Greinar
Vifilsstadir_t13
Gömul mynd frá Vífilsstöðum.

Vífilsstaðir

Veðurstöð 1910 til 1923

Trausti Jónsson 7.9.2010

Nú eru eitt hundrað ár liðin frá stofnun Vífilsstaðaspítala. Þá má nota tækifærið til að rifja upp að þar var veðurathugunarstöð á árunum 1910 til 1923. Fyrstu sólskinsstundamælingar á landinu voru gerðar á Víflisstöðum.

Fyrsta heimild um stöðina er bréf frá Dan LaCour, starfsmanni dönsku veðurstofunnar, en hann var hér í eftirlitsferð sumarið 1909. LaCour varð síðar veðurstofustjóri í Danmörku og er þekkt nafn í vísindaheiminum. Bréfið er skrifað á bréfsefni Sameinaða danska gufuskipafélagsins (Det forenede Dampskibs-Selskab) og dagsett 15. ágúst. Í bréfinu koma fram ákveðnar áhyggjur af framhaldi veðurathugana í Reykjavík. LaCour hafði fyrst þá hugmynd að koma á fót athugunum í Viðey, en leist svo ekki á það. Landlæknir hefði aftur á móti áhuga á að koma upp veðurathugunarstöð á Vífilsstöðum, væri það einnig í þágu sjúkrahússins. Hugmyndin var að byggja skýli á þaki spítalahússins - hvort það var síðan gert er óvíst.

Athuganir og athugunarmenn

Athuganir hófust síðan á stöðinni 18. desember 1910. Farið var af stað af metnaði. Fjölbreytilegar mælingar voru gerðar, hiti, votur hiti, hámarkshiti og lágmarkshiti voru mældir. Úrkomumælingar voru gerðar, auk þess sem sólskinsmælingar hófust snemma árs 1911. Svo virðist sem Sigurður Magnússon yfirlæknir hafi verið skráður fyrir athugunum allt til enda, en hann kvittar samt ekki undir athugunarblöðin. Það gera:

  • Snæbjörn Jónsson 1910 til 1911
  • Sveinn Guðmundsson 1911 til 1916
  • Magnús Ingibergsson 1916 til 1919
  • Gunnar Þorsteinsson 1921

Magnús kvittar einnig undir 1920 en sú kvittun er gerð með annarri rithönd. Engin kvittar fyrir megnið af árinu 1919.

Hitamælingarnar virðast sæmilega gerðar og trúverðugar lengst af. Þurrt er á Vífilsstöðum miðað við það sem síðar var, sérstaklega árin 1915 til 1917. Þessi ár voru meðal þeirra þurrustu á landinu í heild, en að ársúrkoma á Vífilsstöðum mælist ekki nema 441 mm (1916) er á mörkum þess líklega. Ekki skal það þó útilokað. Skýringin á þessu gæti verið sú að úrkomumælingarnar hafi verið gerðar á þaki hússins. Hafi svo verið hefur úrkoma mælst verr en annars. Ef til vill má sjá mælitæki á einhverjum þeim myndum sem teknar voru við spítalann eða í nágrenni hans.

Sólskinsstundamælir
glerkúla í málmhlíf, svartur næturhiminn að baki
Mælir á húsi Veðurstofunnar í október 2008. Næturhiminn í bakgrunni. Ljósm. Guðrún Pálsdóttir.

Sólskinsstundamælingarnar voru ekki jafn vandaðar og æskilegt hefði verið. Oft láðist að skipta um blað í mælinum og daga vantar í mælingarnar. Þær eru samt mjög verðmætar því engar aðrar sólskinsmælingar voru gerðar á landinu á þessum tíma. Séu mælingarnar teknar alveg bókstaflega er fremur sólarlítið lengst af þessi árin. Eina árið sem nær langtímameðaltali er 1916, en það er einnig það þurrasta eins og áður er fram komið.

Athygli vekur hvað lítið er um veður á staðnum, langoftast bjart. Úrkoma er sjaldan á athugunartímum. Í raun og veru er lítið um þoku og slæmt skyggni á Vífilsstöðum þannig að líklegt er að athugunarmenn segi veður bjart sé skyggni gott og úrkoma lítil. En með því að blanda saman mælingum og síðan dagbókum manna í Reykjavík um veður á sama tíma má örugglega fá góða mynd af veðurlagi á svæðinu á þessum árum.

Á þeim tíma sem athugað var á Vífilsstöðum var veðurskeytastöð rekin við símstöðina í Reykjavík. Þeim mælingum ber ekki illa saman við Vífilsstaðamælingarnar en hafa þó ekki enn verið bornar saman frá degi til dags. Vífilsstaðastöðin gamla fékk hægan dauðdaga á árunum 1920 til 1923. Úrkomumælingar hófust síðan aftur 1963 og stóðu til 1999.

Mælingar á Vífilsstöðum - töflur

Mánaðarmeðalhiti (°C)

ár jan feb mar apr maí jún júl ágú sep okt nóv des ár
1911 -0,7 -2,8 0,2 1,6 6,3 9,0 9,0 9,9 5,7 4,0 0,7 1,1 3,68
1912 1,7 -3,0 -0,3 3,5 7,5 10,5 10,5 8,7 8,5 4,1 -0,5 -2,2 4,08
1913 -0,1 0,9 -2,2 3,0 6,3 8,7 10,0 9,4 7,1 3,2 -0,5 -1,0 3,74
1914 1,4 -3,5 -3,4 0,4 2,8 7,7 10,9 11,3 6,7 5,2 -1,4 -0,3 3,15
1915 -0,7 -3,0 -2,9 2,0 5,8 9,2 10,5 11,0 8,5 7,6 1,7 -2,2 3,96
1916 -0,4 -1,6 -1,8 0,1 5,6 9,4 11,1 10,8 7,7 4,0 1,2 -4,9 3,43
1917 0,4 0,8 -0,2 -1,4 5,5 8,5 12,1 11,3 5,5 -0,6 -1,5 -3,1 3,11
1918 -9,2 -1,2 1,2 1,9 7,5 8,4 9,7* 9,7* 5,5 2,5 1,1* -1,9 2,93
1919 -1,7 -2,4 -4,0 1,4 6,4* 8,7 11,8 10,1 6,2* 3,5 1,3 -4,9 3,05
1920 -4,1 -3,8 -1,8 -0,2 4,8 10,1 10,1 10,0* 7,7* 6,4* 2,2* -0,6* 3,39
1921 -1,6* 2,3 -2,2 2,1 4,4 7,7 9,8 8,6 5,3 2,0 1,4 -0,4 3,26

* : Vantar í mælingar, fyllt í eyður með hjálp mælinga annars staðar.

Árstíðasveifla er í hitamun Vífilsstaða og Reykjavíkur á sama tíma og er kaldara á fyrrnefnda staðnum í öllum mánuðum. Minnstu munar á stöðvunum á sumrin, en mestu á vetrum, er það í samræmi við væntingar. Síðari tíma mælingar á Hólmi ofan Reykjavíkur og í Reykjavík sýna sama mynstur, kælingu vegna nálægðar við sjó á sumrin, en á vetrum vermir sjórinn.

Mánaðarúrkoma (mm)

ár jan feb mar apr maí jún júl ágú sep okt nóv des ár
1911 175 69 62 35 127 25 36 65 74 63 90 85 906
1912 77 31 41 117 46 57 45 43 101 231 152 57 998
1913 152 139 86 71 36 53 100 49 58 24 83 112 963
1914 101 48 41 60 64 56 30 48 98 138 60 44 788
1915 44 41 15 36 19 28 12 53 45 131 92 44 560
1916 96 50 3 12 13 3 28 47 59 70 49 11 441
1917 96 67 59 29 15 18 46 36 80 43 23 58 570
1918 28 143 167 67 89 70 45 73
1919 83 17 111 56 54 69 48 11

Mikil sveifla er í úrkomumagni þessi árin. Úrkoman síðustu þrjú (heilu) árin er aðeins um 55% af úrkomu fyrstu þriggja áranna. Það er á mörkum þess trúverðuga. Úrkoma sömu þurru áranna, 1915 til 1917, í Stykkishólmi er 75% af því sem mældist á árunum 1911 til 1913, í Vestmannaeyjum er þetta hlutfall um 90%.

Sólskinsstundafjöldi (klst.)

ár jan feb mar apr maí jún júl ágú sep okt nóv des samt
1911 56 86 123 146 179 174 160 75 52 42 3
1912 11 78 152 123 139 164 78 92 39 46
1913   8 93 59 166 104 66 78 71 71      
1914 4 61 118 123 148 61 126 121 72 57 33 2 926
1915 18 59 134 100 193 157 243 130 72 17 41 11 1176
1916 2 48 145 168 247 232 135 125 69 55 39 8 1272
1917 17 30 99 107 153 164 153 230 140 51 22 5 1169
1918 28 35 76 127 154 146 171 124 162 68 28 10 1129
1919 21 45 129 124 122 139 96 132 61 96 45 5 1015
1920 7 42 85 154 119 131 149            
1921 1 12 89 82           60 23 2  
1922 5 22 58 180 143 177 196 131 96        

 

Árið 1914 er það sólarminnsta sem mælst hefur í Reykjavík og nágrenni. Litlu fleiri stundir mældust árið 1983 (943 klst). Hið fræga rigningasumar 1913 var þó ekki sólarminna en 1914, mælingar vantar þar þrjá mánuði. Reyndar eru það vetrarmánuðir og hlutur þeirra í árssummunni er að jafnaði lítill. Þannig að trúlega hafa sólskinsstundir verið enn færri 1913 heldur en 1914.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica