sömuleiðis í september en með þurrviðrasamasta móti í maí, júní og júlí. Úrkoma á Akureyri mældist 578,9 mm og er það um 18% yfir meðallagi en óvenjuúrkomusamt var þar í september og nóvember. Á Höfn í Hornafirði mældist ársúrkoman 1213,7 mm.

Úrkomuvik einstakra mánaða ársins 2012 í Reykjavík og á Akureyri (%)
Hin gríðarmikla úrkoma á Akureyri í september og nóvember sker sig úr. Maí til júlí voru þurrir á báðum stöðvum, en sérlega þurrt var á Akureyri í ágúst. 

Í Stykkishólmi mældist ársúrkoman 672,2 mm og er það í rétt tæpu meðallagi. Júnímánuður var sá þurrasti frá upphafi mælinga í Stykkishólmi og mældist úrkoman aðeins 0,6 mm. Sumarmánuðirnir júní til ágúst hafa ekki verið jafnþurrir í Hólminum síðan 1915, en ámóta þurrt var þó á sama tíma árs árið 1952. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 1585,2 mm og er það í meðallagi.

Mesta sólarhringsúrkoma á mannaðri stöð mældist á Nesjavöllum 29. janúar 125,0 mm. Mesta sólarhringsúrkoma í Reykjavík var 54,6 mm sem mældust 29. desember. Þetta er mesta sólarhringsúrkoma sem nokkru sinni hefur mælst í mælireitnum við Veðurstofuhúsið. Mesta sólarhringsúrkoma ársins á Akureyri mældist 42,8 mm. Það var 10. september.

Þeir dagar taldir þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 158 í Reykjavík og er það 10 dögum fleiri en að meðallagi. Munaði þar mestu að í janúar til apríl voru úrkomudagarnir 27 fleiri heldur en í meðalári.

Miðað við sama úrkomumagn voru úrkomudagar 129 í Stykkishólmi, fjórum færri en í meðalári, 97 á Akureyri, fimm færri en í meðalári og 173 á Stórhöfða í Vestmannaaeyjum, 17 færri heldur en í meðalári.

Snjór

Veturinn 2011 til 2012 var snjóþungur framan af og voru alhvítir dagar veturinn allan 73 (september 2011 til maí 2012). Það er 8 dögum fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítir dagar á sama tíma 77. Það er 41 degi færri en að meðaltali.

Mjög snjólétt var um land allt frá og með febrúar og til vors og haust og vetrarbyrjun var snjólétt um landið sunnanvert. Síðustu mánuðir ársins voru hins vegar óvenjusnjóþungir norðanlands og einnig á Vestfjörðum. Víða varð alhvítt í efri byggðum norðanlands snemma í september er það óvenjusnemmt. Alhvítir dagar voru samtals 58 í nóvember og desember á Akureyri og hafa aðeins einu sinni verið fleiri á sama tíma árs. Það var 1996 en þá voru alhvítir dagar 59 í þessum tveimur mánuðum. Snjóhula hefur verið athuguð á Akureyri frá 1924.

Á árinu í heild voru alhvítir dagar í Reykjavík 49 og er það 16 dögum færri heldur en í meðalári. Á Akureyri voru 95 alhvítir dagar á árinu, 22 færri heldur en að meðaltali.

Sólskin

Árið var sérlega sólríkt bæði suðvestanlands og á Norðurlandi. Sólskinsstundir mældust 1587 í Reykjavík á árinu og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri. Það var árið 1924. Þetta var þrettánda árið í röð þegar sólskinsstundafjöldi er yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1415 og hafa aldrei mælst fleiri á einu ári. Þetta er nærri 140 stundum meira en áður hefur mest mælst á einu ári á Akureyri. Þó eignaðist árið þar ekkert mánaðarmet sólskinsstunda.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1007,4 hPa og er það 1,5 hPa yfir meðallagi.

Hæsti þrýstingur ársins mældist í Grímsey þann 25. október og á Akureyri þann 26., 1039,0 hPa. Lægstur mældist þrýstingurinn á Dalatanga þann 6. mars, 947,3 hPa.

Vindhraði

Vindhraði var nærri meðallagi fyrir árið í heild, en apríl, júní og sérstaklega október voru nokkru hægviðrasamari en að meðaltali, en mars, september og nóvember hvassari.

Vindhraðavik allra veðurstöðva einstaka mánuði ársins 2012
Október var sérlega hægviðrasamur og einnig var vindur að meðaltali hægur í apríl, júní og júlí. Nóvember var vindasamastur mánaða ársins. 

Nokkur slæm illviðri gengu yfir landið á árinu og mun tjón hafa orðið meira af völdum veðurs heldur en mörg undanfarin ár. Helstu veðrin voru: Þann 10. janúar (af vestri), 7. febrúar (af suðri), 13. maí (af norðri), 10. september (af norðri), 1. til 3. nóvember (af norðri), 9. til 10. nóvember (af norðaustri og norðri) og 29. desember (af norðaustri). Hvað ofsa og útbreiðslu snerti var fyrra nóvemberveðrið það mesta þessara veðra, en þá var úrkoma frekar lítil þannig að annað tjón en af foki var ekki mikið. Rafmagnstruflanir urðu þó. Miklar rafmagnstruflanir vegna seltu voru samfara janúarveðrinu og ísing olli stórtjóni bæði í septemberveðrinu og í veðrinu í lok desember. Í septemberveðrinu urðu einnig mestu fjárskaðar í marga áratugi er fé fennti og króknaði víða um landið norðanvert. Öll þessi veður og fleiri ollu samgöngutruflunum.

Vindáttir

Þótt vindáttir hafi verið nærri meðallagi þegar litið er á árið í heild var það var mjög tvískipt hvað þetta varðar. Fyrstu þrjá mánuði ársins ríktu suðlægar og vestlægar áttir en frá og með apríl urðu norðlægu áttirnar ríkjandi. Samfara þeim var austanátt algeng. Langmest var hún í desember.

mynd a2012iv kemur hér

Vigurvindvik ársins 2012 (austan- og norðanþættir jákvæðir)
Allar vindathuganir á skeytastöðvum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðameðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra áranna 1961 til 1990. Mikil sunnanátt var í janúar, febrúar og mars (grænt), en norðanátt meiri en að meðaltali í öðrum mánuðum. Austanátt var sérlega algeng í desember, en vestlægar áttir í janúar til mars.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Mánuðurinn var úrkomu- og illviðrasamur um meginhluta landsins. Suðvestanlands var venju fremur snjóþungt og sömuleiðis var allmikill snjór á Vestfjörðum og sums staðar norðanlands. Olli snjórinn ýmiss konar vandræðum, ekki síst vegna þess að mikil svellalög sem fylgdu kulda og snjó í desember tók seint og illa upp. Erfitt var víða að komast yfir jörðina því hálka var með allra mesta móti. Hiti var ofan við meðallag um land allt, mest austanlands. Úrkoma mældist meiri en nokkru sinni í janúar á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og á fleiri stöðvum sunnanlands var úrkomumagn nærri metum. Þótt veðraskak hafi verið talsvert var lítið um illviðri sem náðu til stórra hluta landsins eða þess alls. Helst var það syrpan dagana 8. til 11. sem það gerði. Þá gekk fyrst kröpp lægð með mikilli veðurhörku yfir austasta hluta landsins en síðan skall á vestanstormur með hríðarbyljum og miklum samgöngutruflunum – mestum þó vestanlands.

Febrúar

Mánuðurinn var mjög umhleypingasamur og hlýr. Hlýindin voru að tiltölu mest austanlands þar sem hiti á Fljótsdalshéraði var meira en 4 stigum ofan meðallags. Úrkoma var mikil um allt sunnan- og vestanvert landið og var á stöku stöð meiri heldur en hún hefur áður mælst í febrúar. Úrkomudagar voru sérlega margir, 28 í Reykjavík, allir nema einn. Hafa úrkomudagar einu sinni orðið jafnmargir í Reykjavík í febrúar. Það var 1981. Þá var hins vegar ekki hlaupár og úrkoma mældist þar með alla daga mánaðarins - sjónarmunur er því á þessum mánuðum tveimur - 1981 telst með flesta úrkomudaga í febrúar. Fremur snjólétt var á landinu lengst af, mikil viðbrigði frá næstu tveimur mánuðum á undan.

Mars

Mánuðurinn var mjög hlýr, sérstaklega um landið norðan- og austanvert en á þeim slóðum var hann meðal þeirra tíu hlýjustu frá upphafi mælinga. Mjög úrkomusamt var á Suður- og Vesturlandi. Snjólétt var á landinu. Mestallan mánuðinn gengu miklir umhleypingar. Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,5 stig í Kvískerjum þann 29. Þetta er langhæsti hiti sem mælst hefur í mars á Íslandi.

Apríl

Tíðarfar í apríl var hagstætt um meginhluta landsins. Þó var frekar svalt við austurströndina. Mjög þurrt var víða um landið sunnanvert. Apríl var kaldari en mars á svæðinu frá norðanverðum Vestfjörðum austur um Norðurland og suður til Hornafjarðar. Það er óvenjulegt. Snjólétt var á landinu.

Maí

Mánuðurinn var mjög kaflaskiptur. Hlýtt var fyrstu tvo dagana en síðan gerði kuldakast sem stóð nær samfellt fram til 21. Þá hlýnaði og síðustu vikuna var mjög hlýtt um meginhluta landsins. Hiti komst m.a. yfir 20 stig einhvers staðar 6 daga í röð, 25. til 30. Suma þessa daga var kalt allra austast á landinu. Sérlega sólríkt var í Reykjavík og á Akureyri. Nokkuð snjóaði um landið norðanvert í kuldakastinu. Snjódýpt mældist 35 cm á Svínafelli á Úthéraði 15. og 16. og 30 cm í Neskaupstað þann 15. Ekki er vitað um jafnmikinn snjó í maí í Neskaupstað.

Júní

Júnímánuður var hlýr um landið vestanvert en fremur kaldur austanlands. Mjög þurrt var á landinu, úrkoma var alls staðar minni en í meðalári. Þurrkarnir voru óvenjulegastir um landið vestanvert, allt frá Reykjanesskaga í suðri norður og austur um til Skagafjarðar. Úrkoma hefur aldrei mælst jafnlítil í júní á fjölmörgum stöðvum á þessu svæði, m.a. í Stykkishólmi þar sem mælt hefur verið samfellt í júní frá 1857. Úrkoman í Stykkishólmi mældist nú aðeins 0,6 mm.  Hægviðrasamt var í mánuðinum.

Júlí

Júlímánuður var mjög hlýr um landið suðvestan- og vestanvert og hiti var yfir meðallagi um land allt. Að tiltölu var kaldast austanlands. Úrkoma var nær allstaðar undir meðallagi en þó var ekki nærri því eins þurrt og í júní. Sólskinsstundir voru óvenjumargar norðanlands og vel yfir meðallagi syðra. Hægviðrasamt var í mánuðinum. Þetta er hlýjasti júlímánuður síðan mælingar hófust á Stórhöfða í Vestmannaeyjum haustið 1921. Áður var mælt í kaupstaðnum og þar varð ámóta hlýtt í júlí 1880 og nú – en hafa verður í huga að mæliaðstæður eru nokkuð aðrar.

Sunnudaginn 22. júlí 2012 kom mjög djúp og víðáttumikil lægð upp að suðurströndinni. Þrýstingur í lægðarmiðju var óvenju lágur miðað við árstíma og um kvöldið mældist hann lægri heldur en áður er vitað um í júlímánuði hér á landi. Nýja metið, 972,4 hPa, var sett á sjálfvirku stöðinni á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Eldra met, 974,1 hPa, mældist í Stykkishólmi 18. júlí 1901.

Ágúst

Mánuðurinn var hlýr um allt land, hlýjastur að tiltölu á Norður- og Vesturlandi, en suðaustanlands og sunnan til á Austfjörðum var hann ekki langt yfir meðallagi. Mjög þurrt var um landið norðvestanvert og er mánuðurinn í flokki þeirra þurrustu á þeim slóðum.

Mánuðirnir júní til ágúst hafa aðeins tvisvar sinnum verið hlýrri í Reykjavík. Úrkoma hefur aldrei orðið jafnlítil í þessum þremur mánuðum á Akureyri síðan samfelldar úrkomumælingar hófust þar 1928. Úrkoma var mæld á Möðruvöllum í Hörgárdal frá hausti 1913 til vors 1925. Sérlega þurrt var á þessum slóðum í júní til ágúst 1915 og 1916 og úrkoma þá hugsanlega minni en nú á Akureyri.

September

Mánuðurinn var illviðrasamur og órólegur og hans verður að þessu sinni einkum minnst fyrir óvenjulegt hríðarveður sem gerði um landið norðanvert dagana 9. til 11. Mikið fannfergi og ísing fylgdi veðrinu og olli hvort tveggja miklu tjóni, ísing felldi raflínur og fé fennti þúsundum saman, margt af því fórst. Fádæma úrkomusamt var á Norðurlandi í mánuðinum.

Október

Mánuðurinn telst fremur hagstæður. Lítill snjór var á láglendi. Hiti var nærri meðalagi um landið vestanvert, en annars lítillega undir því. Mánuðurinn var óvenju hægviðrasamur. Á landsvísu hefur meðalvindhraði ekki verið minni í október síðan 1960.

Nóvember

Tíðarfar í mánuðinum var lengst af óhagstætt. Mjög mikill snjór var víða um landið norðanvert en snjólétt syðra. Illviðri voru með meira móti, sérstaklega framan af, og fyrstu dagana gerði óvenjuöflugt og langvinnt norðanillviðri með allmiklu foktjóni víða um land.

Desember

Veður í desember var fremur hagstætt framan af en óhagstætt undir lokin. Síðustu dagar ársins voru snjóa- og illviðrasamir, einkum um norðan- og norðvestanvert landið. Hiti var vel ofan meðallags í flestum landshlutum, en þó aðeins í rétt rúmu meðallagi inn til landsins á Austurlandi.

Meðalhiti á veðurstöðvum 2012

Mánaðarmeðalhiti mannaðra stöðva 2012.

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2012.

 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica