Greinar
Á Fimmvörðuhálsi
Á leið niður af Fimmvörðuhálsi 22. mars 2010.

Helstu páskahret

Yfirlit 1846 til 2009

Trausti Jónsson 24.3.2010

Vorhret eru algeng á Íslandi. Á sama tíma eru kirkjuhátíðir margar, merkisdagar aðrir nokkrir og sömuleiðis lifnar lífríkið á þessum tíma eftir að hafa legið í dvala veturlangt. Í almennri trú greinir á um fjölda hretanna en oft voru þau talin að minnsta kosti sjö: Páskahret, hrafnahret (hrafnagusa), sumarmálahret, kóngsbænadagskast (föstudagur í fjórðu viku eftir páska), krossmessukast (3. maí eða 14. maí), hvítasunnukast og fardagahret (um 3. til 5. júní). Hrafnahretið átti að koma 9 nóttum fyrir sumar og féll oft saman við sumarmálahretið. Einnig er minnst á uppstigningardagshret og sérstakt bænadagahret. Sum hretanna geta fallið saman. Árni Björnsson lætur þess getið í Sögu dagana að sumir hafi viljað hafa krossmessuna 14. maí en ekki þann 3. Dagarnir ellefu sem munar eru leifar frá því að skipt var um tímatalsstíl árið 1700, en þá voru 11 dagar felldir niður úr almanakinu. Segja má að málið hafi varðað kostnaðarbókhald og ársuppgjör þess tíma og skýrir Árni málið nánar. En þess verður vart í veðurbókhaldi að krossmessan sé talin 14. maí og hretið sem henni tilheyri þá dögunum þar um kring. Þetta er t.d. gert í grein um maíhretið 1955 (Ólafur Einar Ólafsson, 1956) sem birtist í tímariti veðurfræðinga Veðrinu en það má skoða á timarit.is.

Páskahret

Páskahátíðina ber ekki upp á sama dag á hverju ári. Á því tímabili sem hér er fjallað um hefur páskadagur fyrst orðið 23. mars (1856, 1913 og 2008), en síðast 25. apríl (1886 og 1942). Á þessum tíma er vorið komið á skrið, í Stykkishólmi er meðalhiti 25. apríl um þremur stigum hærri heldur en 23. mars. Hlýnunin er að vísu ekki jöfn þetta tímabil, að meðaltali hlýnar lítið frá 23. mars til 2. apríl en þá tekur hitinn stökk og hækkar um meir en 0,15 stig á dag. Hlýnun frá pálmasunnudegi til annars dags páska er að meðaltali um 0,3 stig.

Að jafnaði eru frost það algeng í lok mars að varla er hægt að tala um hret nema frostið sé óvenju mikið eða veður sé mjög hart og snjóasamt. Vik frá meðalhita minnka að jafnaði þegar vorar. Þannig minnkar meðalhitabreyting frá einum degi til annars úr um 2,5 stigum niður í 2,0 á þessu tímabili. Taka má eftir því að þetta er meir en tíföld undirliggjandi hækkun vegna vorkomunnar.

Dagar sem eru þremur stigum kaldari en í meðalári gera apríldaga að vetrardögum fram yfir sumardaginn fyrsta. Um miðjan maí verður hiti að vera meir en 6 stigum undir meðallagi til að breyta vordegi í vetrardag. Það gerðist t.d. í kringum þann 20. í illræmdum hretum 1887 og 1914 (hvoru tveggja hretin kennd við uppstigningardag). Á síðustu árum komust hret seint í maí 2006 og 2007 nærri vetrarástandi, síðara árið gerði meira að segja hvítt sunnanlands.

Sé meðalhitavik tímabilsins frá pálmasunnudegi til fimmtudags eftir páska reiknað kemur í ljós að annar páskadagur er að tiltölu kaldastur þessara daga. Hiti þann dag er að meðaltali 0,3 stigum undir meðallagi árstímans, næstkaldastur er svo páskadagurinn með vikið -0,2 stig. Hlýjastir að tiltölu eru skírdagur og fimmtudagurinn eftir páska, 0,4 stigum ofan meðaltals árstímans. Vikatölurnar hrökkva talsvert til frá degi til dags og munurinn telst ekki marktækur.

Vikan fyrir páskadag nefnist dymbilvika, sumir segja kyrravika, en vikan eftir páskadag kallast páskavika. Skírdagur og föstudagurinn langi nefnast bænadagar.

Köldustu og hlýjustu dagar

Þann 13. apríl 1884 mældist hiti klukkan 9 að morgni páskadags 9,0 stig í Stykkishólmi. Þetta er hlýjasti páskadagsmorgunn þar á bæ. Kaldasti páskadagsmorgunn var 1866. Þá fór frostið í -15,6 stig, það var 1. apríl, 14,7 stigum undir meðallagi. Hlýjastur að tiltölu, þ.e. miðað við meðaltal þess almanaksdags sem páskadag bar upp á, var 28. mars 1948; þá var morgunhitinn í Stykkishólmi 9,0 stigum ofan meðallags. Daginn áður mældist hæsti hiti á mannaðri veðurstöð í mars 18,3 stig á Sandi í Aðaldal, sá dagur er hlýjastur allra að tiltölu miðað við tímann frá pálmasunnudegi til miðvikudags eftir páska.

Tafla 1. Vik frá meðalhita í Stykkishólmi kl.9 dagana kringum páska, hæsta jákvæða vik og stærsta neikvæða vik.

dagur vik hlýjast ár kaldast ár
laugardagur 0,18 9,4 1852 -14,4 1866
pálmasunnud. -0,04 9,6 1880 -13,8 1902
mánudagur -0,02 10,1 1991 -15,4 1902
þriðjudagur 0,21 8,7 1956 -16,2 1859
miðvikudagur -0,13 9,8 1880 -13,6 1859
skírd 0,41 9,2 2005 -11,8 1858
föstud.langi 0,31 9,1 2003 -12,4 1859
laugardagur 0,12 10,3 1948 -13,9 1866
páskadagur -0,25 9,1 1948 -14,5 1866
annar páskad. -0,29 8,5 2005 -14,7 1917
þriðjudagur 0,11 8,1 2005 -10,3 1902
miðvikudagur 0,21 8,5 1984 -14,7 1866
fimmtudagur 0,43 7,6 1852 -13,8 1876


Þriðjudagur í dymbilviku, þann 19. apríl 1859, er að tiltölu kaldasti dagur tímabilsins frá pálmasunnudegi til miðvikudags eftir páska, þá var hiti 16,2 stigum undir meðallagi. Veturinn 1858 til 1859 var nefndur Álftabani, aprílmánuður þetta ár er sá kaldasti sem vitað er um hér á landi. Bati kom á páskum og snjó fór að leysa þó hægt gengi.

Bænadagarnir voru hlýjastir 2003, hvort sem tekið er tillit til almanaksdags eða ekki. Kaldastir voru þeir 1858. Hlýjustu páskadagarnir tveir saman voru 1884 (páskadagur 13. apríl), en að tiltölu árið 2005 (páskadagur 27. mars). Köldustu páskadagarnir komu 1917 (páskadagur 8. apríl) og eru þeir einnig kaldastir að tiltölu.

Hátíðardagarnir allir, frá og með skírdegi til og með annars páskadags, voru kaldastir 1866 en hlýjastir árið 2005.

Hitasveiflur

Miklar hitasveiflur eru algengar frá degi til dags langt fram eftir vori. Breytingar þessar eru á báða bóga. Hér verða nefnd þrjú dæmi um mikla og snögga kólnun um páskaleytið. Þriðjudaginn í dymbilviku 1963 var morgunhiti í Stykkishólmi 5,4 stig, sólarhring síðar var hann -10,8 stig. Laugardagsmorgun fyrir páska 1917 var morgunhiti í Stykkishólmi 3,7 stig, á páskadagsmorgun var hann kominn niður í -10,7 og var reyndar -14,1 stig að morgni annars dags páska. Árið eftir, 1918, var hiti á þriðjudag í dymbilviku 4,7 stig en daginn eftir var hann fallinn í -11,1 stig.

Veðrið kl. 18 9. apríl 1963
Íslandskort 9.apríl 1963 kl.18
Upphaf páskahretsins mikla 1963. Hretið er rétt skollið á í Reykjavík og að skella á fyrir austan fjall. Enn er hlýtt í Skaftafellssýslum. Iðulaus stórhríð með grimmdarfrosti og vindi yfir 20 m/s geisar um stóran hluta Norður- og Vesturlands. Skýringar á táknum og tölum (pdf 0,2 Mb). Klukkan 9 um morguninn var sami þrýstingur á Hornbjargsvita og í Hólum í Hornafirði, en ki. 18 hefur loftvog stigið um 15 hPa á fyrrnefnda staðnum en fallið um 12 hPa á þeim síðanefnda, Jafnþrýstilínur (um heil hPa) milli staðanna eru orðnar 27 talsins. [Úr safni VÍ].

Helstu páskahret eftir 1845

Erfitt er að skilgreina páskahret, hitinn ræður ekki einn og sér. Fer það líka eftir tíðinni á undan hvort páskarnir skera sig úr. Nú á dögum skiptir færð um páskana meira máli en áður. Veður sem hefðu talist vera lítilsháttar hríðarbyljir fyrr á tímum geta nú valdið meiriháttar samgönguröskunum, einmitt þegar flestir vilja vera á ferðinni. Vertíð á sjó var í fullum gangi um páskaleytið og fyrr á árum voru mikir sjóskaðar algengir. Hér eru helstu hretin talin í sérstöku skjali. Líklegt er að einhver hret vanti, sérstaklega þau stuttu. Sömuleiðis má vera að einhver séu oftalin, veðrið hafi alls ekki verið sérstaklega slæmt. Ef trúa á listanum gerir páskahret að meðaltali á um þriggja ára fresti.

Hretin eru langoftast samfara miklum norðan- eða norðaustanstormum. Mörg þeirra skullu mjög skyndilega á en önnur byggðust upp á lengri tíma. Í fáeinum tilvikum var um slæm vestanillviðri að ræða.

Á síðari hluta nítjándu aldar urðu 16 páskahret en 22 á fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Á seinni hluta tuttugustu aldar urðu 14 páskahret en engin hafa orðið nú á 21. öld. Listi yfir hretin er í meðfylgjandi skjali (pdf 0,02 Mb). Alræmdasta páskahretið varð árið 1963.

 

Páskahretið 1963
hiti í háloftum í apríl 1963
Hiti yfir Keflavíkurflugvelli 5. til 14. apríl 1963. Hæðarkvarði til hægri nær frá jörðu og upp í um 14 km hæð. Dagana fyrir hretið var mikil hæð í námunda við landið, veðrahvörfin voru þá bæði há og köld. Frost þar í kringum -65 stig. Aðfaranótt hins 9. gekk snarpt háloftalægðardrag til suðausturs yfir Grænland. Þá ruddist heimskautaloft suður með strönd NA-Grænlands og féll yfir Ísland um miðjan dag. Veðrið skall á skömmu fyrir hádegi nyrst á Vestfjörðum og í útsveitum á Norðurlandi og fyrir kvöld um land allt. Hæð veðrahvarfanna yfir Keflavík féll um að minnsta kosti 5 km. Ofan veðrahvarfanna dregst loft niður og hlýnar. Fyrir hretið var -65 stiga frost í 12 km hæð, en meðan hretið stóð var nú frost í sömu hæð minna en -45 stig. Öflug lægðardrög sem fara suðaustur um Grænland breytast undantekningalítið í lokaðar lægðir í háloftunum. Hér varð háloftalægð til fyrir suðaustan land þann 10. Hún dró um síðir hlýrra loft úr austri suður yfir landið og má sjá það gerast í kringum hádegi þann 11. (rauð punktalína) Þá fór aftur að hlýna hér á landi eftir óvenjumikinn aprílkulda. Hretið stóð þó mun lengur og maímánuður var óvenju hryssingslegur. [trj rissaði eftir gögnum úr safni VÍ].

Tilvísun:

Ólafur Einar Ólafsson, 1956. Vorhretið 1955, Veðrið 1. bls. 22-24.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica