Greinar
Mistur, Snæfell
Mistur yfir Snæfelli.

Mistur

Fylgjumst með ásýnd himins

Trausti Jónsson 24.3.2010

Mistur samanstendur af þurrum og örsmáum rykögnum sem eru ósýnilegar hver fyrir sig, en draga þó úr skyggni, sveipa landið hulu og deyfa litbrigði þess. Mistrið er bláleitt séð móti dökkum bakgrunni (fjallablámi) en gulleitt ef það ber við björt ský, jökla eða sólina. Þetta er greinilegasti munurinn á mistri og þokumóðu, þokumóða er ávallt gráleit.

Mistur hér á landi er af ýmsum toga. Stundum er það upprunnið á heimaslóð sem moldrok úr söndum landsins og er sandgult eða grábrúnleitt verði það mjög þétt. Hingað berst einnig mistur frá Evrópu, það er að jafnaði bláleitara en það innlenda. Er það ýmist iðnaðar- eða gróðureldamistur. Dæmi eru einnig hérlendis um skógareldamistur sem barst frá Ameríku. Saltmistur liggur oft yfir landinu í miklum og þurrum vestanstormum og jafnvel í nokkra daga eftir að þeim slotar. Það er hvítleitt.

Eldmistur

Mistur myndast einnig í eldgosum og var það sérstaklega útbreitt í Kröflueldum í júlí 1980 og náði þá um mestallt land því vindur var hægur. Var ótrúlegt hversu mikið mistrið var frá þessu litla gosi. Sá sem þetta skrifar man óljóst eftir mistri samfara Öskjugosinu 1961 en ekki frá öðrum gosum. Misturshámark kom fram í veðurathugunum samtímis báðum gosunum.

Þegar eldur er uppi er vel þess virði að fylgjast með litbrigðum himinsins, jafnvel þó um lítil gos sé að ræða. Stórgos erlendis hafa oft sýnt merki á himni hér á landi, síðast sumarið 2009.

Fréttir frá Lambhúsum við Bessastaði

Frægasta mistur Íslandssögunnar er tvímælalaust móðan í móðuharðindunum. Hún kemur vel fram í veðurathugunum Rasmusar Lievog stjörnuathugunarmeistara í Lambhúsum við Bessastaði. Taflan sýnir fjölda athugana þar sem mistur er „aðalveður“ í athugunum hans. Greinilega sést hversu mjög árið 1783 greinir sig frá öðrum árum á því tímabili athugana sem aðgengilegar eru. Á árunum 1779 til 1782 athugaði Lievog þrisvar á dag, en síðan fjórum sinnum. Mistrið frá Skaftáreldum náði um norðurhvel allt og líkur eru að því leiddar að þess hafi einnig gætt á suðurhveli haustið 1784.

Fjöldi mistursathugana í Lambhúsum á Bessastöðum 1779 til 1789

ár jan feb mar apr maí jún júl ágú sep okt nóv des
1779 - - - - - - - - 0 0 0 0
1780 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0
1781 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0
1782 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0
1783 0 0 0 0 0 23 39 41 10 2 12 0
1784 0 0 0 0 0 0 2 2 1 0 0 0
1785 0 0 0 1 3 1 - - - - - -
1789 3 0 0 0 8 6 1 5 0 1 0 0

Heimskautamistur

Ekki er ljóst hvort ástæða er til að greina það mengunarmistur sem við þekkjum og berst frá Evrópu frá því sem kallað er heimskautamistur. Það síðarnefnda hefur hlotið vaxandi athygli á síðustu árum eftir því sem rannsóknir á norðurslóðum hafa aukist. Hvoru tveggja mistrið inniheldur efnamengun frá þungaiðnaði og berst hún inn í lífkeðjuna og safnast þar fyrir. Sá er þó munur á að hið vanabundna stendur aðeins við meðan vindáttir blása frá upprunaslóðum mengunarinnar en hins vegar virðist sem mistur safnist upp á norðurslóðum á vetrum og nái hámarki í mars eða apríl. Hér á landi er oft óljóst mistur í lofti á þeim tíma í norðlægum áttum. Hingað til hefur það ekki verið tengt mengun sérstaklega enda hvítara en venjubundin mengunarmóða. Þessarar móðu gætti mjög vorið 2008 og var eins og himinninn ætlaði aldrei að ná fullum bláma.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica