Greinar
þétt ský
Skúraský yfir Bláfjöllum þann 15. mars 2012.

Veturinn 2011 til 2012

Tíðarfar í desember, janúar, febrúar og mars

Trausti Jónsson 3.4.2012

Veturinn (fjórir mánuðir)

Veturinn byrjaði með miklu kuldakasti sem stóð í hálfan mánuð. Síðan hlýnaði heldur og miklir umhleypingar tóku við með blotum, snjókomum og frostum til skiptis þannig að illa var komist um jörðina. Færð var með versta móti enda snjór meiri en um tíu ára skeið um landið sunnan- og vestanvert. Þegar leið fram á þorrann linaði nokkuð og þótt hin órólega tíð héldi áfram allt til loka vetrarins var hún umtalsvert mildari og vægari í febrúar og mars heldur en verið hafði fyrri hluta vetrar. Í marslok komu nokkrir óvenjulega hlýir dagar.

Hiti

Meðalhiti vetrarins í Reykjavík var 1,0 stig. Er það 1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,2 stigum undir meðallaginu 2001 til 2010. Á Akureyri var meðalhiti vetrarins 0,4 stig eða 2,0 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,6 stigum yfir meðallaginu 2001 til 2010.

Úrkoma

Veturinn var mjög úrkomusamur um landið sunnan- og vestanvert. Úrkoman í Reykjavík mældist 475 mm og er það 55% umfram meðallag. Þetta er svipað og veturinn 2007 til 2008. Á Akureyri mældist úrkoma vetrarins 196,8 mm og er það nákvæmlega í meðallagi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum hefur vetrarúrkoman aðeins tvisvar verið meiri en nú, það var 1945 og 1968.

Snjóalög

Óvenjusnjóþungt og áfreðasamt var um landið sunnan- og vestanvert í desember og janúar en síðan brá til betri tíðar og snjó tók smám saman upp. Snjólétt var um land allt í febrúar og mars. Alhvítir dagar voru 68 í Reykjavík, þar af 53 í desember og janúar. Í heild voru alhvítir dagar 24 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 í Reykjavík og hafa ekki verið jafnmargir yfir vetrarmánuðina fjóra síðan veturinn 2000 til 2001. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 66, 17 dögum færri en að meðaltali. Það hefur fimm sinnum gerst áður síðan 1950 að alhvítir dagar í vetrarmánuðunum fjórum hafi verið fleiri í Reykjavík heldur en á Akureyri (1954, 1959, 1984, 1989 og 2005).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica