Greinar
hnötturinn skyggður að hálfu nærri Íslandi
Dagur og nótt á jörðinni 21. desember 2010.

Vetrarsólhvörf 2010

Þórður Arason 21.12.2010

Vetrarsólhvörf, eða vetrarsólstöður, eru þegar sól er lægst á lofti á norðurhveli jarðar og dagurinn stystur.

Vetrarsólhvörf eru ýmist 21. eða 22. desember eftir því hvernig stendur á hlaupári. Sólhvörfin miðast við þann tímapunkt þegar norðurpóll jarðar snýr hvað lengst frá sólinni. Upp úr þessu fara dagarnir að lengjast.

Þótt dagurinn sé stystur á vetrarsólhvörfum, er síðbúnasta sólarupprás ársins örlítið síðar (um 25. desember) og snemmbærasta sólarlagið aðeins fyrr (um 18. desember). Um hálfum mánuði eftir vetrarsólhvörf (3.-4. janúar) er jörðin á sporbaug sínum næst sólu.

Vetrarsólhvörf 2010 eru 21. desember kl. 23:38. Tíminn milli sólarupprásar og sólarlags í Reykjavík 21. desember 2010, kl. 11:21 og 15:30, er fjórar klukkustundir og níu mínútur. Á hádegi, kl. 13:26, er sólin einungis í 2,7° hæð yfir sjónbaug í Reykjavík.

Eins og vitað er varð almyrkvi á tungli á áttunda og níunda tímanum einmitt nú á þessum stysta degi ársins en það gerist afar sjaldan að þetta tvennt fari saman. Á Wikipedia má skoða lista yfir almyrkva á tungli fyrr á öldum.

Skoða má sólargang á Íslandi í dag hér á vefnum en lýsingu á tunglmyrkvanum má lesa á Stjörnufræðivefnum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica