Greinar
snjóskafl í þoku
Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esju 25.09.2011.

Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esju

Skoðunarferðir 2011 og 2012

Árni Sigurðsson 4.10.2011

Á haustin hættir snjór að bráðna á hærri fjöllum og úrkoman fellur í vaxandi mæli sem snjór. Í Gunnlaugsskarði í Esju gerist þetta yfirleitt í kringum mánaðarmót september og október.

Páll Bergþórsson veðurfræðingur hefur skrifað ítarlega fróðleiksgrein um fannir í Esju, meðal annars um skaflinn í Gunnlaugsskarði, og hvaða vísbendingu fyrri athuganir gefa um breytingu á lofthita.

Í hlýjum árum bráðnar skaflinn, áður en snjór tekur að safnast þar fyrir aftur að hausti, en á köldum tímabilum helst hann allt árið. Fram undir aldamót hvarf skaflinn yfirleitt ekki.

Margir miða við hvort skaflinn sést frá Reykjavík en það er spennandi fylgjast með þessu í nálægð. Haustin 2011 og 2012 hefur verið kannað hvort skaflinn í Gunnlaugsskarði væri horfinn, eins og gerst hefur undantekningalítið eftir árið 2000.

Skoðunarferðir í september 2011

Tvær myndir fylgja af skaflinum, teknar með nokkurra daga millibili 2011, önnur í návígi en hin úr fjarlægð. Vætusamt og milt var í veðri þá vikuna (26. - 30. september 2011). Skaflinn var mjög harður og enn a.m.k. 50 cm á þykkt. Um 100 metrum sunnar í skarðinu var annar skafl sem er nokkru minni.

Spáð er kólnandi veðri og horfur á dálítilli snjókomu í Esjuna. Getur verið skaflinn muni halda velli að þessu sinni? Hafa skal í huga að skaflinn er í 820 m hæð yfir sjó, svo þar er hiti um 5 gráðum lægri en á láglendi. Ágæt nálgun er að hiti lækki um 0,6° við hverja 100 m sem ofar er farið og því má áætla að í 800 m hæð sé hiti 4,8 gráðum lægri en við sjávarmál.

Það er spurning hvernig stendur á því að skaflinn er þarna enn, því sumarið hefur verið gott suðvestanlands. Það byrjaði reyndar nokkuð svalt og lítið hefur rignt í sumar. Ef til vill er það skýringin. Fyrir áhugasama þá eru hnit skaflsins 64°13.930'N og 21°39.060'V(WGS-84).

skafl í fjarska

Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esju. Myndin er tekin úr fjarlægð þann 28. september 2011 í vætusömu veðri eftir þurrt sumar. Hún sýnir að skaflinn er enn til staðar. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.

Skoðunarferðir í október 2011

Gengið var á Esju 3. október 2011, gagngert til að sjá hvort skaflinn væri horfinn. Þoka var í Gunnlaugsskarðinu lengst af en á niðurleiðinni hafði rofað þar til. Myndin hér undir (unnin) er tekin úr um 350 m hæð eftir kl. 19, þ.e. nokkuð eftir sólsetur og ber þess vott.  Augljóst er samt að enn eru snjófyrningar í skarðinu - þó að öllum líkindum bara einn skafl.

fjallshlíðar, skafl í fjarlægð

Á Esju, 3. október 2011. Ljósmynd: Barði Þorkelsson.

Gengið var í Gunnlaugsskarð laugardaginn 15. október 2011. Það hafði rignt mikið fyrir helgina og síðan gengið á með éljum þannig að föl af nýjum snjó var yfri efri hluta Esju. Skaflinn mældist 7-8 m á hæð og kringum 4 m á breidd og var hann aðeins 10 til 20 cm á þykkt.

snjóföl - skafl merktur með stiku

Skaflinn í Gunnlaugsskarði undir snjóföl 15. október 2011, merktur með stiku. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.

Skoðunarferð haustið 2012

Farið var upp í Gunnlaugsskarð 23. september 2012. Snjóskellurnar þar eru nýr snjór sem hefur komið í hretinu 10. september. Skaflinn hefur verið horfinn þegar þessi snjór kom.

Frá Veðurstofuhúsinu í Reykjavík grillti í örlitla skellu í Gunnlaugsskarðinu og aðra framan í Kerhólakambi þann 4. september. Þessar skellur hurfu 5. til 9. september. Yfirleitt hefur skaflinn í Gunnlaugsskarði enst lengur en skaflinn Kerhólakambi. Telja má óvenjulegt að skaflarnir hurfu á sama tíma.

Úr Gunnlaugsskarði í Esju 23. september 2012. Þessar snjóskellur komu í hretinu 10. september. Þá hefur skaflinn verið horfinn. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.

Fylgjast má með fleiri skoðunarferðum í nýrri grein.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica