Greinar
Í Mývatnssveit, 10. september 2012.

Af illviðrinu 10. til 11. september 2012

Óvenjulegt á þessum tíma árs

Trausti Jónsson 14.9.2012

Dagana 10. til 11. september gerði mikið hríðarveður um landið norðan- og norðaustanvert. Fjölda fjár fennti, ísing og hvassviðri sleit raflínur og einnig urðu miklar samgöngutruflanir. Úrkoma var mikil og féll að hluta til sem snjór. Snjómagnið var óvenjumikið miðað við árstíma.

Kristín Hermannsdóttir fjallar um veðurspár umræddra sólarhringa í sérstakri grein.

Á Íslandi getur gert hret með snjókomu í hvaða mánuði sem er. Á Vestfjörðum og öllu Norðurlandi eru þau nokkuð algeng fram yfir miðjan júní en miklu færri í júlí, lítið eitt fleiri í ágúst og tíðnin vex ört í september. Algengt er að snjói bæði í út- og innsveitum á Norðurlandi eftir miðjan september, en annars er snjór í september ekki algengur. Til dæmis verður ekki alhvítt á Akureyri í þeim mánuði nema einu sinni á áratug að jafnaði.

Norðanátt er oft mjög úrkomusöm í september á Norðurlandi. Úrkoman í veðrinu sem hér er um fjallað var samt í meira lagi - en fullt uppgjör (samanburður við met og þess háttar) bíður næsta mánaðar. Snjókoman var óvenju mikil og er ekki hefur mælst jafnmikil snjódýpt í fyrri hluta mánaðarins og nú (50 cm mældust á Auðnum í Öxnadal). Talsvert snjóaði á Akureyri og er ekki nema einu sinni vitað um að alhvítt hafi orðið þar jafnsnemma og nú frá því að reglulega var farið að fylgjast með snjóhulu fyrir um 75 árum. Það var í miklum hretagarði í september 1940. Alhvítt varð þann 10. þess mánaðar og aðfaranótt þess sjöunda gránaði einnig. Snjórinn mun þó hafa verið meiri að þessu sinni. Eldri dæmi eru um snjó á Akureyri í fyrri hluta september og jafnvel í ágúst en slíkt er sárasárasjaldgæft.

Hiti var að þessu sinni nærri frostmarki á stórum svæðum og olli það ásamt úrkomumagni og vindi óvenjusnarpri ísingu á raflínum.

Skipuleg leit hefur enn ekki verið gerð að svipuðum veðrum, en 26. ágúst 1971 kom veður sem var litlu minna heldur en þetta og meir en hálfum mánuði fyrr. Þá snjóaði niður í byggð víða á Norðausturlandi (þó festi ekki á Akureyri), miklir fjárskaðar urðu, sérstaklega í Vopnafirði og mikið tjón varð á raflínum, rétt eins og nú.

Hríðarveður var einnig víða um landið norðanvert oftar en einu sinni í fyrri hluta september 1979 en var þá verra á Vestfjörðum heldur en nyrðra. Á norðanverðum Vestfjörðum snjóar stundum í sjó undir lok ágústmánaðar en Vestfirðingar sluppu að þessu sinni.

Lárétti ásinn á meðfylgjandi mynd um vindhraða sýnir daga septembermánaðar, frá þeim fyrsta til þess 14. Tölurnar eru settar við hádegi hvers dags og litlu merkin á ásnum eru sett á sex stunda fresti. Lóðréttir kvarðar eru tveir. Sá til vinstri sýnir vindhraða í metrum á sekúndu og á við bláa og rauða ferla myndarinnar.

Sá blái sýnir meðalvindhraða á öllum sjálfvirkum stöðvum á klukkustundarfresti alla dagana. Þar má sjá að talsvert illviðri gerði þann fjórða en undir kvöld þann 9. fór að hvessa á landinu og náði vindur hámarki um og upp úr hádegi þann 10. Meðalvindhraði var meiri en 10 m/s í nærri því tvo sólarhringa - það er mikið.

Rauði ferillinn sýnir mesta 10-mínútna vindhraða hverrar klukkustundar alla dagana. Við sjáum að furðuhvasst er flesta dagana. Mikið hámark er aðfaranótt þess 4. en enn meira dagana 10. og 11.

Svarti ferillinn sýnir síðan hlutfall sjálfvirkra stöðva með mesta 10-mínútna meðalvindhraða hverrar klukkustundar meiri en 17 m/s. Kvarðinn til hægri á hér við. Talan 40 þýðir að á 40% stöðva hefur vindhraðinn verið meiri en 17 m/s. Þetta er mjög hátt hlutfall, það er aðeins á 3 til 4 ára fresti sem hlutfallið verður svona hátt í september. Þau veður eru auðvitað ekki öll hríðarkyns, suðlæg veður eru fullt eins algeng.

Tölur að baki myndinni má finna í sérstöku skjali sem líma má inn í töflureikni. Þar er líka tafla um hámarksvindhraða í veðrinu á öllum sjálfvirkum veðurstöðvum og hvenær sá vindhraði mældist.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica