Greinar
foss
Foss í ánni Ófæru 28. ágúst 2010.

Tíðarfar árið 2010

Veðurfarsyfirlit

Trausti Jónsson 21.1.2011

Veðurfar ársins 2010 var óvenjulegt á marga lund hér á landi. Þetta á sérstaklega við um landið sunnan- og vestanvert þar sem árið var í senn í hópi þeirra hlýjustu, þurrustu og snjóléttustu. Tíðarfar var lengst af með ágætum. Illviðri voru með vægasta móti.

Hiti mældist ...
Hitamælaskýli í mælireit Veðurstofunnar við Bústaðaveg. Myndin er tekin 15. september 2010. Ljósmynd: Jón Gunnar Egilsson.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,9 stig og hefur aðeins einu sinni verið marktækt hærri. Það var 2003. Tvisvar sinnum, 1939 og 1941, hefur hitinn verið jafnhár og nú. Árið telst því í 2. til 4. sæti hvað hlýindi varðar. Hiti hefur nú verið yfir meðallagi í Reykjavík 15 ár í röð, 1,6 stig að þessu sinni. Níu mánuðir voru ofan meðallags í Reykjavík en þrír undir því, janúar var hlýjastur að tiltölu en þá var hiti nærri 3 stig yfir meðallagi. Kaldast að tiltölu var í október en þá var hiti rúmum 0,5 stigum undir meðallaginu.

Í Stykkishólmi varð meðalhiti árins 5,4 stig, 1,8 stig yfir meðallagi. Árið er það næsthlýjasta síðan mælingar hófust í Stykkishólmi 1845, lítillega hlýrra varð 2003. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig og er 12. árið í röð þar sem hiti er yfir meðallagi. Árið er í 20. til 21. sæti hvað hlýindi varðar.

Hiti á Akureyri var 1,0 stigum yfir meðallagi, samfelldar mælingar ná aftur til 1882. Í Vestmannaeyjum varð árið það 3. til 4. hlýjasta frá upphafi mælinga (1877) og 1,4 stig yfir meðallagi. Árið 1946 var jafnhlýtt og nú og árin 1941 og 2003 sjónarmun hlýrri, munurinn þó vart marktækur. Um landið austanvert var hitinn ekki jafnhár, hiti víðast á bilinu 0,6 til 1,1 stig ofan meðallags. Hita og vik hans má sjá á fleiri stöðvum í töflu.

Tafla. Meðalhiti og hitavik á nokkrum veðurstöðvum. Röð talin frá hlýjasta ári.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 5,9 1,6 3 til 4 140
Stykkishólmur 5,4 1,8 2 165
Bolungarvík 4,7 1,7 4 114
Grímsey 3,9 0,8 6 137
Akureyri 4,3 1,0 20 til 21 129
Grímsstaðir 1,6 1,1 39 104
Egilsstaðir 3,5 0,6 25 61
Dalatangi 4,3 0,8 24 73
Teigarhorn 4,5 0,8 24 138
Höfn í Hornaf. 5,3 0,7
Fagurhólsmýri 5,7 1,1 8 til 9 113
Stórhöfði 6,2 1,4 3 til 4 133
Hveravellir 0,7 1,8 4 45
Eyrarbakki 5,3 1,2 12 til 13 115

Ársmeðalhitinn var hæstur í Surtsey, 7,09 stig, því næst kom Garðskagaviti með 6,86 stig og Vestmannaeyjabær með 6,70 stig. Taka skal fram að hitamælirinn á Garðskagavita hefur ekki verið borinn saman við aðra mæla nokkuð lengi. Lægstur var ársmeðalhitinn á Brúarjökli (845 m yfir sjávarmáli), -2,35 stig, en næstlægstur á Gagnheiði (949 m yfir sjávarmáli), -1,54 stig. Í byggð var ársmeðalhitinn lægstur á sjálfvirku stöðinni í Svartárkoti, 1,45 stig og 1,58 stig á mönnuðu stöðinni á Grímsstöðum á Fjöllum.

Hitavik í Reykjavík og á Akureyri 2010 miðað við 1961-1990
súlurit
Hitavik einstakra mánaða í Reykjavík og á Akureyri. Flestir mánuðir voru vel ofan meðaltals, sérstaklega á fyrrnefnda staðnum (bláar súlur). Tiltölulega svalur febrúar og einnig nóvember skera sig nokkuð úr, sérstaklega á Akureyri. September var tiltölulega hlýjastur á Akureyri.

Hámarks- og lágmarkshiti ársins

Hæsti hiti sem mældist á árinu var 24,9 stig. Það var á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. september. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist sama dag, 24,7 stig á Mánarbakka á Tjörnesi. Óvenjulegt er að landshámark ársins mælist í september og er aðeins vitað um það þrisvar áður, 1877, 1915 og 1981.

Lægsti hiti sem mældist á árinu var -28,6 stig við Mývatn þann 22. desember. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist 23. desember á Grímsstöðum á Fjöllum, -26,2 stig.

Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 21,2 stig þann 17. júlí. Hæsti hiti á Akureyri var 23,6 stig og mældist í hitabylgjunni 4. september.

Lægsti hiti ársins í Reykjavík mældist -10.8 stig þann 23. desember, daginn áður mældist lægsti hiti ársins á Akureyri, -17,1 stig.

Úrkoma

Úrkomu varð vart ...
Úrkomumælir í mælireit Veðurstofunnar við Bústaðaveg. Myndin er tekin 15. september 2010. Ljósmynd: Jón Gunnar Egilsson.

Árið var í flokki þeirra þurrustu á Suðvestur- og Vesturlandi. Í Reykjavík mældist ársúrkoman aðeins 592,3 mm. Ársúrkoma hefur aðeins einu sinni mælst minni en þetta. Það var 1951 þegar ársúrkoman mældist 560,3 mm. Tvisvar hefur ársúrkoman orðið nærri því jafnlítil og nú, það var 1891 þegar hún mældist 595,0 mm og 1960 þegar hún mældist 596,6 mm. Næsta ár þar fyrir ofan er 1965 með 610,1 mm. Í Reykjavík eru samfelldar úrkomumælingar frá 1920 og frá 1884 til 1907, en árin þar á milli vantar. Á því tímabili voru öll árin 1915, 1916 og 1917 mjög þurr um landið vestanvert og trúlegt að að minnsta kosti eitt þeirra hafi verið þurrara í Reykjavík en árið í ár. Úrkoma í Reykjavík var undir meðallagi í öllum mánuðum nema janúar og september og ársúrkoman aðeins 74% meðalúrkomu.

Í Stykkishólmi hefur úrkoma verið mæld samfellt að heita má frá 1856. Árið 2010 er hið fimmta þurrasta þar frá upphafi. Þurrara var 1881, 1915, 1916 og 1998. Úrkoma árin 1878 og 1951 var þó nærri því jafn lítil. Í Stykkishólmi mældust aðeins 458,4 mm og eru það 65% meðalúrkomu.

Í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 1346,7 mm og eru það um 85% meðalúrkomu, sú minnsta frá 1995. Í Vestmannaeyjum hefur verið mælt frá 1880. Þótt ekki sé hægt að segja að árið hafi verið mjög úrkomusamt á Norðaustur- og Austurlandi hefur úrkoma á þeim slóðum verið yfir meðallagi. Um 6% yfir á Akureyri og um 16% á Dalatanga. Norðaustanlands var úrkoman mjög ójöfn því janúar og júní voru fádæma þurrir í þeim landshluta. Úrkoman á Akureyri mældist 521,3 mm og 1639,9 mm á Dalatanga.

Úrkoma í Reykjavík og á Akureyri árið 2010.
Hlutfall af mánaðarmeðalúrkomu 1961-1990.
súlurit
Úrkoma einstakra mánaða sem hlutfall af meðallagi áranna 1961-1990. Í Reykjavík (bláar súlur) var úrkoman oftast langt neðan meðaltals nema í janúar og september. Úrkomu á Akureyri var óvenju misskipt á mánuði (rauðar súlur). Nær alveg úrkomulaust var í janúar og júní en tvöföld meðalúrkoma féll í febrúar. Einnig var úrkoma í ágúst og nóvember mikil á Akureyri.

Mesta sólarhringsúrkoma

Mesta sólarhringsúrkoma ársins mældist í Kvískerjum í Öræfum þann 26. september, 179,4 mm. Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist í Grundarfirði þann 5. mars, 170,6 mm. Mesta úrkoma á einni klukkustund mældist í Kvískerjum þann 21. janúar, 20,6 mm.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins í Reykjavík mældist 21,2 mm þann 27. september. Mesta sólarhringsúrkoma á Akureyri mældist 25,5 mm. Það var þann 13. nóvember.

Úrkomudagafjöldi

Úrkomudagar voru mun færri um landið vestanvert en í meðalári. Séu þeir dagar taldir þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru þeir 109 í Reykjavík, hvorki meira né minna en 39 dögum færri en í meðalári. Miðað við sama úrkomumagn vantaði 40 daga upp á meðaltalið í Stykkishólmi, en 26 í Vestmannaeyjum.

Fyrir norðan og austan voru úrkomudagar einnig færri en í meðalári þótt minna vantaði upp á en syðra og vestra, 11 færri á Akureyri og 10 á Dalatanga.

Snjór

Snjór var með minnsta móti á Suður- og Vesturlandi og alhvítir dagar í Reykjavík ekki nema 16, 39 dögum færri en í meðalári. Svo fáir hafa alhvítir dagar aldrei verið í Reykjavík frá upphafi snjóhuluathugana þar 1921. Á Akureyri var fjöldi alhvítra daga 14 dögum undir meðallagi en þó voru hvítu dagarnir þar fleiri en flest undanfarin ár. Þar var óvenjusnjóþungt í nóvember.

Mun snjóa í vetur?
Snjómælistikur í mælireit Veðurstofunnar við Bústaðaveg. Myndin er tekin 15. september 2010. Ljósmynd: Jón Gunnar Egilsson.

Sólskinsstundir

Í Reykjavík mældust sólskinsstundir 1641,3 eða 257 stundum fleiri en í meðalári. Fleiri sólskinstundir hafa aðeins mælst fimm sinnum áður í Reykjavík, en samfelldar mælingar hófust 1923. Það var árin 1924, 1927, 1931, 1966 og 2005. Meðalskýjahula í Reykjavík hefur ekki verið minni en nú frá árinu 1979, en litlu munar.

Sólskinsstundir á Akureyri voru um 50 fleiri heldur en í meðalári, en langt frá meti.

Loftþrýstingur

Ársmeðalloftþrýstingur hefur ekki orðið hærri í Reykjavík frá því að mælingar hófust 1822. Sama á við um aðrar stöðvar á landinu þar sem mælingar hafa staðið skemur. Þrýstingur var lítillega hærri vestanlands heldur en austan í fyrsta skipti frá 1995 og þrýstimunur milli Norður- og Suðurlands ívið meiri en að meðaltali (þrýstingur er að jafnaði hærri norðanlands en sunnan).

Hæsti loftþrýstingur á mannaðri stöð mældist í Bolungarvík 27. nóvember kl.3, 1041,9 hPa, en lægstur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 7. nóvember 2010, 959,9 hPa.

Vindhraði

Meðalvindhraði ársins yfir landið í heild hefur ekki orðið jafnlítill frá 1965 en nokkur óvissa er þó í þessum samanburði. Illviðradagar voru einnig áberandi færri en í meðalári. Það sem af er þessari öld hafa illviðri verið fátíðari en oftast var á síðari hluta þeirrar tuttugustu.

Helstu illviðri á nýliðnu ári gerði 24. til 25. janúar (af austri), 22. til 23. mars (af austri og norðaustri) og 17. desember (af norðri). Nokkurt foktjón varð í þessum veðrum en hvergi samt verulegt. Norðan- og austanáttir voru ívið algengari en í meðalári.

Mesti viðurkenndi 10-mínútna vindhraði ársins mældist á Skálafelli þann 26. febrúar, 45,6 m/s. Mesta viðurkennda hviða ársins mældist við Miðfitjarhól í Skarðsheiði 25. janúar 71,8 m/s.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Kalt var í upphafi janúarmánaðar en síðan voru lengst af óvenjuleg hlýindi. Sérlega hægviðrasamt var í mánuðinum. Hlýindin síðari hluta mánaðarins voru óvenjuleg að því leyti að hiti fór ekki niður fyrir frostmark í Reykjavík 21 dag í röð. Þetta er lengsta samfellda janúarhláka í Reykjavík allt frá því að samfelldar lágmarksmælingar hófust 1920. Úrkoma var óvenjulítil um landið norðanvert, allt frá norðanverðum Vestfjörðum og austur um til Vopnafjarðar. Janúarþurrkmet voru á sett fjölmörgum stöðvum, þar á meðal á Akureyri.

Hlustað á vatnsföllin
Vilhjálmur S. Kjartansson við vatnamælingar í Þaula við Hólmsá 24. febrúar 2010. Ljósmynd: Ólafur Freyr Gíslason.

Fyrstu tvær vikur febrúar máttu heita einn samfelldur góðviðriskafli. Síðari hluta mánaðarins var vetrartíð, talsvert snjóaði, fyrst um landið norðaustan- og austanvert, en allra síðustu dagana einnig á Suður- og Vesturlandi og urðu þá nokkrar truflanir á samgöngum. Mánuðurinn var mjög þurrviðrasamur á Suður- og Vesturlandi.

Í mars var hlýtt í veðri lengst af og hiti ofan meðallags um land allt. Síðustu 5 dagana var kalt í veðri og mjög kalt var inn til landsins í upphafi mánaðar. Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi þann 20.

Hiti aprílmánaðar var nærri meðallagi. Kaldast að tiltölu var austanlands. Fyrstu daga mánaðarins var talsverð ófærð norðaustanlands og voru 50 ferðamenn á Víkurskarði fluttir með björgunarsveitum til Akureyrar aðfaranótt hins 3. Sömuleiðis þurfti að bjarga ferðamönnum í villu á Fimmvörðuhálsi. Tveir urðu úti á hálendinu norðan við Þórsmörk um páskana, einn bjargaðist naumlega. Foktjón varð að kvöldi þess 10. á bænum Krossum á Árskógsströnd í miklu sunnan- og suðvestanroki. Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi lauk þann 12. en gos hófst í Eyjafjallajökli seint að kvöldi næsta dags, þann 13. eða aðfaranótt þess 14.

Maímánuður var hlýr, hægviðrasamur og fremur þurr. Kuldar voru þó til ama á norðaustur- og austurhluta landsins um tíma og einnig í útsveitum norðanlands og á Ströndum. Eldgosinu í Eyjafjallajökli lauk að mestu þann 23. eða 24.

Júní var óvenjuhlýr um mikinn hluta landsins og hlýjasti júnímánuður frá upphafi mælinga sums staðar vestanlands, m.a. í Stykkishólmi þar sem mælt hefur verið frá 1845 og í Reykjavík þar sem mælt hefur verið frá 1871. Mjög þurrt var víðast hvar á landinu og háðu þurrkar gróðri. Sums staðar var kvartað undan vatnsskorti.

Milt í þokunni
Fontur á Langanesi, veðurstöð og viti, í þoku hinn 14. júlí 2010. Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen.

Hlýtt var í júlí, suðvestanlands var hann einn af hlýjustu mánuðum sem vitað er um en í öðrum landshlutum var heldur svalara að tiltölu. Mjög þurrt var sums staðar um landið norðvestanvert en fremur úrkomusamt á Austurlandi. Þurrkanna gætti í ám og vatnsbólum þannig að til vandræða varð á stöku stað. Sunnanlands gerði talsverð þrumuveður í kringum þann 20. Óvenjudjúpar lægðir, miðað við árstíma, voru á sveimi suður af landinu framan af mánuðinum.

Hlýtt var í ágúst. Um vestan- og suðvestanvert landið var hann einn af fimm hlýjustu mánuðum frá upphafi mælinga en í öðrum landshlutum var heldur svalara að tiltölu, svalast á Austfjörðum. Þurrt var um landið norðvestanvert, allt suður á höfuðborgarsvæðið og norður í Húnavatnssýslur. Þurrkanna gætti í ám og vatnsbólum þannig að til vandræða varð á stöku stað.

September var óvenju hlýr, meðal hinna allra hlýjustu um mestallt land. Svalast að tiltölu var við ströndina á Austfjörðum og austast á Suðurlandi. Sérstaklega hlýtt var í fyrstu vikunni þegar hitamet voru slegin á fjölmörgum veðurstöðvum.

Sumarið 2010 var hið hlýjasta sem vitað er um síðan mælingar hófust víða um suðvestan- og vestanvert landið. Í Reykjavík voru sumurin 1939 og 1941 nánast jafnhlý og þetta. Sumarið varð hið hlýjasta bæði í Stykkishólmi (mælt frá 1845) og í Vestmannaeyjum (mælt frá 1877). Á báðum stöðum er sumarið 1939 það næsthlýjasta, aðeins skeikar þó 0,1 stigi.

Hlýtt var í október. Hlýindin voru óvenjuleg framan af mánuðinum, en síðan kólnaði og var hiti síðari hlutann nærri meðallagi og suma daga undir því. Í nóvember var kalt með köflum og fyrir miðjan mánuð varð óvenju snjóþungt víða um landið norðaustanvert. Á Suðvestur- og Vesturlandi var mánuðurinn með þurrara móti og þar var snjólétt. Tíð var fremur hagstæð í desember, einkum um sunnan- og vestanvert landið. Allmikið norðanveður gerði þann 17. og varð þá minniháttar foktjón víða um land.

Mánaðarmeðalhiti mannaðra stöðva 2010 (textaskjal).

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2010 (textaskjal).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica