Greinar
HaMa_0878
Þegar hætta er á eldingum er mikilvægt að beygja sig niður og hafa lítinn snertiflöt við yfirborðið.

Hrævareldar, haglél og rétt viðbrögð við eldingahættu

Þórður Arason og Halldór Björnsson

Veðurstofa Íslands 15.9.2011

Sum náttúruleg fyrirbæri eru nægilega fágæt til þess að fréttnæmt þyki ef þeirra verður vart. Eftirfarandi er lýsing á slíku fyrirbæri, sem átti sér stað laugardaginn 20. ágúst 2011 á Eiríksjökli. Gunnlaugur Briem var ásamt Hönnu Marteinsdóttur og Ottó Leifssyni á leið upp á tindinn og lýsir ferðinni svo:


Heitt og bjart veður var framan af degi en þegar við vorum komin upp á Stallinn svokallaða, í u.þ.b. 900 metra hæð um kl. 12.00, fóru ský að hlaðast að jöklinum og fjöllunum í kring. Fremur dökk ský en áfram var bjart á láglendi. Þegar komið var á jökulinn sjálfan í um 1300 metra hæð byrjað haglél, lítið í fyrstu en jókst eftir því sem ofar dró og varð að lokum talsverð úrkoma sem myndaði snjólag á yfirborðið. Skyggnið minnkaði smám saman og var komið niður í um 100 metra.

Í um 1540 metra hæð (um 130 metra hækkun eftir og ca. 1 km í hæsta punkt) um kl. 15.00 tókum við eftir suði í kringum okkur. Fyrst tókum við eftir því að það var líkt og úrkoman væri ofurþétt ofan á höfuðið sem var þó ekki. Þá stoppuðum við og heyrðum þetta suð, sem virtist koma frá göngustöfum okkar og ísexi á bakpoka Ottós. Hönnu fannst hún finna sviðalykt og tók af sér húfuna og stóð þá hárið hennar upp í loftið líkt og væri með indíánakamb. Greip hún snjó á höfuðið til kælingar því henni var heitt á höfðinu. Ottó fannst sem undirlagið væri á hreyfingu. Ég nefndi eldingahættu og við dreifðum okkur þá strax aðeins og beygðum okkur niður og hnipruðum okkur saman á ísnum, og hvarf þá suðið. Við vorum þannig nokkra stund. Ef ég rétti göngustaf minn, hvorn sem væri, út frá líkamanum heyrðist þetta suð á ný. Og þau hin greindu líka þetta suð hjá mér, í u.þ.b. 4 og 8 metra fjarlægð frá mér. Ég prófaði líka að standa upp og þá heyrðist suðið aftur. Þegar Ottó snéri höfði að ísexinni heyrði hann suðið. Ég tók einnig af mér húfuna og þá stóð hárið upp í loftið (sjá mynd).

Eftir stutta stund ákváðum við að halda niður jökulinn. Við stóðum upp, höfðum meira bil á milli okkar en áður og gengum rösklega sömu leið niður. Ekki urðum við vör við frekara suð enda gerðum við ekki tilraun til að hlusta eftir því. Fljótlega breyttist úrkoman í rigningu. Smám saman dró þó úr henni og þegar komið var aftur að brún stapans í ca. 900 metra hæð var hún hætt, ca. kl. 17.00.


HaMa_0878b

Á Eiríksjökli 20. ágúst 2011. Í öflugu rafsviði geta höfuðhár risið, auk þess sem fiðrings verður vart í húð. Í slíkum tilvikum er rétt að gera ráð fyrir eldingahættu. Ljósmynd: Hanna Marteinsdóttir.

Hvað skyldi hafa valdið þessu hljóði?

Fyrsta vísbendingin er sú að hópurinn lenti í öflugu hagléli. Haglél kemur úr skúraflókum með öflugu uppstreymi, en slík ský geta hlaðið upp rafhleðslur og myndað sterkt rafsvið. Það að hár rísi á höfði er merki um að öflugt rafsvið sé á staðnum. Rafsviðið getur orðið það sterkt (2-3 MV/m) að það endi með eldingum milli skýjahluta eða að eldingu slái til jarðar. Engar eldingar voru þó mældar þarna, en áður en rafsviðið verður svo sterkt að eldingar myndist getur jónun átt sér stað í loftinu og rafeindir farið að leka, sérstaklega frá leiðandi háum oddhvössum hlutum. Í rökkri sést þetta eins og bláleitur logi frá oddum eða jafnvel umhverfis alla hluti, en í dagsbirtu sést ljósið illa. Þessi logi er kallaður hrævareldur á íslensku (St. Elmo's fire á ensku). Oft heyrist suð-hljóð með hrævareldum, og þó Gunnlaugur og félagar hafi ekki séð hrævareldinn heyrðu þau suðið. Orðið er gamalt í íslensku máli. Lýsingu á hrævareldum má finna í frásögn Þorsteins Magnússonar sýslumanns á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri af Kötlugosi í september1625, en þar segir svo frá atburðum 7. september (eftir gamla stíl):


... og um allan þann tíma frá dagmálum og fram yfir nón þá varði og hélzt hið sama myrkur með ösku og sanddrifi, reiðarþrumuhljóðum, braki og brestum, svo ógna mátti. Þessi eldgangur, hljóð og brestir var svo mikið í loftinu yfir oss og á jörðunni alt í kringum oss, item utan á vorum höttum og öðrum fatnaði var svo mikill glóandi eldur að sjá svo sem vér allir í einum loga værum eður sem glóandi kolum umdreifðir. En þó bar það ekki þvílíkan lit svo sem vor náttúrlegur eldur hefur, heldur svo að sjá sem maurildi af nýjum fiski eður svosem hræljós eður hrævarlogi að nokkrir kalla. Sagður eldur eður fýrglossur strauk og fló svo vel um jörðina sem um loftið, svo allir hlutir sýndust sem í einu báli í því augnabliki sem það að kom.

Nokkra menn heyrði eg segja, að þeim hafi átt at sviða eftir hendur og andlit, þar sami eldur þá snert hafði. Item ogsvo að ull á sauðum hefði sem sviðin sézt, hverju eg varla trúði, því aldrei varð eg þess var, að hann í hinn minnsta máta hvorki yl né hita með sér færði, eður það, að hvorki sandur né rigningarsteinar í nokkurn máta heitir né varmir væri, annars þá hefði sá eldur stærra og meira skaða gjört mönnum og fénaði enn hann gjörði.

(Safn til sögu Íslands, 4. bindi, bls. 205, Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn og Reykjavík, 1907-1915.)


Eins og fyrr greinir fylgir öflugt rafsvið þrumuveðrum. Eldingahætta var því tvímælalaust nokkur á Eiríksjökli. Viðbrögð gönguhópsins voru hárrétt því full ástæða er að reyna að koma sér úr aðstæðum þar sem rafsvið er öflugt. Í því tilviki ætti fólk í hópi að forðast að vera nálægt hvert öðru, því ef eldingu slær niður í hóp eru mestar líkur á að allir rotist og/eða fari í hjartastopp. Ef einhver í hópnum er með rænu eftir slíkt óhapp, er mikilvægt að hringja í 112 og hefja hjartahnoð á þeim sem eru meðvitundarlausir án tafar, því lífslíkur eru þá ótrúlega góðar.

Stundum er hrævareldum ruglað saman við mýraljós („will-o'-the-wisp“ á ensku), en þau gefa dauf ljós við bruna mýragass (metans). Áður gerðu menn sér stundum ekki grein fyrir að um ólík náttúrufyrirbæri væri að ræða, en mýraljós eru bruna-fyrirbæri á meðan hrævareldar eru raf-fyrirbæri.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica