Greinar
Sólstafir
Sólstafir / rökkurskuggar, séðir frá Hvanneyri.

Sólstafir og rökkurskuggar

Fyrirbrigði á himni

Trausti Jónsson 3.2.2010

Sólstafir verða til þegar sólarljós skín gegnum fjarlæg fjallaskörð eða rof í skýjum. Oft er sólin þá nálægt sjóndeildarhring eða jafnvel undir honum, þannig að geislunum slær upp á himininn. Því má nefna fyrirbrigðið rökkurskugga eða rökkurgeisla. Síðastnefnda orðið er bein þýðing á alþjóðlegu heiti fyrirbrigðisins, crepuscular rays.

Sólstafir, sem sjást þegar sól skín í gegnum skýjarof og niður í móskað loft, eru algengari en rökkurskuggarnir. Í sólarátt sýnast skuggarnir breiðast út frá sólinni, rétt eins og sést á myndinni hér fyrir neðan sem tekin var út yfir Faxaflóa 1. júní 2009.

Geislarnir sjást vegna endurkasts sólarljóssins af örsmáum ögnum, í móskuðu loftinu. Þetta eru ryk, saltagnir eða smádropar. Þrenging geislasafnsins upp á við á myndinni er þó sjónhverfing, geislarnir eru allir samsíða, en þeir þrengstu og efstu eru lengra í burtu en þeir sem nær sjónum liggja. Auðveldast er að nema þetta með því að ímynda sér að við horfum eftir vegi í áttina út í buskann, dekkri hlutar stafanna sýna þá hjólförin sem þrengjast eftir því sem fjarlægðin verður meiri, upp á við á myndinni. Þrátt fyrir þessa hjálp er erfitt að sjá að efsti hluti geislanna er lengra í burtu en sá neðsti.

Sólstafir á Faxaflóa
solstafir-2-HelgiBorg-09-9
Sólstafir á Faxaflóa 1. júní 2009. Ljósmynd: Helgi Borg Jóhannsson.

Skynvillan er minni þegar skuggar myndast rétt í þann mund sem sólin sest á bakvið fjarlæg fjöll. Þá slær miklum skuggum (og geislum á milli) upp á himininn, geislarnir sýnast sameinast í sólinni sem þá er bakvið fjöllin. Þá sjáum við vel að skuggar og geislar næst sólinni eru mun fjarlægari en þeir sem hærra eru á lofti.

Einkennilegust verður sú sýn ef sólin skín í gegnum skýjarof, bakvið fjöll, rétt neðan sjóndeildarhrings. Fjöll, sem ekki sjást, mynda þá skuggana, sem sýnast verða til að tilefnislausu. Alloft slær skuggunum upp í hvirfilpunkt og jafnvel áfram yfir himinhvolfið allt. Ef skilyrði eru góð sjást þeir sameinast í einum punkti við sjóndeildarhring, beint á móti sólinni. Þá er eins og ljóskastari (andsól) sé þar bakvið fjöllin og beini geislum sínum upp á himininn.

Sólstafir séðir frá Borgarnesi
sólstafir í norðurátt
Sólstafir / rökkurskuggar séðir frá Borgarnesi kl. 15:47 hinn 15. janúar 2010. Þeir virðast koma frá ljósi bakvið Baulu. Í raun og veru koma þeir úr þveröfugri átt. Ljósmynd: Þorleifur Geirsson.

Þetta fyrirbrigði sást óvenjuglæsilega á himni í Borgarfirði um kl. 16, 15. janúar 2010. Sólin skein þá í gegnum skýjarof og skarð milli tinda í Hafnarfjalli, sló upp á himininn yfir þvert loft og hvarf á bakvið Baulu, frá Hamarsgolfvelli séð, en bakvið Snjófjöll séð frá Hvanneyri. En sólin var í gagnstæðri átt. Það má einnig sjá af gullleitu skýjunum sem endurkasta ljósi hennar. Veðurstofunni bárust nokkrar mjög góðar myndir af fyrirbrigðinu. Myndatökumönnum er þökkuð árveknin og fyrir að leyfa birtingu myndanna. Sjáið þið rökkurskugga í sólarátt er rétt að þið lítið einnig í hina áttina.

Sólstafir og fjallið Baula
BLTh15012010412
Á þessari mynd, eins og á næstu mynd fyrir ofan, virðast sólstafirnir koma upp bakvið Baulu en koma úr þveröfugri átt. Óneitanlega glæsilegt sjónarspil. Ljósmynd: Björn Leifur Þórisson.

Tilfellið er að sólstafir koma einnig fyrir á gervihnattamyndum. Slík fyrirbæri má lesa um í sérstakri samantekt (pdf 1,0 Mb).

Fleiri myndir

Veðurstofan þiggur gjarna fleiri myndir af þessu fyrirbrigði.

Úr Flatey á Breiðafirði
Sólstafir eða rökkurskuggar yfir Barðaströnd, séðir frá Flatey. Myndin er tekin 28. september 2013 kl. 08:22. Ef hugtakið rökkurstafir á einungis við að kvöldi til, má kalla þetta sólstafi í gagnstæða átt við sólina (að morgni). Ljósmynd: Þórður Arason.
Úr Keflavík
""

Sólstafir verða meðal annars til þegar sólin skín í gegnum rof í skýjaþekju. Hér sést sólstafur koma inn á myndina frá hægri - rétt eins og ljóskastari. Gervihnattamynd hefur sýnt að rof voru í skýjaþekju suður af Reykjanesi. Sólin sem var mjög lágt á lofti hefur skinið þar í gegn. Myndin var tekin 13. janúar 2014 kl.12:30. Ljósmynd: Einar Guðberg Gunnarsson.

Úr Keflavík
""
Það sem virðist vera klósigar á myndinni er það ekki. Klósigar eru háský en þetta fyrirbrigði er í miðskýja- og lágskýjahæð. Myndunin er hins vegar á sama hátt og hjá klósigum - ískristallar falla niður úr litlu skýi. Sennilega eru þetta úrkomubönd - þá snjór. Hallinn verður til við það að vindur er meiri neðan til í úrkomubandinu heldur en ofar. Í háloftaathugun frá Keflavíkurflugvelli var vindur um 15 m/s af suðaustri í 3 km hæð en um 25 m/s af austri í 1300 metrum. Þegar úrkoman fellur niður í meiri vind hreyfist hún til hliðar. Neðar eru önnur ský - hugsanlega falla þau út líka nái úrkoman að ofan niður í þau. Trúlega hafa sólstafirnir verið fleiri. Útskýring: Trausti Jónsson.
Myndun skýjanna
""

Þegar rýnt er í hluta myndarinnar má sjá móðurský úrkomubandanna. Það eru litlir bólstrar úr vatnsdropum, svokallaðar netjuborgir (altocumulus castellanus). Ef ís byrjar að myndast í þeim geta vatnsdroparnir eyðst á svipstundu og allt skýið fellur til jarðar sem snjór (sem nær þó varla til jarðar) og líklega er það það sem gerðist í Keflavík þennan dag. Útskýring: Trausti Jónsson.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica