Greinar
Reykir í Fnjóskadal
Reykir í Fnjóskadal.

Tuttugu stiga syrpur

Samfelldir kaflar þegar hiti fer í 20 stig eða meira á landinu

Trausti Jónsson 9.6.2010

Á sumrin koma stöku sinnum kaflar þar sem hiti nær 20 stigum einhvers staðar á landinu marga daga í röð. Hversu langar hafa slíkar syrpur orðið?

Daglegur hámarkshiti er aðgengilegur á skeytastöðvum frá 1949 og frá veðurfarsstöðvum frá og með 1961. Almennt aukast líkur á 20 stiga hita með fjölgun stöðva, en er auðvitað einnig háð dreifingu þeirra. Veðurfarsstöðvarnar 1949 til 1960, sem ekki eru i skránni, voru tiltölulega fleiri inn til landsins en skeytastöðvarnar. Metsyrpur eru því ólíklegri á þessu tímabili heldur en síðar. Á síðustu árum hefur skeytastöðvum fækkað talsvert, en svo vill til að fækkunin er meiri við sjávarsíðuna heldur en inn til landsins. Fækkunin hefur þess vegna ekki teljandi rýrt 20 stiga syrpur, en frekari fækkun mun væntanlega gera það.

Á mönnuðum stöðvum eru hámarksmælingar gerðar tvisvar á dag, kl. 9 að morgni og kl. 18 (skeytastöðvar) eða kl. 21 (veðurfarsstöðvar) að kvöldi. Það sem kallast hámarkshiti dagsins er hærri talan af mælingum kl. 9 og 18. Ef kaldur dagur kemur á eftir hlýju síðegi eða kvöldi gætir hlýindanna einnig í hámarksmælingunni kl. 9 morguninn eftir, en hún tekur til tímabilsins frá 18 (eða 21) daginn áður til aflestursins kl. 9. Hlýindin daginn áður geta því lekið milli daga. Þetta þýðir að í skrá yfir sólarhringshámörk eru tuttugu stiga dagar ívið fleiri en ættu að vera. Þetta kallast tvöföld hámörk, hafa verður þau í huga.

Til að losna við þetta vandamál eru hér einnig taldar syrpur þegar hiti hefur verið 20 stig eða meira í hámarksaflestri kl. 18 og 21, án tillits til aflesturs kl. 9. Í þessum lista vantar örfá tilvik þegar hiti dags hefur orðið hæstur eftir kl. 18, það kemur stundum fyrir en er sjaldgæft.

Sjálfvirkum stöðvum hefur mjög fjölgað, mest var fjölgunin á árunum 1995 til 1998 en hefur haldið áfram. Fyrstu árin voru sjálfvirku stöðvarnar flestar til fjalla eða úti á eyjum og við sjóinn. Slík dreifing er ekki vænleg fyrir 20-stiga syrpur. Eftir 1998 er landfræðileg dreifing jafnari og nú er svo komið að stöðvafjöldinn bætir heldur í lengd 20 stiga syrpa. Á sjálfvirku stöðvunum skiptir milli sólarhringa kl. 24. Tvöföld hámörk eru þar mjög fá.

Hér að neðan eru því þrír listar:

  1. Lengstu 20-stiga syrpurnar í sólarhringsskránni
  2. Lengstu 20-stiga syrpurnar í skránni frá kl. 18 og 21
  3. Lengstu 20 stiga syrpur á sjálfvirkum stöðvum

Tafla 1. Lengstu 20-stiga syrpur á mönnuðum stöðvum 1949-2009, dagsetningin á við síðasta dag syrpunnar.

ár mán dagur lengd
1990 7 29 18
1997 7 25 16
1991 7 10 15
2008 8 2 15
1963 7 9 13
1995 8 5 13
1968 8 11 12
1989 7 24 12
2005 7 28 11
1984 7 6 10
2000 7 30 10
2009 7 6 10


Lengsta syrpan í sólarhringsskránni er 18 dagar, síðasti dagur þeirrar syrpu var 29. júlí 1990.

Tafla 2. Lengstu 20-stiga syrpur á mönnuðum stöðvum 1949-2009, dagsetningin á við síðasta dag syrpunnar. Hér er eingöngu miðað við hámörk sem lesin eru kl. 18 eða 21.

ár mán dagur lengd
1990 7 28 15
2008 8 2 15
1991 7 9 14
1963 7 8 12
1968 8 11 12
1989 7 24 12
2005 7 28 11
1997 7 25 10
2009 7 6 10

Lengsta syrpan í skránni fyrir kl. 18 og 21 er á sama tíma og lengsta syrpa sólarhringsskrárinnar, en lýkur daginn áður og er 15 dagar að lengd. Jafnlangri syrpu lauk 2. ágúst 2008, sú syrpa er einnig 15 dagar í sólarhringsskránni.

Tafla 3. Lengstu 20-stiga syrpur á sjálfvirkum stöðvum. Skipt er milli sólarhringa kl. 24.

ár mán dagur lengd
2008 8 2 15
2004 8 15 14
2005 7 31 14
2007 7 21 14
1999 8 6 13
2006 8 7 12
2009 7 6 11
2002 6 13 10

Syrpan, sem lauk 2. ágúst 2008, er einnig sú lengsta á sjálfvirku stöðvunum og er jafnlöng og í báðum hinum skránum, 15 dagar. Eins og sjá má eru þrjár af syrpum sjálfvirku stöðvanna einnig á hinum listunum (1., 3., og 7.), en sex eru það ekki. Hér má sjá stöðvaþéttinguna skila fleiri syrpum.

Átta daga syrpa, sem endaði 27. maí 1987, er sú lengsta í maímánuði og níu daga syrpa, sem endaði 16. júní 1988, er sú lengsta sem endar í júní, nokkrar lengri syrpur byrja í júní en endast fram í júli.

Sjaldgæft er í september að hiti á landinu sé marga daga í röð 20 stig eða meira, nefna má þó 8. til 11. september 1952, bæði í 18/21-skránni og sólarhringsskránni. Í skrá sjálfvirku stöðvanna má nefna að sjö daga syrpu lauk 2. september 1998 og hiti náði 20 stigum alla dagana 12. til 15. september 2002 og 1. til 4. september 2003.

Langoftast er hæsti hiti dagsins á landinu að flytjast milli stöðva í hverri syrpu fyrir sig. Mjög sjaldgæft er að hiti sé yfir 20 stig á hverjum degi í meir en viku á hverri stöð.

Lengsta syrpan á mannaðri stöð á því tímabili sem hér er til umfjöllunar eru 10 dagar í Reykjahlíð við Mývatn 23. júlí til 1. ágúst 2008 og einnig jafnlöng syrpa á Grímsstöðum á Fjöllum 30. júní til 9. júlí 1991. Á síðarnefnda staðnum er hins vegar eitt tvöfalt hámark.

Lengsta syrpan sem vitað er um á sjálfvirkri stöð stóð frá 23. júlí til 2. ágúst 2008 á Reykjum í Fnjóskadal. Syrpan var aðeins einum degi styttri á Neslandatanga og í Bjarnarflagi við Mývatn, á þeim stöðvum náði hiti ekki 20 stigum 2. ágúst en hiti fór þá í 22,4 stig á Reykjum.

Ekki er útilokað að fleiri syrpur, 10 daga langar eða lengri, leynist í eldri gögnum frá stöðvum eins og Hallormsstað, Grímsstöðum á Fjöllum eða við Mývatn.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica