Greinar
hitamælaskýli
Íslenskt hitamælaskýli í mælireit Veðurstofunnar við Bústaðaveg.

Íslenska hitamælaskýlið

Er ekki eins og algengast er

Trausti Jónsson 1.9.2010

Íslenska hitamælaskýlið er öðruvísi en þau sem algengust eru í heiminum, það er til dæmis talsvert lokaðra. Tiltölulega opin rimlaskýli eru algengust, rimlar á skýlinu eru þá skásettir þannig að beinnar geislunar gæti ekki við mælana. Ástæða hönnunar íslenska skýlisins er sú að opnari skýli fyllast frekar af snjó og bleytu í hvassviðri eins og algeng eru hér á landi.

Ítarlegar samanburðarmælingar voru gerðar á íslensku og ensku skýli á Hveravöllum og sýndu þær að örlítið kaldara er yfir daginn að sumarlagi í íslenska skýlinu heldur en því enska. Munurinn er þá um 0,1°C (sjá Flosa Hrafn og félaga, 2003).

Á Hveravöllum
hveravellir111
Frá Hveravöllum á Kili snemma vetrar 1967-1968. Hulda Hermóðsdóttir les á jarðvegshitamæli. Íslenska hitamælaskýlið er lengst til vinstri en breska skýlið er bak við Huldu. Ljósmynd: Kristján Hjálmarsson.

Fríttstandandi skýli voru tekin í notkun hér á landi á árunum 1946 til 1964. Áður voru veggskýli í notkun. Samanburðarmælingar voru gerðar á nokkrum stöðvum þegar skipt var um skýli.

Veggskýli
Hitammælaskýli á Teigarhorni.
Veggskýli á Teigarhorni í Berufirði sumarið 1959. Ljósm.: Þórir Sigurðsson.

Niðurstöður voru á ýmsa vegu, eftir staðháttum, en yfirleitt var þó heldur hlýrra í veggskýlunum yfir hádaginn heldur en í þeim fríttstandandi (sjá ársyfirlit Veðráttunnar - efnisyfirlit 1924 til 1967).

Meginástæða þess að skipt var um skýlisgerð var sú að erfiðara var að skapa staðalaðstæður fyrir gömlu skýlin, frekar en að þau hafi verið vond í sjálfu sér. Á árum áður voru hús til dæmis mun minna hituð en nú er eða jafnvel alls ekki og varmauppspretta í húsunum minni en nú er. Þetta hefur breyst.

Á allra fyrstu árum veðurathugana hér á landi voru hitamælar jafnvel hafðir innan við opinn norðurglugga á húsum án þess að það kæmi mjög að sök. Það væri alls ekki hægt nú á tímum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica